Við erum okkar eigið kaffihús. Mölum baunir og möllum í espressókönnu, flóum mjólk og þeytum. Tveir svona á dag síðustu 8 mánuði og ég er allt í einu orðinn kresinn á kaffi sem ég fæ afgreitt á kaffihúsum. Segir maðurinn sem lifði á neskaffi og hafragraut lungann úr síðasta vetri og kvartaði ekki.
Ég sé ennþá stúdentslífið fyrir mér í hillingum: kaffi mallandi á könnunni, stóra harðspjalda bók með flóknum titli (The Reverberance of Post-Structural Androcentric Consumerism in Neo-Classical Literature, svo ég búi til titil) og límmiðum og merkipennastrokum af allskyns litum, og einhverja vælandi hipsteratónlist á bergmáli um pínulitla íbúðina. En þessir löngu dagar af lærdómi í rólegheitunum eru ekki endilega daglegt líf stúdenta. Að minnsta kosti hef ég verið stúdent í sex ár og aldrei upplifað einn slíkan dag nema undir gríðarlegu álagi. Auk þess fatta ég ekki að fólk vilji eyðileggja bækur með merkipennum. En það er gaman að varðveita ímyndina af makindalífi stúdentsins. Eru þeir ekki alltaf í vísindaferðum?
Post-grad lífið er held ég bara nokkurn veginn alveg eins, nema með meiri ábyrgð, enginn sem segir manni hvað maður á að gera eða hvernig. Bækurnar fá smámsaman einfaldari titla eftir því sem maður sjálfur skilur þá betur (á borðinu hennar Eyju er sú sniðuglega titlaða bók Educating Reason), yfirsýnin eykst en jafnframt eykst sú tilfinning því meira sem maður lærir að maður viti sífellt minna.
Fjálglegum samræðum fækkar með aukinni þekkingu, best að segja sem minnst án viðhlítandi rökstuðnings. Maður sekkur dýpra í lærdóminn og verður eitt spurningarmerki í framan sé maður spurður hvað maður geri, óttinn við að kunna ekki lengur íslensku grípur um sig. Rakarinn minn fræðir mig í óspurðum fréttum um Ísland á miðöldum af því ég get ekki áætlað mér tíma fyrir eigin fyrirlestur og andsvör neðan úr rakarastólnum. Hann veit ekki að ég er að ljúka meistaraprófi.
Gamall vinur býður mér í kaffi og spyr hvað sé að frétta. Ég kem ekki upp orði. Hvað er að frétta, annað en það nýjasta í þessari obskúr rannsókn minni? Eftir langa þögn: Jú, ég skrapp til Danmerkur um daginn. Hvernig var? Uhh … Næst fer ég að segja fólki frá bíltúrum í Hafnarfjörð eða álíka bara til að tala um eitthvað annað en Íslendingasögur.
Samt hefur mér aldrei þótt lífið vera eins spennandi og einmitt núna, það er spennandi af því það er rólegt, af því smáu atburðirnir eru í raun þeir allra stærstu og áhugaverðustu sem lífið hefur upp á að bjóða. Þeir eru hinsvegar ekki fréttnæmir, sem í sjálfu sér er líka ágætt.
Lífið er tveir kaffibollar á dag, malaðir úr baunum og mallaðir á espressókönnu, með flóaðri og þeyttri mjólk. Það er ekkert að frétta. Kannski er það stúdentslífið sem ég sá svo í hyllingum.