Allur dagurinn hafði farið í að vinna og fullklára eitt verkefni. Undir nótt lágu skýin eins og satúrnusarhringur umhverfis jörðina og stjörnurnar glitruðu eins og kvikasilfur bakvið þau. Ég gat ekki sofið, vegna draumóra annars vegar, vægrar streitu og kvíða hins vegar.
Ég reif mig framúr rúminu klukkan kortér í átta eftir minna en klukkutíma svefn, fékk mér kaffisopa og kom mér niður á Grand Hótel Reykjavík á málstofu Vinnueftirlits Ríkisins. Ég var aðeins nýkominn þegar ég uppgötvaði að ég hafði misskilið eitthvað og samið rangan fyrirlestur. Það varð mér til happs að ég var síðastur í fyrirlestraröðinni. Fór þá hálfur tíminn í að gjörbreyta erindinu og restin í að ná mér niður eftir áfallið. Framsagan gekk vel.
Dreif mig niður í skóla og náði hálfri kennslustund þar sem hlustað var á flámæli og fleira í þeim dúr af segulbandi. Flaut þaðan á gulu fleyi sem leið lá niður í Sólheima þar sem ég verð fram undir kvöldmat. Mig minnir að það sé einhvers konar fundur í kvöld um áttaleytið. Manneskja hringdi í mig áðan með vesen, og brást ég ókvæða við og frábað mér snattið. Ég hef enn ekki haft tíma til að borða.
Sæll Arngrímur . Flott hjá þér að skrifa heila ljóðabók. Flott viðtalið sem var í blaðinu.