Þá er ég kominn aftur úr ferð út í hverfiskondítoríið. Frá þeirri ferð er að segja, að í sömu svipan og ég kveikti mér í sígarettu við útidyr húss míns, veittist að mér gamall maður. Mælti hann þau orð: „Varaðu þig, sígarettur geta valdið krabbameini.“ „Nú,“ sagði ég „ekki vissi ég það. Það getur vel verið að þú hafir bjargað lífi mínu. Þakka þér fyrir!“ Karl brást ókvæða við orðum þessum og var augljóslega ekki sáttur. Tvennt má því valda, að annað hvort skildi hann háðið, eða hitt sem fyndnara væri, ef hann héldi mig vera hálfvita sem raunverulega vissi ekkert um skaðsemi reykinga.
Þegar í kondítorí var komið keypti ég mér kleinuhringi þrjá, hverja ég borða í þessum skrifuðu orðum. Varð poki minn, fylltur kleinuhringjum, fyrir fólskulegri árás geitungs, og ég sá fram á að þurfa að verja fæðu mína. Skildi ég við hann í köldum faðmi dauðans, svo hann hefði betur mátt sleppa þessu fremur en að reyna.