Bergshús stóð ennþá 1987. Það var greinilega ekkert sérlega fallegt hús (smellið á myndina til að stækka):
Fengið úr Mannlífi við Sund 3.b., Páll Líndal.
Um Bergshús skrifar Páll Líndal:
Alexíus Árnason lögregluþjónn mun hafa reist þetta hús um 1865. ‘Í þessu húsi hafði sá nafnkunni snillingur átt heima á efri árum æfi sinnar. Innan þessara bókfellslegu veggja hafði hann gengið um gólf, langur og grannur í svarta diplomatinum, með baðmullarhattinn hangandi aftan í hnakkanum, niðursokkinn í lævísleg heilabrot um skæðaþjófa og riklingshnuplara bæjarlífsins’ (Þórbergur Þórðarson 1964, 59 [Ofvitinn])
Í húsinu átti einnig heima um skeið Eiríkur Ólafsson frá Brúnum […] og síðar Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld (d. 1906). Húsið hefur lengst af gengið undir nafninu Bergshús, kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld, frá því um 1885. Leigjandi hjá honum um tíma var Þórbergur Þórðarson sem segir frá dvölinni þar í Ofvitanum: ‘Herbergið, sem við fengum þarna til íbúðar, var uppi á lofti í vesturenda hússins, og gestir … er þangað tóku að streyma, þegar leið á haustið, kölluðu það í gamni Baðstofuna, af því að það var undir súð og allur heildarsvipur þess minnti mjög á sveitabaðstofu’ (sama rit, 54).
Búið var í húsinu fram um 1960 en þá var því breytt mikið og hefur verið rekin verslun þar síðan.
– Sama rit, bls. 63-4.
Meðal annarra bjó Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld í Bergshúsi einsog Páll segir, áður en Þórbergur flutti þar inn. Einu bók hans, Kvæði og sögur, á ég í frumútgáfu frá 1909. Bókin er gefin út að honum látnum, en hann lést úr tæringu. Fyrsti eigandi, Þorbergur Þórðarson, hefur skrifað nafn sitt á fremra saurblaðið. Hún hefur ef til vill verið keypt á útgáfuárið, sama ár og Þórbergur flutti inní Bergshús af Vitastígnum.
Seinni eigandi, Ragnar Þórarinsson, hefur strikað yfir nafn Þórbergs. Hann bætir því við að bókin sé keypt 2-4 1912 í Reykjavík. Ég kannski skanna inn saurblaðið þegar ég nenni.
Ef þið svo viljið vita hvað Kjaftaklöpp er þá er mér vitaskuld ljúft og skylt að útskýra það.
Endilega útskýrðu það.
Gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis nefndust Kjaftaklöpp. Þar komu bæjarbúar oft saman og skiptust á slúðri og öðrum fregnum.
Þarna var leikfangaverslun þegar ég var krakki. Man ekki hvenær húsið var fjarlægt en það stóð til að fara með það upp á Árbæjarsafn.
Mikil synd að það var ekki gert.
Annars vil ég hrósa þér, Einar, fyrir pistil sem ég sá eftir þig á facebooksíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Það er fullt tilefni til að varðveita heimildir um götumyndir gegnum tíðina.
Sæll flott húsið er þetta hús einhvers staðar í útlöndum? Nýja síðan mín er skrif.hi.is/aug8
Takk fyrir það.