Ég vil afsaka skrifleysi mitt (svo ekki sé minnst á innihaldsleysi) að undanförnu með því að bjóða öllum lesendum Bloggsins um veginn upp á ímyndaðan mjöð. Lesendur mínir segi ég ekki, enda á ég ekkert í lesendum þessa bloggs og aukinheldur lesa þeir mig ekki, þeir lesa bloggið. Ef einhver vill aftur á móti lesa mig má láta mig vita með tölvupósti, svo ég geti þegar hafist handa við að skrifa mig.
Bloggara hefur borist áskorun um að semja kvæði í dróttkvæðastíl. Tekur bloggari áskorun þeirri fagnandi og mun kvæðið birtast hér að mér heimkomnum. Verður mér eigi erfitt um vik, að leita skáldskaparmjaðar á Ítalíu, en þar mun hann flæða um öngstræti og torg öll líkt og Bölverkr færi þar fljúgandi um, sullandi miði úr maga sér. Einnig mun þar finnast vín, líkt og Heiðrún væri þar sjálf mætt á svæðið. Í raun og veru hvílir hún makindalega á gullinþöktu þaki Valhallar, en ekki í Verona. Nammi.
Pant verða vopndauður! Þangað vill ek at lífi loknu fara.