Ég held stundum að ég sé að verða ruglaður. Ég er með 53 blaðsíður af tilvitnunum í heimildir. Svo þegar ég renni yfir skjalið sé ég að það vantar fullt af heimildum þar inn sem ég þó hef farið ítarlega yfir. Hvers vegna skrifaði ég ekkert niður? Las ég þær kannski aldrei? Er ég eitthvað skrýtinn?
Hvert einasta orð sem ég les um Þórberg finnst mér ég hafa lesið margoft áður. Ég er líkast til kominn á stig alkjalfróðleiks um manninn – sem er næsta við fræðilegt nirvana utan að hafa gefið út bók um efnið.
Árið 1972 heimsótti Þórbergur Hala í Suðursveit hinsta sinni. Hann var þá þjáður allillilega af parkinsonsveiki og skynjaði vitjunartíma sinn, að líklega sæi hann aldrei aftur sveitina sína. Svo hann neitaði að fara. Margrét kona hans reyndi að tala hann til en þegar ekkert gekk var hann á endanum borinn út og settur grenjandi um borð í flugvél til Reykjavíkur. Segir Halldór Guðmundsson.
Mér finnst það svo andstyggilegt að ég á ekki orð til að lýsa því.
Hann lést 1974. Sama ár og zetan – helsta tákn mosagróinna moggaskríbenta – var afnumin. Eða var það 1973? Í öllu falli er hún jafn úreld og helvítis flokkurinn þeirra.
Hvað er að zetu? Fallegasti stafur í íslenzka stafrófinu.
Þessu var að sjálfsögðu engan veginn beint til þín. En sem dæmi um ágalla zetunnar, fyrir utan notkun Staksteinahöfunda á henni, mætti nefna að menn voru jafnan ósammála um hvar hún ætti eða ætti ekki heima. Það er t.d. álitamál hvort z skuli vera í verslun. Þá þarf að kanna orðsifjar verslun, er það t.d. samansett úr verð-s-lun? Það er álitamál. Og ef það eru engar leifar um slíka samsetningu í nútímamáli, hvað skal þá gera?
Annars er auðvelt að nefna hvað sem verða vildi fegursta staf íslenska stafrófsins, þeir eru allir jafn ljótir. En fegurri staf en ø hef ég aldrei séð. Það má nefnilega margt læra af nágrannaþjóðunum.
Ég hef annars örugglega spurt þig að þessu áður, en þegar þú þýðir bækur, notarðu þá zetu?
Álitamál í stafsetningu verða alltaf smekksatriði, held ég.
Eru þeir allir jafn ljótir? Því get ég ekki verið sammála. En það er svo sem líka smekksatriði.
Þegar ég þýði bækur? Ef það er eitthvað almennilegt, þá nota ég zetu. Það er eiginlega reglan.
Þýska ess-zetan: ß hefur nú sinn sjarma.