Það eru óhjákvæmileg viðbrigði að hugsa og tjá sig á þrem tungumálum á sama tíma. Stundum yfirhleðst hugurinn svo úr verður alveg stórfurðulegur en skemmtilegur hrærigrautur. Mest henti það mig í Svíþjóð þegar ég þurfti að þýða úr dönsku jafnóðum og ég talaði á minni sérstöku dólgasænsku, svo blandaðist þar við að Christian vinur minn er enskur og þar voru Íslendingar í bland sömuleiðis. Ekki kann ég nein dæmi um þessa sprokbilun enda gleymist vitleysan undir eins og hún er flogin af vörum.
Þrátt fyrir það gengur mér danskan svo ágætlega að ég gleymi því oft að ég hef aðeins búið hér í sex vikur, ég tala til dæmis jafnan dönsku í bankanum og finnst það ekki mikið flóknara en að tala við íslenska þjónustufulltrúa – ef hreinlega ekki auðveldara. Þeir eru allavega ekki að reyna að selja mér eitthvað sem ég þarf hvorki né skil. En það er samt gott að vera stöku sinnum minntur á að ég er innflytjandi í útlandi og það þarf svosem ekki mikið til að koma mér á óvart.
Eftir rúnt ofan úr Háskóla niður í Latínuhverfið (sem hefur ekkert með rómanska menningu að gera ólíkt flestum öðrum latínuhverfum) sveigði ég inn á Árbúluvörðu og naut þess að finna gusta aðeins um mig í skugganum eftir þröngar sólskinsgöturnar á undan. Sunnanmegin árinnar er gengið eftir bryggju sem liggur undir brúna sem ber uppi Søndergade. Og sem ég gekk þarna heyrði ég óminn í saxófón úr fjarska spilandi Autumn Leaves, í hægum, tregafullum takti.
Það er nær ómögulegt að finna almennilega útgáfu af þessu lagi (ég bíð alltaf eftir að Buena Vista Social Club taki upp sína frábæru útgáfu) en þarna var hún skyndilega komin, upp úr þurru, og umhverfið allt varð skyndilega framandlegt og öðruvísi. Mér fannst ég staddur allt annarsstaðar, einhversstaðar sem ég hafði aldrei verið fyrr. Það þarf víst ekki mikið til að gleðja mig. Og núna hef ég allan daginn framundan til að njóta stemningarinnar í sólríkri miðborginni og sjá hvort ég finni nokkursstaðar þvottagrind. Einsog stuðið á mér er núna myndi fátt kæta mig meira.
Hvaða vitleysa, það er til fullt af fínum útgáfum á Autumn Leaves! Til dæmis Cannonball Adderley og Miles Davis: http://www.youtube.com/watch?v=PPHtQn1t1n4 og Yves Montand: http://www.youtube.com/watch?v=JWfsp8kwJto&feature=related
Auk þess hljóðritaði Jón Kr. Ólafsson stórkostlega útgáfu með skemmtara sem kemur mér alltaf í gott skap: Er laufblöð falla fölnuð af trjánum feykir þeim burtu haustgolan svöl…
Jájá, allt fínar útgáfur, en ég vil fá nákvæmlega eina tiltekna útgáfu sem hvergi er hægt að finna. Kannski ég ræni bara djassbandi og kenni þeim hvernig ég vil hafa þetta.