Við Þórbergur

Erlendur í Unuhúsi var okkar teingiliður, en eftir að hann dó og Unuhúsi var lokað bar fundum okkar Þórbergs ekki saman nema með höppum og glöppum, einna helst í gestaboðum þar sem ekki er kostur að blanda geði við menn. Ég sá hann seinast sitja einmana og yfirgefinn á bekk í manntómum gángi á Vífilstaðahæli undir kvöld seint í sumar leið. Hann sagði mér að búið væri að „taka af sér“ penna og pennaskaft, blekbyttu og blað, hvað þá hann hefði bók af nokkru tagi að líta í. Mér fanst þetta mætti ekki svo til gánga og reif blað úr vasabókinni minni og skrifaði á það eina vísu eftir Hannes stutta, „Brúðkaupsdagur Dags kom þá, dúði fagur skrúði“ osfrv, og fékk honum. Hann stakk bréfsnuddunni oní gleraugnahúsin sín, horfði hýrlega á mig, en brosti með samanbitnum vörum.
Fyrir nokkrum árum tók hann mig útí horn í kokkteilboði og segir mér þá þessi tíðindi: „Nú eru þeir farnir að rekast á menn á gángi hér uppí bæ með eina nös og ekkert miðsnesi.“
Þetta mun hafa verið um þær mundir sem ormurinn hafði nýsést í Lagarfljóti, en Þórbergur verið gerður heiðursfélagi í monstrólógíska félaginu breska sem stendur undir ægishjálmi og hlífiskildi bretakonúngs. Ég stíng nú uppá því við Þórberg hvort ekki muni vera mál til komið að safna undirskriftum um áskorun til ríkisstjórnarinnar að láta flytja Lagarfljótsorminn híngað suður og setja hann hér í Tjörnina. Ekki hafði Þórbergur trú á slíku fyrirtæki; dularfull fyrirbrigði var ekki hægt að skipuleggja, allra síst undir þessari ríkisstjórn, heldur urðu þau að koma af sjálfu sér, að því hann taldi.
Við héldum áfram að vera vinir í fjarska eftir fall Unuhúss, og á þá vináttu brá ekki skugga þó hann væri sá maður sem mér hefur fundist einna óskiljanlegast saman settur allra sem ég hef kynst; og honum áreiðanlega sýnst hið sama um mig. Þórbergur var í mínum augum ekki aðeins tveir eða þrír menn, heldur tvær eða þrjár ólíkar heimsmenníngar að gáskafullum leik í einni persónu sem þó aldrei klofnaði.
Útlendíngar töldu hann vera eina manninn í heiminum sem í senn væri marxisti og andatrúarmaður. Þeir sóttu fast eftir að kynnast slíkum manni og ræddu þetta dularfulla fyrirbrigði oft við íslendínga, þarámeðal undirritaðan, og vildu fá skýríngu á því. Ég sagðist ekki þekkja hann öðruvísi en þann rithöfund sem því stæði næstur af náttúrunni að skrifa óbundið mál líkt íslensku gullaldarmáli 13du aldar, ef hann vildi. Slík svör fóru fyrir ofan garð og neðan hjá útlendíngum.
Mér verður ógleymanlegur fundur þar sem ég var nærstaddur með Þórbergi og pólskum prófessor sem hér var á ferð, og reyndar hefur skrifað bók um landið. Þessi prófessor var feiknarlegur marxisti, einsog margir pólverjar segjast vera nú á dögum, og hann var staðráðinn í því að komast til botns í þessum furðulega manni hér útá Íslandi sem í senn var marxisti, hafði orðið var við draugagáng og trúði á ljós í klettum.
Nokkrum dögum síðar höfðu pólverjar kokkteil fyrir þennan mann í sendiráði sínu hér í bænum. Þá bar svo vel í veiði að við Þórbergur vorum þar báðir meðal gesta, svo ég sá mér leik á borði að kynna hann hinum pólska heiðursgesti.
Pólverjinn hneigði sig oní gólf og sagði: Loks er upprunnin sú lángþráða stund fyrir mér, að heilsa Þórbergi Þórðarsyni. Getur það verið satt að þér séuð í senn andatrúarmaður og marxisti?
Þórbergur beit lítið eitt á vörina án þess að brosa, leit fast á manninn og svaraði: Ég er skrýmslafræðingur hennar hátignar bretadrotníngar.
– Halldór Laxness, Seiseijú, mikil ósköp, bls. 55-8.

2 thoughts on “Við Þórbergur”

  1. Það er ógeðslega fyndið að þú skulir segja þetta, því ég var nýbúinn að lesa þessa grein hans Halldórs þegar ég böðlaði mér gegnum öll þrjú bindin hans Hannesar, og sá þetta hérumbil orðrétt tekið upp.
    Það merkilegasta við það mál alltsaman er þó auðvitað það hversu óáhugaverður textinn verður í meðförum Hannesar enda þótt hann sé að stærstum hluta orðréttur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *