Ég hef ekki bloggað síðan áður en kisan mín dó. Hef ekki verið í stuði til þess. Hún dó 10. október tæplega tvítug að aldri og var jarðsett í sömu viku í dýragrafreit í Kjós. Hennar er sárt saknað, enda öllum sem þekktu hana harmdauði þrátt fyrir langan aldur. Ég hef enn ekki kvatt hana, ég kann það ekki.
Á kvennaverkfallsdaginn sit ég í hálfgerðu líffæraverkfalli á Gyllta ljóninu, eftir svefnlitla nótt og talsverða vinnu við fyrirlestraskrif og rannsóknir daginn áður, með smá móral út af stelpunni á barnum. Ég sagði henni frá verkfallinu heima. Henni fannst það sniðugt og fór að mér sýndist. Þá var hún bara að fá sér að reykja.
Ástæða svefnleysisins er að ég sef laust og illa. Það vita þeir sem þekkja mig að er í hæsta máta óeðlilegt. Svo rammt kveður að þessu að ég pantaði tíma hjá þeim félögum Jørgen Holm og Ib Fallesen til að fá eitthvað við þessu. Maður sem heitir Ib hlýtur að eiga vonda foreldra.
Íbúðaleit er hafin á fullu, enda er ég víst ekki alveg strætómaðurinn sem mig minnti að ég væri, og á innan við viku hef ég misst af þrem íbúðum. Fjórða var svo víst aldrei laus og fimmtu vissi ég ekki af fyrr en í morgun. Tilboðið kom fyrir 10 dögum. Hefði hvort eð er ekki þegið það, enda í göngufæri frá núverandi vistarveru, sem er einmitt ekki í göngufæri frá neinu sem ég hef áhuga á – að undanskildum Basarnum.
Stundum er þó gaman í strætó, einsog um daginn þegar ég gat að líta merkilegan furðufugl, lágvaxinn dreng litlu yngri en ég. Hann gekk á milli fólks á stoppistöðinni og tilkynnti þeim nokkuð vandræðalegur að hann hefði ekki náð að pissa áður en hann fór að heiman. Hann hélt sig við sömu iðju í vagninum og hélt sjálfum bílstjóranum nokkrar mínútur á snakki um vandræði sín og hversu vont það væri að pissa.
Þegar bílstjórinn varð þreyttur á honum fór strákurinn aftast í vagninn og hringdi með hátalarann á í einhverja konu sem honum fannst gráupplagt að kvarta í. Þau töluðu saman í svona sjö mínútur. Strák var mikið niðri fyrir og lýsti grafískt sársaukanum sem þvaglát yllu honum og hversu erfitt það væri fyrir sig – bætti því við að hann hefði ekki getað pissað allan daginn sama hvað hann reyndi.
Það var ekki á konunni að heyra að hún áttaði sig á að hún væri að tala við heilan strætisvagn, hvað þá heldur að hún kærði sig sérlega um umræðuefnið. Þegar samtalinu lauk skrækti drengurinn með undarlegasta móti, og þegar ég steig út við Borgarbókasafnið leit ég við og sá hann sitja með ennið upp að höfðalagi sætisins fyrir framan, með einhvern þann ýktasta fýlusvip sem ég hef séð.
Þessi litla saga er tileinkuð Hauki Ingvarssyni, með von um að hún fullnægi þörfum hans í bili.