Grímuball aldarinnar í uppsiglingu, ég kominn í múnderinguna: Smókingbuxur, hvít skyrta, svört slaufa, grátt vesti, kjólfatajakki, vasabrot, svört gríma. Það verður vonandi gaman.
Lenti í undarlegri uppákomu í vinnunni áðan. Ung stúlka, sýnilega hreyfihömluð, bað um aðstoð. Þegar ég svo kom á hvíta fákinum (IKEA© standard) virtist hún ekki geta stunið upp úr sér hvað hún vildi. Svo ég stóð bara þarna uns ég var sýnilega farinn að glotta illkvittnislega (eins og ég geri alltaf undir álíka kringumstæðum), en hún bara horfir á mig eins og hún hafi séð draug, spyr mig svo í hvaða skóla ég hafi verið. Ég þuldi þá alla upp fyrir hana (um fimm stykki), hún velur sér Laugarnesskóla og segist hafa verið þar, þaðan hljóti hún að kannast við mig, þvínæst spyr hún til aldurs. Ég segi henni sem er, nuddandi hrukkurnar. Þá segir hún mér að jú, hún þekki mig síðan úr Laugarnesskóla, ég kannski muni eftir sér, stelpunni sem lenti í bílslysi 1996 (!). Og ég verð að játa að mig rámar eitthvað í það, þó ekki meira. Þá hef ég verið í 11-12 ára bekk, svo hún hlýtur annaðhvort að vera jafngömul mér eða árinu eldri, varla hefur hún verið yngri (leit a.m.k. út fyrir að vera eldri en það).
Í það minnsta kom þetta eitthvað óþægilega upp á mig, eins og þetta væri manneskja sem ég ætti að þekkja, þó ekki nema væri að muna málavöxtu aðeins betur, að muna eftir manneskju sem lenti í svo hræðilegu slysi að hún er hreyfihömluð það sem eftir lifir! Og svo flatt kom þetta upp á mig að samtalið hreinlega dó eftir þetta. Svo ég spyr mér minnugri menn, þá örfáu fyrrum nemendur Laugarnesskólans sem enn lesa þessa bloggsíðu: Vitið þið hvaða stúlka þetta er? Mér finnst ég verða að vita það, því auðvitað var ég nógu mikið fífl til að gleyma að spyrja til nafns, aldurs, hvað hún fór að gera eftir útskrift o.s.frv. Mér finnst ég nær réttdræpur fyrir að hafa ekki sagt eitthvað, sama hvað, bara eitthvað.
Ég áttaði mig á því í gær, að ég gæti farið á grímuball sem faðir minn. Eini gallinn er þó að ég væri eflaust sá eini sem myndi fatta það. Kynni kannski að gera þetta að fjórum árum liðnum, þegar hann verður sjötugur. 😉