Kaninkan er upp risin og flutt til Ameríku, líkt og lítið hlutfall bloggara hennar. Við sem heima sitjum reynum að hafa það náðugt þrátt fyrir illa krambúleraða líkama eftir hasarinn á nýársnótt. Til að gera langa sögu stutta datt ég ofan á bjórflösku, braut hana og marðist talsvert. Daginn eftir vaknaði ég með hamborgara við hlið mér í rúminu en ég afréð að borða hann ekki.
Í dag er merkisdagur að öðru leyti en um það ætla ég ekki að blogga að svo stöddu. Klukkan fimm í fyrramálið er ár síðan ég fór til Finnlands, en þá var Kaninkan einmitt nýbúin að taka talsverðum breytingum. Þar bjó ég í bjálkakofa í myrkum skógi og söng angistinni serenöður inni á milli baráttunnar við fylleríið sem aldrei lauk. Samt var þar talsvert gaman.
Þannig hófst síðasta ár, og ef ég verð í nógu vondu skapi gæti meira en vel verið að annállinn verði birtur í heild sinni. Síðasta ár var stórskrýtið.