Ein af merkilegri kvikmyndum sovésku eftirstríðsáranna fjallar eiginlega ekki um neitt þannig séð. Örmagna maður dregur dauða konu sína á sleða gegnum snjóinn og heldur uppi einhliða samtali við hana á meðan. Hvert förinni er heitið er ekki með öllu ljóst. Við og við er klippt yfir á bjarndýr sem er að renna á lyktina. Þannig líður myndin áfram í hægu atburðaleysi í nær fjóra klukkutíma. Разговоры heitir myndin, eða Samtölin.
Þetta sérstæða verk var tekið upp árið 1947 með aðeins tveim fátæklegum kvikmyndavélum og náttúrlegri lýsingu, á 35mm grófkornótta svarthvíta filmu frá tékkóslóvakíska fyrirtækinu Fomapan og myndgæðin eftir því. Fyrir utan hversu illa hún hefur varðveist, því ýmsar skemmdir eru í eina eintakinu sem til er. Sagan segir að myndin hafi þótt móðgandi við stjórnvöld Sovétríkjanna, sitthvað hafi komið fram í einræðum Vasilijs við látna konu sína sem ekki hafi þótt viðeigandi og því hafi verið reynt að farga öllum eintökum. Lengi vel var þessi kvikmynd því ýmist talin glötuð eða jafnvel aldrei hafa verið gerð.
Hún á sér hvorki Wikipediusíðu né einu sinni síðu á IMDB. Enda hafa fáir séð þessa mynd og enn færri um hana fjallað. Mikið óskaplega sem mig langar að geta séð hana.