Hættur

Ég les stundum Vantrú, en aðeins örsjaldan skil ég eftir athugasemdir. Það er vegna þess að ég er orðinn leiður á því hvað fólki hættir annarsvegar til að svara án þess að svara, hinsvegar oftúlka allt sem á undan er sagt. Einhverju sinni varði ég t.a.m. Nietzsche fyrir manni sem kallaði hann nasista. Sá svaraði um hæl að ég hefði rangt fyrir mér. Það voru nú haldbær rök.

Núna síðast mælti ég gegn sálgreiningu. Skyndilega er ég hlynntur ónauðsynlegri geðlyfjagjöf, einkum til barna, og orðinn forhertur og heilaþveginn krossfari gegn upplýsingunni í krafti sálfræðimenntunar minnar við Háskóla Íslands. Aukinheldur hef ég ekkert lesið mér til um Freud eða verk hans sjálfs. Allt er þetta rangt.

Ég afréð að svara ekki þessum rangfærslum. Öðru nær er ég hættur að skilja eftir athugasemdir á Vantrú, þar sem hinn almenni lesandi er of ragur til að birta skoðanir sínar undir eigin nafni og hættir til textaoftúlkunar á einföldum fullyrðingum, í stað þess að svara efnis- og málefnalega.

4 thoughts on “Hættur”

  1. Mér þykir rugludallurinn óðinsmær hafa full mikil áhrif á þig.
    Það er rétt sem þú segir, fólki hættir til textaoftúlkunar og umræður eiga það til að snúast um tittlingaskít í stað þess sem átti að ræða. Vandamálið við að hafa opið fyrir athugasemdir á vef eins og Vantrú er að maður velur sér ekki lesendur!
    Varðandi Freud, þá hef ég lesið afar lítið um hann en eitthvað þó um gagnrýni Popper á aðferðir hans. Ef þú nennir að skrifa stuttan pistil um Freud og gagnrýni á kenningar hans skal ég glaður birta hann á Vantrú. Slíkur pistill á vel heima þar.

  2. Mér finnst bara leiðinlegt að leiðrétta uppdiktaðar skoðanir.
    En það er aldrei að vita nema maður láti tilleiðast að skrifa um frauðið. Þyrfti fyrst að fara í heimildaöflun, svo það gæti tekið mig smátíma að skrifa pistilinn. Svo sjáum við hvað setur.

  3. Ég er löngu hættur að nenna að fara á vantru.net af sömu ástæðu. Mér þykir margir þar þurfa ansi mikið að gæta orða sinna og hugarfars, annars verða þeir alveg jafn slæmir og Gunnar í Krossinum og aðrir slíkir kónar. Sjálfur er ég skeptískur, en maður furðar sig oft á því fullkomna virðingarleysi fyrir misjöfnum spiritískum þörfum fólks sem er áberandi á þessari síðu. Að slaka svolítið á, það myndi stórbæta síðuna.

Lokað er á athugasemdir.