Þetta eru vafasöm fræði. Mann sem hefur „málgreind“ má alveg eins kalla mælskan. Það er engin ástæða til að gleyma sér í einhverjum „greindum“ þegar lýsingarorðið eitt og sér nægir til að lýsa viðkomandi. Það er líka betri íslenska.
Við skulum aðeins skilgreina hugtakið „greind“ svo allir viti hvað um ræðir:
Það sem staðlað greindarpróf mælir; eiginleiki einstaklings, sem gerir honum fært að taka stefnu og halda henni, samhæfa tæki og takmark, og gagnrýna eigin tilraunir til lausnar á vanda. Án mælinga er oftast átt við hæfni til afhverfrar hugsunar.
Þetta er ekki skilgreining Howard Gardner, enda virðist hans skilgreining eiga við um allt sem kalla má færni, hæfileika eða náðargáfu. Til hvers að flækja málin með að kalla íþróttamenn „íþróttagreinda“ eða tilfinninganæmar manneskjur „tilfinningagreindar“? Hvað í ósköpunum er tilfinningagreind? Skilgreining Mayers og Salovays er þessi:
Tilfinningagreind vísar til hæfni í að viðurkenna tilfinningar og tengsl þeirra og til að byggja rökhugsun og lausnaleit á þeim grunni. Tilfinningagreind felur í sér hæfni til að skynja tilfinningar, samlaga þær, skilja upplýsingar sem þær veita og hafa stjórn á þeim.
Svo við miðum við viðurkennda skilgreiningu á greind, er einhver möguleiki á að skilgreiningin á tilfinningagreind eigi við um greind yfir höfuð? Er þetta ekki frekar lýsandi fyrir ákveðinn persónueiginleika sem í daglegu tali er talað um sem tilfinninganæmi? Er kenning Gardner ekki bara bull?
Ég hallast að því. Við skulum aðeins fara að passa okkur á skilgreiningamaníunni. Í dag eru öll börn skilgreind með athyglisbrest, ofvirkni og lesblindu (kannski vegna þess að foreldrar þeirra láta sjónvarpið um að ala þau upp!). Foreldrum er sagt í huggunartón, að þó barnið geti ómögulega setið kyrrt og einbeitt sér að því að lesa, hafi það hugsanlega einhverjar aðrar „greindir“ sem hægt sé að virkja. Svo, þó það sé málinu óviðkomandi, eru börnin skilin eftir í umsjá sjónvarpsins og einu afskiptin sem foreldrar þess hafa af því er til að gefa því meira amfetamín (rítalín þykir þó huggulegra heiti) svo það haldist sitjandi og hljóðalaust á sínum stað; svo engin afskipti þurfi að hafa af þeim. Og þó barnið þitt þjáist af „rökhugsunargreindarskorti“ getur það kannski orðið eins og Bubbi Morthens (en um hans vitsmuni má svo sannarlega efast), því hann hefur svo mikla „tónlistargreind“. Kjaftæði og bull! Það er alveg hægt að kalla þetta sínum eðlilegu nöfnum og fá sömu niðurstöðu.
Það sem er hættulegt við greindakenninguna er hvernig uppeldis- og kennslufræðin tekur á málinu og hver þróunin verður í menntamálum grunnskólanna í framtíðinni. Gardner er slefandi yfir eigin hugmyndum um skóla sem taka á „öllum mögulegum greindum“, því ef barninu þínu gengur illa í fyrstu, þá er svo sniðugt að eyðileggja alla framtíðarmöguleika þess með því að troða því í hannyrðir því það hefur SVO MIKLA SAUMAGREIND!!! Og fólk lepur upp slefið og smitast af greindaveikinni. Menntun hefur nú þegar farið hnignandi á síðastliðnum tíu árum, en viljum við endanlega koma okkur aftur til steinaldar? Já, ef marka má útbreiðslu og vinsælda þessarar andskotans kenningar.
Og við erum þegar farin að súpa af því seyðið.