Játning

• Mér finnst heimskulegt að tala um „skóla lífsins“.

• Stundum er það sama fólk sem vegsamar „skóla lífsins“ og er stolt af því að vera „af gamla skólanum“ (áður en allar þessar andskotans framfarir urðu).

• Ef til vill er þetta sama fólk og heldur að non scholae sed vitae discimus merki „við lærum ekki af skólanum heldur lífinu“. Að minnsta kosti halda margir þeir sömu að raunveruleg merking þessa frasa sé ómöguleg því nám hafi ekkert hagnýtt gildi. Að vera andvígur menntun er líka tegund af menntasnobbi.

• Mér finnst þetta blaður um „skóla lífsins“ vera álíka spennandi og „glíman við Bakkus“. Ég veit ekki af hverju sumir finna sig knúna til að upphefja eins hversdagslega hluti. Það eru margir sem vinna frá 14 ára aldri eða hætta í skóla og það eru margir sem glíma við ýmiss konar fíkn. Það eru að sama skapi margir sem eru langskólagengnir og svo eru margir sem aldrei þurfa að glíma við fíkn. Ekkert af þessu er merkilegt í sjálfu sér.

• Niðurstaðan er að við lærum öll af lífinu á einn eða annan hátt, og svo lifum við lífinu hvert með sínu laginu. Það er ef til vill ekki sérlega merkileg niðurstaða en mér virðist sem hún sé ekki öllum jafn augljós. Fyrst og fremst erum við öll mannfólk og þurfum ekki að hafa ímugust hvert á öðru fyrir að lifa lífinu öðruvísi en við sjálf teljum réttast.

• Ef einhverjum finnst örla á menntasnobbi í þessu bloggi hefur viðkomandi ekki lesið það rétt.