Bergshús IV

Bergshús stóð ennþá 1987. Það var greinilega ekkert sérlega fallegt hús (smellið á myndina til að stækka):


Fengið úr Mannlífi við Sund 3.b., Páll Líndal.

Um Bergshús skrifar Páll Líndal:

Alexíus Árnason lögregluþjónn mun hafa reist þetta hús um 1865. ‘Í þessu húsi hafði sá nafnkunni snillingur átt heima á efri árum æfi sinnar. Innan þessara bókfellslegu veggja hafði hann gengið um gólf, langur og grannur í svarta diplomatinum, með baðmullarhattinn hangandi aftan í hnakkanum, niðursokkinn í lævísleg heilabrot um skæðaþjófa og riklingshnuplara bæjarlífsins’ (Þórbergur Þórðarson 1964, 59 [Ofvitinn])

Í húsinu átti einnig heima um skeið Eiríkur Ólafsson frá Brúnum […] og síðar Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld (d. 1906). Húsið hefur lengst af gengið undir nafninu Bergshús, kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld, frá því um 1885. Leigjandi hjá honum um tíma var Þórbergur Þórðarson sem segir frá dvölinni þar í Ofvitanum: ‘Herbergið, sem við fengum þarna til íbúðar, var uppi á lofti í vesturenda hússins, og gestir … er þangað tóku að streyma, þegar leið á haustið, kölluðu það í gamni Baðstofuna, af því að það var undir súð og allur heildarsvipur þess minnti mjög á sveitabaðstofu’ (sama rit, 54).

Búið var í húsinu fram um 1960 en þá var því breytt mikið og hefur verið rekin verslun þar síðan.
– Sama rit, bls. 63-4.

Meðal annarra bjó Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld í Bergshúsi einsog Páll segir, áður en Þórbergur flutti þar inn. Einu bók hans, Kvæði og sögur, á ég í frumútgáfu frá 1909. Bókin er gefin út að honum látnum, en hann lést úr tæringu. Fyrsti eigandi, Þorbergur Þórðarson, hefur skrifað nafn sitt á fremra saurblaðið. Hún hefur ef til vill verið keypt á útgáfuárið, sama ár og Þórbergur flutti inní Bergshús af Vitastígnum.

Seinni eigandi, Ragnar Þórarinsson, hefur strikað yfir nafn Þórbergs. Hann bætir því við að bókin sé keypt 2-4 1912 í Reykjavík. Ég kannski skanna inn saurblaðið þegar ég nenni.

Ef þið svo viljið vita hvað Kjaftaklöpp er þá er mér vitaskuld ljúft og skylt að útskýra það.

6 thoughts on “Bergshús IV”

  1. Þarna var leikfangaverslun þegar ég var krakki. Man ekki hvenær húsið var fjarlægt en það stóð til að fara með það upp á Árbæjarsafn.

  2. Mikil synd að það var ekki gert.
    Annars vil ég hrósa þér, Einar, fyrir pistil sem ég sá eftir þig á facebooksíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Það er fullt tilefni til að varðveita heimildir um götumyndir gegnum tíðina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *