Ég furða mig stundum á því sem ég las sem barn þótt mér hafi þótt fátt eðlilegra þá en að ég hefði áhuga á því sem ég hafði áhuga á. Í dag tókum við pabbi loksins í gegn geymsluna hennar mömmu sem við í sameiningu lögðum í rúst á 25 ára löngu tímabili, en kannski aðallega ég samt. Þar kom ýmislegt upp úr kössum, þar með talin bók sem hafði ómæld áhrif á mig (þá á ég ekki við bókina UFO: Fljúgandi furðuhlutir eftir Einar Ingva Magnússon, eina af sérviskum unglingaskeiðs lífs míns).
Bókin heitir Gróin spor og er þannig orðin til að faðir (stjúp)afa míns Huga, Jóhannes Friðlaugsson, var í og með öðrum störfum rithöfundur. Bókin er úrval þess sem hann skrifaði og er gefin út í tilefni af aldarafmæli hans árið 1982. Bókina myndskreytti afabróðir minn Hringur og því eigi síður var dálítið til af þessari bók í fjölskyldunni og fengum við bróðir minn hvor sitt eintakið. Ég hef kannski verið níu ára, ég er ekki viss. Það hefði verið 1993, en kannski fékk ég bókina ári fyrr. Þetta voru þá aukaeintök sem aldrei höfðu farið út og afa datt í hug að við gætum haft gaman að, ekki síst myndunum.
Nú er frá því að segja að hvort tveggja myndirnar og textinn skelfdi mig. Ég blaðaði nefnilega í gegnum bókina eitthvert kvöldið og rambaði á myndir af ísbjörnum. Þá varð ekki aftur snúið, ég þurfti að lesa hvað stóð þarna um ísbirni. Kaflinn heitir Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum og þar er meðal annars frásögn af því, ef ég man rétt, þegar tvö ung systkin urðu ein eftir á bæ nokkrum, gott ef faðirinn var ekki að róa til fiskjar og móðirin farin á næsta bæ eftir einhverjum lífsnauðsynjum, og börnin ein eftir.
Svo kom ísbjörn inn í bæinn.
Ég var stjarfur af hræðslu og las sem óður væri til að sjá hvernig þeim reiddi af, sömuleiðis allar hinar ísbjarnasögurnar, og svaf svo heldur seint og illa um nóttina. Það var um líkt leyti sem ég las í Úrvali (já, ég las Úrval alveg upp til agna) um konu í Norður-Ameríku sem lenti í því óláni að einhver skollans björn kíkti í heimsókn til hennar eitt kvöldið og lenti í áflogum við Nýfundnalandshundinn hennar. Sá stökkti birninum á brott en drapst fljótlega af sárum sínum. Eftir þetta varð ég mikill talsmaður Nýfundnalands- og Sankti Bernharðshunda.
Lengi á eftir átti ég von á því að hvað úr hverju kæmi ísbjörn inn um dyrnar (á þriðju hæð, á Laugarnesvegi) einmitt þegar allir væru sofnaðir nema ég og hann æti mig lifandi, foreldrar mínir hrjótandi í hinum enda íbúðarinnar og gætu ekkert gert í þessu.
Nú er þessi bók fundin aftur og þá er að sjá hvort ég þori að rifja upp kynnin við hvítabirnina. Hitt er svo annað að eftir ár verð ég að líkindum staddur á Svalbarða á ráðstefnu. Martraðir um hvítabirni munu vera lenskan þar í mesta skammdeginu, svo kannski ég geymi mér litteratúr Jóhannesar Friðlaugssonar fram að því?