Við sem vinnum við þjónustustörf þurfum að venjast því að endurtaka okkur oft yfir daginn. Frá því við færðum afgreiðsluaðstöðuna okkar um daginn hefur annar hver lánþegi – ég ýki ekki – sagt: Hva, bara alltaf verið að breyta!
Sum okkar hafa kosið að tala um hagræðingu, ég á hinn bóginn vil ekki heyra það orð í mín eyru og segi fólki að í næstu viku verði borðið komið í hitt hornið. Einum lánþega sagði ég að þetta væri félagsfræðitilraun til gamans gerð.
Á meðan eykst alltaf aðsóknin og metið í nýskráningum skírteina er slegið dag hvern. Í dag komu 400 manns á bókasafnið. Það er með ólíkindum fyrir lítið hverfissafn sem aðeins er opið í níu tíma á dag. Miðvikudagar eiga að heita rólegustu dagarnir.
Undantekningalítið er fólk yfir sig hrifið af þjónustunni sem við veitum. Undantekningarnar eru það fólk sem yfirleitt segir ekki mikið og er því ekkert sérstaklega að hrósa okkur. Ég man ekki hvenær síðast var kvartað við mig. Sá þverskurður borgarbúa sem kemur á litla bókasafnið í Sólheimunum og almennt fann þörf á að tjá sig um pólitík – nokkuð stór hluti vel að merkja – var allur í stjórnarandstöðu fyrir skiptin.
Ef einhver tjáir sig um pólitík núna, sem er undantekning fremur en hitt, þá heyrast aldrei styggðaryrði um nýju stjórnina. En hún hefur svosem ekki verið lengi við völd. Lánþegar tala hinsvegar þónokkuð um Davíð Oddsson, og nauðsyn þess að hann víki.
Reykjavíkurborg hefur svo kveðið sinn kreppudóm, og til að mæta kröfum borgarinnar hafa svið hennar hvert fyrir sig gert viðeigandi ráðstafanir. Bókasafnið hefur ekkert bruðlað og því er nokkuð erfitt að mæta kröfum um niðurskurð – ólíkt öðrum stofnunum borgarinnar. Það er því útlit fyrir að öllum útibúum þurfi að loka í tvær vikur í sumar, aðeins einu í einu að sjálfsögðu. Þetta var ákveðið í stað þess að skerða þjónustu, svosem að stytta opnunartíma og annað slíkt.
Þrátt fyrir ýmislegt sem fólk getur haldið eru bókasöfnin nefnilega vel reknar stofnanir. Og mér finnst þetta allt segja sína sögu, allt ofangreint. Það er í raun fátt sorglegra en ef að fíflagangur fyrrum stjórnvalda verður til þess að skera þarf niður í grunnþjónustu samfélagsins. Og heyri það náunginn sem skrifaði í moggann og lagði til einkavæðingu bókasafnanna, að hann er fífl og fáviti, og megi hann hvergi þrífast meðal siðaðra manna.
Ég átti margar yndisstundir í Sólheimasafninu. Amma mín, Hanna Sigurbjörnsdóttir, vann þarna í tugi ára og ég held t.d. að ég hafi lesið allan Bob Moran á safninu hjá henni. Skilaðu kveðju til vina minna í hillunum..
ég held að frjálshyggjufávitar (sem eru sjálfstæðismenn) fari aldrei á bókasöfn.
Einkavædd bókasöfn? er það svoleiðis nokkursstaðar í víðri veröld? Það verður að nafngreina svona fífl!
Annars var meiren fjórðungsaukning á útlánum hér í bæ síðan 1 september – eða daginn sem við fluttum!
http://www.sfk.is/index.php?option=com_content&task=view&id=2653&Itemid=78
Vá, hvað það er sjálfhverft að halda því fram að stofnanir sem sjá fólki fyrir afþreyingarefni séu að veita einhverja grunnþjónustu.
Og því ekki að einkavæða ef það er svona blússandi gangur á útlánum? Varla eru bækurnar svona dýrar eða þá starfsliðið. Svo væri hægt að láta bókalestursmeistara ríkisins ákveða hvaða bækur skyldi vera í boði til þess að gróðapungarnir færu ekki eingöngu að bjóða upp á einhverja bestsellera.
Spurðu fólkið sem nýtur þessarar þjónustu hvort því finnist hún mega missa sín.
Fljótt á litið sjá bókasöfnin fólki aðeins fyrir afþreyingarefni, en í raun gera þau miklu meira en bara það.
Þar fyrir utan hefur einkavæðing opinberra stofnana aldrei leitt neitt gott af sér á Íslandi og þó víðar væri leitað. Eða finnst þér póst- eða símaþjónusta hafa batnað síðastliðin ár – að ég tali nú ekki um hvað einkavæðing bankanna færði okkur?
Afþreyingarefni? Bókasöfn gegna s.s. engu fræðsluhlutverki, eða hvað?
Fyrir utan það.
Ekki það, mestu útsvarsgreiðendurnir greiða varla nema en þúsund krónur á ári til Borgarbókasafns.
Það sér það hver heilvita maður að slík þjónusta verður ekki bætt í einkarekstri, hvað þá heldur að hún fáist ódýrar keypt með nokkru öðru rekstrarformi.
Eða eru menn kannski tilbúnir til að fá sér skírteini á verði árskorts í World Class til þess eins að halda uppi vörnum fyrir hið dásamlega einkaframtak?
Fokkd opp segi ég. Fokkd opp. Ég tek heilshugar undir thad ad bókasofn séu grunnthjónusta og ef thad gerir mig sjálfhverfa thá skal ég bara vera thad.
Já og thví má vid baeta ad ég sé thau sem órjúfanlegan hluta af heilsteyptu menntakerfi.
Næst á döfinni verða sjónvarpslausir fimmtudagar, er það ekki bara? Þá verður nú fyrst fjör á bókasöfnum (sé opið þ.e.a.s.).
Annars hef ég oft velt því fyrir mér hvort sé nauðsynlegt að halda úti sjö útibúum í ekki stærri borg en Reykjavík.
Kemur gamla sjónvarpskommentið. Hvernig tengirðu annars þetta tvennt, að vinna á bókasafni og vilja sjónvarpslausa fimmtudaga? Ekki það, mér væri persónulega alveg sama. Enda horfi ég ekki á sjónvarp.
Og nei, það er líklega ekki nauðsynlegt að halda úti sjö útibúum. En í almannaþjónustu spyr maður ekki endilega hvað sé nauðsynlegt fremur en hvað sé æskilegt. Og eins og staðan er þá fælist óverulegur sparnaður í að loka einu þeirra.
Ég tengi það tvennt að vinna á bókasafni og vilja sjónvarpslausa fimmtudaga hreint ekki neitt og það var ekki það sem ég átti við (enda var fjallað um annað í færslunni en bara það að vinna á bókasafni).
Ég biðst velvirðingar á að hafa móðgað þig svona. Ég sé það núna að ég hefði heldur sleppt því að hætta mér hingað inn.
Ég móðgaðist nú ekki, og vertu alltaf velkominn.