Þjóðsagnaskepna dagsins er gólem (jidd. Gojlem). Gólem er kallaður fram úr dauðu efni og er notaður til þarfaverka þess sem ákallar.
Elstu sögur af gólem eru frá tíma frumjúdaisma. Samkvæmt Wikipedia er Adam sagður í Talmúdnum hafa verið skapaður sem gólem, og líkt og Adam (en nafn hans þýðir rauður leir) séu allir gólemar gerðir úr leir ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#Earliest_stories)). Þetta finnst mér örlítið hæpin fullyrðing, þar sem Guð sjálfur skapaði manninn, en það er maðurinn sem í viðleitni sinni til sams konar sköpunar skapar hinn ófullkomna gólem, sem annarsvegar er mállaus ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#Earliest_stories)), en hinsvegar tekur hann öllu bókstaflega sem þú segir honum ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#The_classic_narrative)). Slíkt sköpunarverk væri Guði varla þóknanlegt, en deila má um hvort fólk sem passar við sömu lýsingu sé það þá heldur ekki. Ennfremur má deila um hvort trú á góleminn sé villutrú.
Það voru helst helgir menn sem sköpuðu gólema. Frægasti góleminn hlýtur að vera góleminn í Prag, sem rabbí Löwe skapaði til að vernda Gyðinga borgarinnar gegn ofsóknum Rúdolfs II. keisara hins Heilaga rómverska keisaradæmis. Góleminn átti að hlýða hverri skipun rabbíans, en eftir því sem hann óx varð hann of ofbeldishneigður til að hafa hemil á. Löwe var heitið að ofsóknum á hendur Gyðingum yrði hætt ef hann eyddi gólemnum. Hann samþykkti það og fjarlægði fyrsta stafinn af áhrínisorðunum á enni gólemsins, „emet“ (sannleikur), svo það varð „met“ (dauði). Þannig missti góleminn lífsþróttinn. Hinsvegar er sagt að sonur Löwe hafi endurvakið góleminn, og að hann verndi Prag enn þann dag í dag ((http://www.mirabilis.ca/archives/002204.html)).
Önnur útgáfa af sögunni segir að til þess að skapa líf, sem var stranglega bannað öllum – jafnvel þeim allra helgustu – hafi þurft að fara með þuluna „Shem Hameforash“, sem er raunverulegt nafn Guðs og er afar hættulegt í framburði, jafnvel svo að krafturinn sem losnar úr læðingi við að segja það geti orðið mönnum að aldurtila.
Sú útgáfa sögunnar segir að þegar góleminn í Prag snerist gegn þeim sem hann átti að vernda, hafi rabbí Löwe afturkallað þuluna og þannig umbreytt gólemnum aftur í leirstyttu. Leirstyttan var síðan falin á háalofti sýnagógunnar í Prag og enginn mátti fara þangað upp fyrr en mörgum árum síðar. Sumir nítjándu aldar rithöfundar héldu því fram að enn mætti sjá útlínur risavaxins gólemsins þar uppi ((http://www.pantheon.org/articles/r/rabbi_loeb.html)).
Mér hefur verið sagt að í nútímanum megi eingöngu æðsti trúarleiðtogi Gyðinga í Prag megi fara upp til gólemsins, gott ef það var ekki bara einu sinni á ævinni að hann mátti það, en fyrir því fann ég engar heimildir á netinu. Engu að síður er líklegt að styttan sjálf sé til og að hún sé geymd þar uppi.
Der Golem, wie er in die Welt kam er mynd sem þú þarft að sjá.
Takk fyrir síðast 🙂
Ég skellti inn nokkrum myndum frá kvöldinu á mína síðu!
Auðvitað þurftirðu að láta mig líta illa út, Bjössi. Ég vissi af myndinni, en ákvað að geyma hana fyrir sneddí komment, svo sneddí kommenteraðirðu mér ref fyrir rass!
Góðar myndir, Silja. Utan þessi þriðja af mér. Úff!