H-gír

Ég minnist þess að í gömlum Simpsonþætti þurfti Hómer að kaupa sér nýjan bíl. Í einu atriðinu sést hann hálftroðinn inn í ískyggilega lítinn bíl á rússneskri bílasölu, hjá Sergei nokkrum, að mig minnir. Sem bílasalinn ýtir bílnum úr hlaði hrópar hann á eftir Hómer að setja bílinn í H-gír. Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að stafurinn H í rússnesku táknar hljóðið N. H-gír gæti því verið hlutlaus gír. Þetta gæti líka verið tilviljun. Það er raunar líklegra að þetta sé tilviljun.

Í morgun gerði stúlka nokkur aðhróp að mér fyrir að vera orðinn eldri borgari. „Djöfull ertu ógeðslega gamall,“ sagði hún, „ég er átján, skilurðu!“ Það var góður samanburður. Annars er þessi tuttugastiogfyrsti árlegi fæðingardagur minn senn runninn til viðar. Þakka öllum sem mundu eftir því og sömuleiðis þeim sem mundu ekki eftir því og slá hausnum í vegginn yfir gleymsku sinni (nei, nú lýg ég að sjálfum mér!). Sjálfur man ég aldrei eftir afmælisdögum og öll hátíðahöld og miðjuathyglisfókuseringar afmælisbarnsins hvers konar sem þeim fylgir þykir mér í hæsta máta þarfleysa. Kannski skemmtileg þarfleysa en þarfleysa engu að síður. Annars nenni ég lítið að velta mér upp úr afmælum. Ekki flyt ég skálræður um hve lífið sé stutt og dauðinn langur o.s.frv. þótt ég sé orðinn svona djöfull aldraður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *