Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við nýja bókmenntasögu tuttugustu aldar sem kennd er í framhaldsskólum í fyrsta sinn nú í vetur, bókina Tíminn er eins og vatnið eftir Brynju Baldursdóttur og Hallfríði Ingimundardóttur, eða í það minnsta þann stutta kafla hennar sem helgaður er ungskáldum samtímans og nefnist „Ljóðvinir fagrir“.
Ung skáld hafa á öllum tímum stofnað með sér félag um
skáldskap[1]. Eitt þeirra var stofnað á vordögum 1986 og
nefnist Besti vinur ljóðsins. Það hefur haft á stefnuskrá sinni
að ýta ljóðum ungskálda að almenningi með upplestrum hér
og þar, á kaffihúsum, börum, í ferjum og flugvélum. Hrafn
Jökulsson var umsjónarmaður félagsins í fimmtán ár en Sölvi
Björn Sigurðsson tók við þeirri ábyrgðarstöðu í nóvember
2001. Við það tækifæri var efnt til upplestrarkvölds í
Þjóðmenningarhúsinu og voru þá meðal annars lesin ljóð
nokkurra ungskálda sem lítt hafa verið áberandi í
bókmenntaheiminum. Sölvi Björn Sigurðsson hefur tekið
saman nokkur ljóð ungra skálda í samnefnda bók sem kom
út árið 2001. (bls. 295)
Þannig hefst kaflinn sem í fljótu bragði fjallar ekki um neitt. Þegar nánar er að gáð fjallar hann um umsjónarmann, ritstjóra, tvö skáld og nokkrar óljósar fígúrur sem eitt sinn virðast hafa gefið út bækur en ekkert gert síðan. Svo fyrst sé vikið að þeirri ábyrgðarstöðu Sölva Björns, sem kaflinn gefur í skyn að sé enn starfandi fyrir félagið Bestu vini ljóðsins, þá get ég ekki sagt að ég hafi orðið þess félagsskapar var síðan Ljóð ungra skálda kom út fyrir sjö árum – með fyrirvara um leiðréttingu – hvað þá heldur að Sölvi Björn starfi enn fyrir slíkan félagsskap. Næst veita höfundar okkur sýnishorn úr nefndri bók, ljóðið ótakmörkuð ást eftir Kristínu Eiríksdóttur. Ég get ekki sagt að mér þyki hún hafa verið lítt áberandi í bókmenntaheiminum síðan þá eins og ýjað er að, en þetta er auðvitað sparðatíningur hjá mér og væntanlega eiga höfundar við að skáldin hefðu ekki verið sérlega áberandi á þeim tíma sem safnritið kom út. Sölvi Björn kemur svo ekki meira við sögu í þessum kafla, eða bókinni allri hvað það varðar, hvorki Gleðileikurinn djöfullegi né nokkurt annarra verka hans.
Tilvitnunin hér að ofan er hálfur kaflinn. Næsti helmingur fjallar um útgáfufélagið Nykur – eða reynir að gera það en fjallar óvart bara um vin minn Emil Hjörvar Petersen. Þar segir:
Áfram héldu ung skáld að láta til sín taka og stofnuðu árið
1995 félag sem þau nefndu Nykur og var félagið hugsað sem
nokkurs konar bókmenntavettvangur og sjálfshjálparforlag.
Fyrstu verk skálda og rithöfunda á borð við Andra Snæ
Magnason, Davíð A. Stefánsson, Steinar Braga, Ófeig
Sigurðsson og fleiri komu út á vegum Nykurs. Alls voru
gefnar út 13 bækur á vegum Nykurs til ársins 2003, en þá
lagðist hann í dvala, fór aftur í tjörnina og beið færis. Þremur
árum síðar vaknaði nykurinn aftur og tók til óspilltra málanna
við bókaútgáfu og bókmenntaumfjöllun[2]. Skáldum innan
félagsins fjölgaði og ætla þau sér stóra hluti á
bókmenntasviðinu. Emil Hjörvar Petersen er félagi Nykurs
[sic]. Árið 2007 gaf hann út ljóðabókina Gárungagap.
(bls. 296)
Nemendur á framhaldsskólastigi eru engu nær um hverjir Davíð A. Stefánsson, Steinar Bragi eða Ófeigur Sigurðsson eru; hvergi annarsstaðar í bókinni er einu einasta orði eytt í þá. Andri Snær fær sinn kafla annarsstaðar en þar er ekkert minnst á Nykur. Þar að auki er ekkert sagt hvaða skáld þetta eru sem halda félaginu úti núorðið, hve margar bækur hafa komið út á þeirra vegum né þá heldur hvað þær heita. Tilvitnunin öll er nánast kópí-peist úr þeim viðtölum sem Emil Hjörvar hefur mætt í síðasta ár, orðfærið er í það minnsta óhugnanlega líkt. Engir utan Nykurs hafa mér vitandi haft orð á því að „nykurinn hafi lagst í dvala“, „farið aftur í tjörnina og beðið færis“ (eftir hverju?) eða „vaknað aftur og tekið til óspilltra málanna við bókaútgáfu“. Við fáum ekkert að vita um þessa meðlimi Nykurs, að Emil undanskildum, hverjir þeir eru, hvaða bækur þeir hafa skrifað, um hvað þær fjalla, hverslags viðtökur þær fengu, hvaða þýðingu verkin höfðu fyrir samtíma sinn ef nokkra – greinilega enga að mati höfunda. Ófeigur Sigurðsson er reyndar tiltekinn meðal „höfunda efnis“ aftast í bókinni en téð efni er hvergi sjáanlegt. Höfundar taka aðeins eitt dæmi um verk Nykursskálda, ljóðið Í mannþröng eftir Emil Hjörvar, án þess þó að segja nokkurn skapaðan hlut um það:
Eftirfarandi ljóð orti [Emil Hjörvar Petersen] þegar hann sat á
kaffihúsi í ónefndri borg í Evrópu. Mikill ys og þys var í
kringum hann og hann reyndi að grípa andrúmsloftið og setja
á blað. Út úr ljóðinu má síðan finna lóðrétt orð, ljóðið er því
eins konar þraut! (bls. 296)
Já, gestaþrautir geta verið voða skemmtilegar. En hvaðan hafa höfundar bókarinnar þessar upplýsingar? Ég man ekki gjörla hvar þetta er haft eftir Emil á prenti, og höfundarnir hirða ekki um að geta heimilda svo ég er engu nær. Ámælisverð sem þau vinnubrögð eru fæ ég ekki betur séð en það skipti ekki nokkru máli fyrir ljóðið hvort það sé ort á elliheimili eða í ónefndri borg í Evrópu, hvað þá heldur hvort það var á kaffihúsi eða hvað höfundi gekk til. Þetta er ekki bókmenntafræði, þetta er fúsk. Og hérmeð lýkur kaflanum; utan ljóðin sem höfundar taka sem dæmi hef ég birt hér hvert einasta orð sem í honum stendur.
