Það er ekki hægt að treysta einu einasta orði sem fram kemur í fjölmiðlum. Skilaboðin eru svo æði mörg og misvísandi að það stendur varla steinn yfir steini. Þetta er bara ein tilraun til að greina ástandið.
Bresk og hollensk stjórnvöld eru sögð kúga Íslendinga með því að standa í vegi fyrir skrímslalegri skuldsetningu þjóðarbúsins gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það sem er kallað kúgun núna gæti þegar nánar er gáð komið okkur betur til lengri tíma, og þar sem Bretinn neitar því staðfastlega að hafa hönd í bagga höfum við aðeins Hollendingum að þakka fyrir það.
Norðurlandaþjóðirnar segjast engar upplýsingar hafa fengið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um aðkomu að láni til Íslands, og allt bendir til þess að þær muni halda að sér höndum þar til formsatriðinu er fullnægt. Hvers vegna álit þeirrar ógeðfelldu stofnunar skiptir Svía og Norðmenn máli er efni í miklar bollaleggingar.
Þar fyrir utan munu Norðurlöndin ekki fá neinar upplýsingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrr en gjaldeyrissjóðurinn fær upplýsingar frá Íslandi um hvernig eigi svo að ráðstafa þessum peningum, og það enda þótt gjaldeyrissjóðurinn hyggist sjálfur ráðstafa þeim líkt og svo mörgu öðru í íslenskri stjórnsýslu, eftir að íslensk stjórnvöld selja þeim umboðið til þess – í tráss við eðlilegan gang lýðræðis.
[uppfært: þegar ég segi að IMF skorti upplýsingar er miðað við fréttir annarrar hvorrar sjónvarpsstöðvarinnar, Morgunblaðið segir hinsvegar að enn vanti lánsloforð að andvirði 500 milljörðum dollara til að málið verði afgreitt, og það er engin leið til að vita hvort er satt nema hvorttveggja sé – og er þá ekki bætandi á hringavitleysuna]
Það er hinn svokallaði aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar sem þeir þykjast vilja núna. Fyrst hélt ég að hann væri til, það bara mætti ekki segja íslensku þjóðinni frá því í hverju hann fælist. Ef það má ekki segja IMF frá því heldur hallast ég þó heldur að því að hann sé ekki til. Það er sjálfsagt ennþá rifist um hann í stjórnarráðinu – ef þau eru einu sinni komin það langt. Við fáum ekkert að vita meðan stjórnvöld vilja ekkert segja. Ef stjórnvöld vilja ekkert segja er það merki um að ástandið sé það slæmt að þau óttist uppþot.
Það eina sem er á hreinu eru skilyrði gjaldeyrissjóðsins. Þau felast í stýrivaxta- og skattahækkunum auk niðurskurði á opinberri þjónustu. Ofan á bætist að skuldsetningin verður ekki afgreidd nema Íslendingar ábyrgist einnig skuldir íslenskra milljarðamæringa í Bretlandi og Hollandi. Ólgan virðist í ofanálag vera að nálgast suðupunkt í Þýskalandi. Og núna er orðið á götunni það að aðalfulltrúi Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé Davíð Oddsson, þannig að heimatökin ættu að vera hæg vilji menn með raun og sanni ganga að þeim skilyrðum.
Ef það er satt þá er augljóst að Seðlabankinn, í umboði ríkisstjórnar, í umboði Alþingis, í umboði þjóðarinnar, sér hag sinn (ekki okkar, nota bene) ekki í að skuldsetja þjóðarbúið umfram efni næstu áratuga, meðan kröfur eru gerðar um að einu eða öllum skilyrðanna verði fullnægt. Þá á ég við Icesave. Það hefur þegar komið fram í máli forsætisráðherra að Íslendingar muni ekki ábyrgjast innistæður Icesavereikninganna – enda fjarstæða að gera slíka kröfu – og þarmeð hlýtur okkur að skiljast að samningar muni ekki nást við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Spurningin er því sú hvaðan lánin muni koma, ef yfirleitt, en kannski fyrst og fremst sú hvaða endemis þjónkun Norðurlandanna við auðvaldið það er að neita okkur um lán nema gjaldeyrissjóðurinn gefi merkið. Þetta kemur gjaldeyrissjóðnum ekkert við svo framarlega sem ég get séð, svo lengi sem ríkisstjórnir heimsins taki sig saman um að sýna það í verki að skuldbindingar þeirra eru fyrst og fremst við fólk en ekki stofnanir. Það eru stofnanir og elítur sem komu Íslendingum í þetta klandur, ekki þjóðin sjálf, og það dugir fjandakornið ekki að eiga að hanka hinn vinnandi mann á láni sem hann aldrei tók. Hvað stoðar það að skjóta sjúklinginn?
Eiríkur Bergmann hefur bent á að Bretar beri sjálfir ábyrgð á Icesave eftir að þeir tóku bankann yfir. Að ríkisstjórnin hunsi slíkar ábendingar er enn einn nagli í stjórnarsamstarf sem hingað til hefur einkennst af ráðleysi, aðgerðaleysi og upplýsingaleynd. Og ég sé ekki betur en allt sé í baklás í stjórnarráðinu.
Forsætisráðherra talar um sjálfstæði Skotlands (ha?), durgshátt breskra stjórnvalda og kallar íslenska mótmælendur skríl. En segir ekkert um ástandið. Iðnaðarráðherra bloggaði í gær í fyrsta sinn eftir að kreppan skall á, í sjálfbirgingslegri þórðargleði yfir ástandinu í Framsóknarflokknum. En honum dettur ekki í hug að segja eitt einasta orð um ástandið í þjóðfélaginu. Hvar er æra þessa manns? Utanríkisráðherra semur við Breta um „loftrýmiseftirlit“ fyrir milljarða, sem fyrir utan að vera heimskulegasta peningasóun sem hugsast gæti, væri betur varið í að tryggja að hinir verst settu svelti ekki á götum úti. Viðskiptaráðherra gerir og segir ekkert. Fjármálaráðherra gerir og segir ekkert. Félagsmálaráðherra, sem þó gerir eitthvað, má gera andskotans gott betur.
Og hvar hvolfir þessu öllu niður? Nákvæmlega hér: Það verður mótmælt á laugardaginn, og mér segir svo hugur að mótmælendur verði æstari þá en síðast. Og ef forsætisráðherra vogar sér að kalla kjósendur skríl, vanfær sem hann er um að sjá hverjir hlóðu hásætið undir rassgatið á honum, þá á hann ekki von á neinu betra.
Fólk sem kallar eggjakast skrílslæti og þaðan af verra, veit nú varla (eða vill ekki vita) hvað almennileg læti eru.
P.s. ég skrifaði smá skýringu á verkefninum við færsluna hér fyrir neðan.