Ranglega skráður á Málsvörn – opið bréf

Vinur minn benti mér á að ég væri skráður sem stuðningsmaður Geirs Haarde á vefsíðunni malsvorn.is, mér til mikillar undrunar. Af því tilefni sendi ég forsvarsfólki vefsíðunnar, sem þó á aðeins að hafa samband við í því tilfelli að maður vilji styrkja söfnunina fjárhagslega, þessar línur nú rétt í þessu:

Halló

Ég hef verið skráður á undirskriftarlista á vefsíðunni malsvorn.is.

Á vefsíðunni kemur fram, ásamt ýmsu öðru, að þeir sem styðji réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir Haarde geti skráð sig á lista þeirra sem eru sama sinnis. Aðrir geta aflað málefninu fylgis með fjárstyrkjum.

Ekki kemur fram hverjum verður afhentur þessi undirskriftalisti eða í hvaða tilgangi honum verður beitt.

Þá er gefið í skyn að þeir sem ekki eru á listanum styðji ekki réttláta málsmeðferð í málinu gegn Geir, einsog það sé óháð öðru því sem kemur fram á vefsíðunni sjálfri. Undirskrift á listanum ber þvert á móti óhjákvæmilega í sér samþykki þeirra fullyrðinga að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé málaferlunum andsnúinn, auk þess að gefið er í skyn að málsmeðferðinni sé ábótavant, sem jafnframt þýðir að ákæruvaldið sé starfi sínu ekki vaxið, sem felur í sér að ákæruvaldið sé með þessu að brjóta lög.

Á undirskriftalistanum kemur fram að ég búi í Árósum. Þær upplýsingar liggja hvergi á reiðum höndum samhliða kennitölunni minni. Heimili mitt einsog það er opinberlega skráð á Íslandi er einfaldlega: „í Danmörku“. Þá vekur það athygli mína að nafn mitt einsog það er gefið upp er ekki fullt nafn mitt samkvæmt þjóðskrá, heldur það nafn sem ég nota opinberlega. Það liggur því í augum uppi að upplýsingarnar hafa verið teknar af bloggsíðu minni. Hvaðan kennitalan er fengin er svo annað mál.

Með öðrum orðum skráði ég mig ekki sjálfur á undirskriftalistann, og ég vil að nafn mitt verði fjarlægt af honum. Það er ekki þarmeð sagt að ég styðji ekki réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir Haarde – það gerir hver einasta manneskja. En þetta er ekki í fyrsta sinn og sjálfsagt ekki það síðasta sem ég er skráður á svona lista og því opinberlega látið í té skoðanir á málefnum sem ég hef ekki, nefnilega þær sem ég nefni hér að ofan.

En fyrst ég hef núna skrifað ykkur þetta bréf vil ég spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Hverjum á að afhenda þennan stuðningslista?

2. Ef ekki á að afhenda hann neinum, til hvers er hann þá?

3. Samkvæmt vefsíðunni skal hafa samband við forsvarsfólk Málsvarnar í því tilfelli að fyrirtæki vilji styrkja söfnunina. Hvers vegna eru engar upplýsingar um það hvernig maður skráir sig af undirskriftalistanum, eða hvert beina skal fyrirspurnum?

4. Hefur forsvarsfólk Málsvarnar í engu gætt að því að baktryggja sig gegn fölskum skráningum með því að krefjast staðfestingar í tölvupósti og keyra listann saman við Þjóðskrá?

5. Ef ekki, er það þá ekki verðugt umhugsunarefni eftir nýfelldan úrskurð Persónuverndar um brotalamir undirskriftalistans gegn síðasta Icesavesamningi?

6. Get ég beiðst þess að forsvarsfólk Málsvarnar aðgæti að nafn mitt verði ekki skráð aftur á listann? Mér finnst rétt og sjálfsagt að mér verði að þeirri ósk minni.

Ég geri ráð fyrir að ég fái greið svör við þessum spurningum og áskil mér rétt til að birta þau á áðurnefndri bloggsíðu minni.

Með vinsemd og virðingu,
Arngrímur Vídalín
Árósum.

Ég bíð spenntur eftir svari.

Uppfært:
Endurbirt á Smugunni þann 8. júní.

Eftir umfjöllun Smugunnar (sjá hér) og Eyjunnar (sjá hér) hefur nafn mitt verið fjarlægt af stuðningslistanum. Hinsvegar hafa engin svör við spurningum mínum borist frá aðstandendum, þeim Ágústi Ragnarssyni og Önnu Kristínu Traustadóttur, enda þótt bréfið hafi borist þeim persónulega.

Uppfært aftur:
The Reykjavík Grapevine hefur bæst í hóp fjölmiðla sem fjalla um málið (sjá hér).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *