Ég stóð í sakleysi mínu og reykti út um stofugluggann þegar stórum skugga bregður yfir mig. Þegar mér varð litið upp missti ég hreinlega vindlinginn af undrun: Þar var komin sú stærsta geitungsskepna sem ég hef á ævi minni séð. Geitungur dauðans, með hefnd.
Ég reyndi að blása ófreskjunni burt en það hafði ekki nema lítil áhrif á hana; hvorki monsún né móðuharðindi hefðu getað aftrað staðráðinni skepnunni. Að endingu stakk hún sér gegnum veika vörn mína og lagði til mín, en lagið nam við skjöld minn, svo að segja, því mér tókst að skella glugganum rétt áður en hún komst milli. Svo sveif ískyggilegur behemothinn fyrir utan og fylgdist með mér krækja festingunum innan á glugganum. Hann kemur aftur.
Svo hræddur um það var ég, raunar, að ég hljóp þvínæst inn í eldhús til að fullvissa mig um hvort ekki væri læst þar líka. Það var svo. Enn hef ég þó ekki aðgætt baðherbergið (…). En augljóslega hefur það sína ókosti að búa í gulu húsi. Fyrir mig sem geitungamorðingja er það álíka sniðugt og fyrir Bolla Þorleiksson að hengja borða utan á hús sitt sem á stæði: Morðingi Kjartans Ólafssonar.
Í þetta sinn rann ég því af hólmi eins og argasta læpa. Næst neyðist ég þó til að verja mig, þó með minni heppni endi ég áreiðanlega eins og Gísli Súrs forðum, hundeltur og flýjandi um sveitir með iðrin úti. Hver hefnir mín þá?