Merkileg þessi dagblaðaauglýsing frá Betra baki. Þar eru myndir af ýmsum gerðum rúma og svo mynd af Siggu Beinteins, með nafni hennar letruðu undir. En það er hvergi vitnað í æðislega reynslu Siggu af rúmunum, eða hinum kyngimögnuðu Spring Air Never Turn dýnum. Það er bara myndin og nafnið.
Þetta er náttúrlega bara snilld, ósnortið land í hinum víðáttumikla heimi auglýsinga. Þess verður ekki lengi að bíða uns auglýstir verða risajeppar við hliðina á mynd af Helgu Möller í leðurjakka, eins og ódýr og óviðeigandi gæðastimpill. Eða auglýsingar frá Office One þar sem Hemmi Gunn sést í námunda við einstaklega fínan heftara.
Málið er nefnilega einfalt: Þeir sem ekki kaupa eins rúm, jeppa og heftara og Sigga Beinteins, Helga Möller og Hemmi Gunn kannski eiga, þeir eru ekki töff. Því hver hefur efni á að taka áhættuna á að þessi glæsimenni eigi ekki slíka dýrgripi?