Hvað situr eftir í huganum eftir þennan lestur? Erum við einhverju nær um umfang ljóðagerðar á Íslandi, viðfangsefni ungskálda, höfundarverk, strauma, stefnur, pólitík, tilgang, form, brag, boðskap? Við erum skilin eftir með Sölva Björn, sem hefur ekkert sér til frægðar unnið nema gefa út safnrit annarra skálda en sjálfs sín ef marka má bókina, Kristínu Eiríksdóttur sem hefur skrifað eitt ljóð, þrjú skáld sem eru gleymd, eitt sem gaf út Gárungagap og höfund Draumalandsins sem virðist ekkert eiga heima þarna. Jú, og svo var Hrafn Jökulsson eitthvað að væflast þarna líka í fimmtán ár en gerði að því er virðist ekki neitt. Hér er ekki stafkrók eytt í Nýhil eða Listaskáldin vondu. Medúsuhópurinn fær sína slettu undir Sjón, Jóhamar neimdroppaður og búið. Hvar er Eiríkur Örn Norðdahl, Steinar Bragi, Ófeigur Sigurðsson, Haukur Már Helgason, Sölvi Björn, Kári Páll Óskarsson, Valur Brynjar Antonsson, Davíð Stefánsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Þórdís Björnsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Óttar Norðfjörð, Ingunn Snædal, Sigtryggur Magnason, Sindri Freysson og fleiri? Fyrst aðeins var rúm fyrir tvo fulltrúa allra ungskálda á Íslandi á árabilinu 1995 til 2007 (ein sex stykki ef marka má bókina), Kristínu Eiríksdóttur og Emil Hjörvar, hví var þá ekki fleiri orðum eyðandi í þau en „birti ljóð í safnriti“ eða „gaf út bók, fór á kaffihús í Evrópu“? Hvers vegna er yfirhöfuð ekki sagt frá því að Kristín hafi gefið út minnst tvær ljóðabækur á ritunartíma bókarinnar? Að bæði hún og Emil hafi fengið góða dóma fyrir verk sín? Hvað verkin eiga að fyrirstilla? Er ætlast til að fólk læri á því að lesa þetta?
Ef þessi vinnubrögð endurspegla bókina alla er í sem allra stystu máli ámælisvert að kenna bókina. Meðferð heimilda er það ábótavant að meira að segja Gárungagap Emils Hjörvars er ekki í heimildaskrá bókarinnar, enda þótt í hana sé vitnað. Bæði Kristínu og Emil má finna í höfundatali aftast, en þar má einnig finna Ófeig Sigurðsson þótt ekkert efni sé eftir hann í bókinni. Sölvi Björn fær að ritstýra ljóðasafni í bókinni en hann er ekki meðal höfunda efnis. Nykur er ekki í atriðisorðaskrá, né þá heldur neinn þeirra sem nefndir eru til sögunnar, og engin ritaskrá fylgir bókinni. Aðeins heimildaskrá sem telur ekki skáldverkin sjálf. Umfjöllunin er ennfremur klén og tilgangslaus. Sjálfur titill bókarinnar svíkur innihaldið þar sem það teygir sig innundir lok fyrsta áratugar tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Og þær örfáu hræður sem höfundar telja ekki eftir sér að nefna á nafn undir samheitinu „ljóðvinir fagrir“ virðast miðað við framsetningu bókarinnar hafa álíka mikið gildi fyrir bókmenntir eins og myndmennt fimmta bekkjar fyrir myndlist. Og í hvaða tilgangi? Til að vekja menntskælinga til umhugsunar um bókmenntir? Til að vekja athygli þeirra á ljóðlist? Eða til að sýna þeim hvað gerist þegar viðvaningar skrifa bókmenntasögu tuttugustu aldar af metnaðarleysi, dugleysi og fáfræði?
__________
[1]Hér vantar heimild svo ég geri ráð fyrir að ungskáld hafi fyrst sprottið fram á líkum tíma og Homo erectus.
[2]Nykur hefur að mér vitandi aldrei tekið til óspilltra málanna við bókmenntaumfjöllun, enda þótt einstakir meðlimir félagsins hafi sinnt fræðastörfum og/eða skrifað ritdóma.
– Birtist á Kistunni þann 5. október 2008.