Árið 2006 var dálítið eins og að eiga í reiptogi við ósýnilegan her, kippa einu sinni í en duglega, draga svo heilu hendurnar inn eins og fiska á færi. Allt sem ég gerði var eitthvað svo öfgakennt, fór einhvern veginn svo langt yfir strikið.
Að því sögðu gæti samlíkingin virst skrýtin ef litið er til þess að flest skammtímamarkmið mín urðu að veruleika á árinu. Ég lauk langþráðu stúdentsprófi með þrjár viðurkenningar, þar af eina fyrir framúrskarandi ritgerð og aðra fyrir félagsstörf í þágu skólans, og hlaut draumastarfið mitt samfara námi í íslenskum fræðum. Ég kynntist miklu átrúnaðargoði, kynntist miklu fleiri skáldum og rithöfundum, gaf út bók (kaupist hér!) hjá bókaútgáfunni sem ég átti þátt í að endurstofna, hélt fyrirlestur gegn borgun og hlotnaðist sá heiður að gerast penni á Múrnum (raunar hef ég ekkert skrifað þar langalengi). Ég fór í pólitíska sendiferð til Finnlands sem einn fulltrúa Ungra vinstrigrænna, fékk fyndið viðtal í jólablaði Vikunnar (lærði að elda jólamat fyrir tilefnið), varð álitsgjafi á Blaðinu og ferðaðist um landið. Ennfremur flutti ég í Vesturbæinn, las upp ljóð á Menningarnótt og eignaðist þónokkra nýja vini.
Þetta er engan veginn tæmandi listi, þetta er bara það helsta sem ég man. Þrátt fyrir allt þetta er ég ekki viss um hvort 2006 var gott ár eða slæmt. Kannski bara hvorugt. Þá er allt slæmt sem átti sér stað ótalið og þeir annmarkar sem vissulega voru á hverju og einu ofantöldu atriði. Ekkert er fullkomið, og kannski er það martröð fullkomnunarsinnans. Að minnsta kosti þegar slæmu atriðin standa upp úr í minni hans en það góða gleymist – það góða í hinu slæma.
Það er vegna þess að í raun er þessi upptalning flottari á pappírnum en í reyndinni, af því afleiðingarnar eru ekki upptaldar á afrekaskrá ársins. Allt þetta tók tíma frá einhverju allt öðru og oft og tíðum mikilvægara (að frátöldum stúdentsprófum, þá tók annað ómerkilegra við), ég varð eirðarlausari, viðskotaillri og skaut einhvern veginn langt yfir markið í pyrrhosarsigri á pyrrhosarsigur ofan. Ég dró inn hendur á reipi, sat uppi eftirá klórandi sjálfum mér í hausnum, spyrjandi mig hvað hefði unnist með átakinu. Yfirleitt ekki neitt, eða í það minnsta stóðu verðlaunin á sér. Vinnan var launin, arbeit macht frei. Ég var orðinn þræll hverfulrar atorkusemi, þ.e.a.s. hvert klárað verkefni kallaði á annað viðameira og flóknara verkefni, en orkan þvarr jafnframt sem því nam og áhuginn með. Á gamlárskvöld sat ég með glas af freyðivíni, horfði af svölunum á flugeldasýninguna og taldi hendurnar sem ég hafði dregið um árið.
En hvað lærði ég? Líklega ekki neitt, nema það að vinnan gerir menn ekki frjálsa og að vinna getur ekki verið laun í sjálfri sér nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég get hins vegar engar ályktanir dregið. Nema mögulega þá að mig vanti eitthvert áhugamál til að vega upp á móti þessari öfgakenndu hugmynd minni um að ég geti gert allt og það allt á sama tíma; til lengri tíma litið er það hugmynd sem gæti gengið af mér dauðum. Kannski ég gangi á fjöll, vona bara að ég standist mátið að taka tölvuna með. En þarmeð er komið að fyrsta dagskrárlið ársins, að fá sér bíl. Þartil ég á svoleiðis eru allar hugmyndir um sveitaferðir draumórar einir reistir á skýjaborgum sem hrunið gætu undir eins og verkefnin taka að hrannast upp kringum mig og haldið styrkist um reipið.
Eða önnur leið og einfaldari: Hættu að réttlæta sjálfan þig, hættu að gera þér lífið erfitt og gerðu það sem þú vilt. Ef árið á undan kallar á áramótaheit gerðirðu líklega einhverja vitleysu. En þetta er ekki áramótaheit, bara létt stefnuskrá … einmitt já.
Öss, ekki segja að ekkert hafi áunnist með hringferðinni um landið! o_O
Hvað mig varðar, var þetta besta sumarfrí ævi minnar! 😀
Þú skrifaðir heil ósköp og fékkst allnokkrar nothæfar myndir teknar af þér. :Þ
Hvað segirðu svo um góðan sunnudagsbíltúr? 🙂
-Og hvers vegna þarf ég að enda allar setningar á broskörlum?… nema þessa… . . . 😛 … Dem…
Ha, nei! Það var ekki málið, að sjálfsögðu var ferðin frábær. Þetta átti ekki að eiga við um allt, enda verður t.d. ýmislegt að teljast hafa unnist með stofnun Nykurs o.fl.
En árið var ekki fullkomið og þaðanafsíður margt annað. Raunar var fæst sem gerðist gallalaust og ávallt má gera betur. Eða, gera það öðruvísi.
Og ég er alltaf til í sunnudagsbíltúrinn, hvert svo sem för er heitið. Þú gerðir mig húkkt í sumar, helvítis kvikindið, svo þér er í lófa lagið að leysa mig úr fráhvörfum!