Mig rak í rogastans þegar ég sá orðið tómthússkattur í þessari frétt Morgunblaðsins. Fyrst hélt ég að þetta væri einhver misskilningur hjá Samfylkingunni en nánari athugun leiðir í ljós að þetta er einhver tugga meðal íslenskra stjórnmálamanna sem stöðugt er endurtekin. Til dæmis talar Bjarni Benediktsson um tómthússkatt í frétt frá því fyrir fimm árum. Í ljós kemur að þetta er misheppnuð þýðing á hugtaki úr ensku, vacant home tax, sem tekur eldra hugtak merkingarnámi.
Stundum held ég að almenn vitneskja um fyrirbæri sem nefnast orðabækur sé orðin takmörkuð. Sjáum hvað íslensk nútímamálsorðabók segir:
tómthús no hk, bú sem hefur hvorki jörð né skepnur, þurrabúð
Af þessu leiðir:
Mér finnst svosem ekkert skrýtið að almenn þekking á þurrabúðum sé ekki meiri en þetta. Orðið tómthús er sjálft ekki sérlega gagnsætt og því ekki að furða þótt fólk haldi að það jafngildi tómu húsi. Orðabækur eru þó öllum aðgengilegar og ég hefði haldið að embættismannastéttin, sem að uppistöðu er hámenntuð, myndi kannast við orðið úr skólagöngu sinni.
Hvernig er orðið tómthús þá samansett? Gluggum í orðsifjabók Ásgeirs Blöndal:
Og þar höfum við það. Óskandi væri að fólk fyndi annað orð yfir skatt á búsetulausar fasteignir, því að kenna þetta við tómthús gerir fátt annað en firra fólk skilningi á stétta- og stjórnmálasögu landsins. Ein hugmynd væri að kalla það sínu rétta nafni: braskskatt.