Ef gagnrýna á málfar annarra, skal aðgæta að stíga ekki á bananahýði hrokans, og misfarast málfarslega í sjálfri gagnrýninni. Sum lýsingarorð eru merkingar sinnar vegna aðeins brúkleg í einu stigi, enda þótt þau séu málauðginnar vegna einnig til í hinum tveimur. Þannig er rökvillan sú sama þegar sagt er að eitthvað sé réttara en annað og þegar Napóleon í Dýrabæ Orwells lét bæta við lagagreinina „öll dýr eru jöfn“ að sum dýr væru þó jafnari en önnur. Því það sem er rétt er annað hvort rétt eða rangt, líkt og það sem er jafnt er alltaf jafn jafnt, enda væru allar viðbætur aðeins til að skapa mun. Og þar sem er munur er enginn jöfnuður. Og þar sem er sannleikur er ekkert „sannara“, og ennfremur er ekkert „réttara“ að finna meðal atriða sem öll eru rétt.
Í þessa gryfju falla kennarar oft þegar þeir semja krossapróf. Þá eru nemendur oftar en ekki beðnir að merkja við réttasta svarmöguleikann af mörgum réttum. Það er órökrétt bón og nær væri að biðja nemendur að merkja við ítarlegasta svarmöguleikann. Þannig væri líka betra að segja: Ég hef heyrt ungabörn tala betri íslensku, enda getur málfar verið misgott, og skiptist þá oft á rétt eða rangt. En ekkert málfar er réttara en annað frekar en sumir eru jafnari en aðrir.