Ég rakst á hugtakið „the primary sadistic eroticism of the infant“ í rökstuðningi mannfræðings fyrir því að sálgreining væri nauðsynleg í allri umfjöllun um ófreskjur. „Beyond this modest and unobjectionable observation,“ bætir hann við, „but still in a strictly Freudian sense, we may add that the monster may stand for the Olympian castrating father of fantasy“ [leturbreyting mín]. Ekki getur nú allt verið gáfulegt sem maður les.
Þegar ég velti fyrir mér bulli í mínum fræðum átta ég mig á því að ég veit ekki hvernig bull er í öðrum fræðum. Hvernig er bull í efnafræði? Ég ætti erfitt með að sjá það. Að hinu ber að hyggja að vísindamenn eru ekki alltaf á eitt sáttir um hvað telst vera bull. Áreiðanlega eru einhverjir til sem eru reiðubúnir að skrifa upp á hina sadísku erótík kornabarna, hvort sem það er opinberlega eða í laumi (eða í skýrslum lögreglunnar).
Nóg um að vera þessa dagana. Fyrir utan væntanlega grein í vor þá verð ég með fjóra fyrirlestra á þessu misseri auk einhverrar kennslu í Háskólanum. Vonandi fylgir svo grein seinnipartinn í ár upp úr einum þessara fyrirlestra. Kannski verður svo grein eftir mig í erlendu riti í desember. Verst bara að ég er húðlatur og kem mér ekki upp úr lestrarhjólfari síðasta misseris. Ég geri þá a.m.k. ekkert af mér á meðan.
Í nútímaþjóðfélagi þykir víst töff að vera upptekinn (ekki skil ég hvers vegna), en þetta er ekki sett hér á blað (vef, skjá?) til að sýnast töff, heldur til að reka mig áfram til verksins.