Þær eru margar hverjar alveg afskaplega leiðinlegar, kjánalegar, illa skrifaðar, illa leiknar og óraunsæar. Skemmtilegar undantekningar frá því eru Sódóma Reykjavík og 101 Reykjavík. Aðrar myndir sem því miður falla að einu eða öllum ofangreindum atriðum eru Englar alheimsins, Dís og nærri því allar myndir gerðar fyrir aldamót.
Ég er að horfa á A Little Trip to Heaven núna. Hún er eitthvað það allra leiðinlegasta sem ég hef horft á lengi. Og ekki nóg með það heldur er hún illa skrifuð, illa leikin, ótrúverðug, kjánaleg og bersýnilega að mestu tekin upp á Íslandi – meira að segja prýðileg tónlist Mugisons virkar hálffáránlega á stemninguna. Á meðan myndin rétt lullar áfram er plottið á slíkri hraðferð að meira að segja Mýrin myndi skammast sín. Það er eitthvað svo hryllilega vandræðalegt við alla framvindu að ég bara veit ekki almennilega hvað ég get sagt.
Nema bara þetta: Ef þið eruð þreytt á að fylgjast með íslenskum fjármálamarkaði þá eru fleiri leiðir til að sjá tugmilljónum sóað í vitleysu. Eitt gott hef ég þó að segja um myndina og það er að allt í henni minnir á Ísland níunda áratugarins. Það er í sjálfu sér afrek sem vert er að nefna.
Little Trip to hell sögðu sumir. Ekki veit ég hvað Englar Alheimsins eru að gera í þessari upptalningu samt…
Engla alheimsins vil ég flokka undir óraunsæa, kjánalega og sumpart illa leikna. Samræðurnar í henni ganga einfaldlega ekki upp. Ef fólk talaði yfirleitt svona væri yfirborðsleg skrúðmælgi óþekkt fyrirbæri.
Það er auðvitað af því handritið er unnið uppúr bók sem er sögð frá sjónarhorni eins manns. Á meðan sögumaður má fabúlera samræður svosem aðrar minningar gengur myndin ekki upp á þann veg, af því hún fúnkerar ekki sem endurminning þar sem hún gerist í rauntíma.
Vona að það sé nógur rökstuðningur.
Þú veist þú mátt ekki rakka svona niður íslenska kvikmyndagerð, þá á hún ekki séns! Englar alheimsins er auðvitað búin að fá sinn séns og nýta hann vel svo.. (ég er þó ekki sammála áliti þínu á myndinni, mér fannst hún ganga vel upp). En nú langar mig ekkert að sjá Little trip to heaven!
– Menn? Við erum engir andskotans menn.
– Hvað erum við þá?
– Farandskuggar.
Ég get ennþá ekki gúterað samræðurnar …
Og í guðs bænum ekki sjá Little Trip. Hún er í alvörunni svona léleg.
Ef þú horfir á Kalda slóð þá lagast þetta. Engin íslensk kvikmynd er léleg, leiðinleg eða illa leikin í samanburði við hana.
Hvað um Nóa albínóa? Hún leynir á sér.
Og svo Astrópía. ZikZak er fín innspýting í íslenska kvikmyndagerð.
Nói var fínn – ÉG SÉ EKKERT ANNAÐ EN BULLANDI FEIGÐ Í ÞESSUM BOLLA! Hef ekki séð Astrópíu.
Ég er nú svo einföld að ég sætti mig við þá staðreynd að aldrei á eftir að gera jafnvelheppnaða íslenska mynd eins og Stellu í orlofi.
Fór um daginn á Sveitabrúðkaup.
Fansnt hún býsna góð.
Var að sama skapi sáttur við Brúðgumann.
Arngrímur: þú misskilur Engla Alheimsins. Fólk talaði virklega svona fyrir 20-30 árum síðan.
Það hlaut að vera. Ég er náttúrlega svo ungur, eins og fólk þreytist aldrei á að benda mér á.