Categories
hagfræði Heimspeki Óflokkað

Hannes eins og við best þekkjum hann: með allt niðrum sig

Hannes Hólmsteinn er eitthvað að derra sig í Stundinni í dag. Mikið hef ég gaman að svona. Án djóks.
https://stundin.is/grein/12460/ord-hayeks-stadfest/
 
Það tæki alla helgina að ætla að fara ofan í allt sem er að þarna. En hér er eitthvað:
 
Eins og við er að búast er flest allt í tómu tjóni hjá manninum. Hinsvegar er þó sumt vissulega rétt – einna helst þáttaskilin sem urðu við upphaf 8.áratugarins. Eins og HHG bendir réttilega á, þá markaði upphaf áratugarins, er oft miðað við Olíukrísuna sem vendipunktinn, á sama tíma upphaf allt annars tímabils í sögu Vestursins og heimsins. Gullaldarskeið kapítalismans, sem ríkt hafði frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar, tók enda og var þá byrjað að innleiða hinar ýmsu stjórnmálahagfræðistefnur – sem við kennum í dag við nýfrjálshyggju – í þeim tilgangi að halda vöxtinum uppi. Hér erum við félagi minn sammála, enda þetta óumdeilanlegt.
 
Þar sem okkur greinir hinsvegar á er í orsökum þessarar krísu í upphaf 8. áratugarins. HHG vill að sjálfsögðu meina, eins og alltaf, að hér sé um einhvers konar frávik að ræða, eitthvað sem er sósíalistum að kenna. Þrátt fyrir að sannleikurinn sé augljóslega sá að gullaldarskeið kapítalismans 1945-1973 sé hið raunverulega frávik í sögu hans. Kapítalisminn, hvar sem hann hefur verið prufaður, á öllum tímum lendir í niðursveiflu, kreppu eða krísu að meðaltali á sjö ára fresti – eitthvað sem HHG flýta sér ávallt fram á völlinn til að útskýra hvernig sé frávik eða skemmdarverk sósíalista frá annars óslitinni hagsældarsögu kapítalisma. Hvernig reitt er ávallt fram sömu þvæluna, til að reyna að breiða yfir nákvæmlega sömu augljósu vandamálin, á nokkra ára fresti, er bara einhver absúrd kómedía.
 
Ræðum aðeins hin raunverulegu vandamál:
 
Upphaf 8.áratugarins markar upphaf tímabilsins sem hagfræðingurinn Robert Brenner kallar the long downturn, og á hann þar við viðvarandi krísu bandaríska hagkerfisins og heimsins alls sem birtist í síminnkandi ávöxtun fjárfestinga og þar með hagnaðar og auðsöfnunar – drifkrafts hins kapítalíska hagkerfis. Frá þeim tímapunkti hefur heildarhagnaðurinn aldrei aftur náð hæðum eftirstríðsáranna. og á hann þar við
 
Bakgrunnur þessarar krísu sérstaklega er flókin, eins og Brenner ræðir í bók sinni The Economics of Global Turbulence. Hann bendir einna helst á innbyggða tilhneigingu til offramleiðslu í iðnaði heimsins sem aðalástæðuna. Á sínum tíma komu fleiri og fleiri iðnaðarríki fram á heimsmarkaðinn – Þýskaland, Japan, asísku „tígrarnir“, og svo Kína. Þessi iðnríki, sem komu seinna fram á sjónarsviðið, fóru að framleiða sömu vörur og gömlu framleiðsluríkin – bara ódýrara. Afleiðingin var alltof mikið framboð miðað við eftirspurn í hverjum iðnaðinum á fætur öðrum sem leiddi aftur til lægra verðs og þar með minni hagnaðar. Fyrirtækin sem upplifðu minnkandi hagnað gáfust hins vegar ekki upp. Þau lögðu meiri áherslu á nýsköpun og fjárfestingar í nýrri tækni. Þessar tilraunir gerðu þó vandamálið enn verra.
Þetta ástand þýddi það að kapítalistarnir fengu sífellt minni hagnað úr fjárfestingum sínum. Því höfðu þeir engra annarra kosta völ en að hægja á vexti verksmiðjanna, uppfærslu á tækjabúnaði og nýráðningu. Á sama tíma – í tilraun til að ná hagnaðinum upp aftur – frystu þeir laun starfsmannanna á meðan að stjórnvöld drógu einnig úr eyðslu í velferðarkerfinu. Afleiðingin af þessum sparnaði hefur verið langvarandi minnkun á heildareftirspurn. Þessi viðvarandi veika heildareftirspurn er rótin að vandamáli heimshagkerfisins, og sést hvað best hjá Bandaríkjunum, Vestur-Evrópu og Japan.
 
Gerðar voru ýmsar tilraunir til að ná hagnaðinum upp aftur, eins og HHG veit allt um. Hagfræðingar fóru t.d. að hvetja til skuldasöfnunar, bæði hjá almenningi og hinu opinbera. Fjármálavæðing hagkerfisins hófst, en með henni var hægt að ná fram skjótum og gígantískum gróða sem skaut heildarhagnaðinum tímabundið upp. Til lengri tíma litið gerði fjármálavæðingin hins vegar meira slæmt en gott fyrir hið kapítalíska hagkerfi, en hún gerði ekkert til að leysa vandamálið þar sem heildarhagnaður hefur haldið áfram að falla á sama tíma og hún opnaði dyrnar að öðrum alvarlegum vandamálum, ekkí síst kreppum og bólum höfðu katastrófískar afleiðingar á áður óséðum skala, eins og gerðist árið 2008. Auðsöfnun heimshagkerfisins byggir í raun og veru að miklu leyti bara á spákaupmennsku – sem studd er með ráðum og dáð af stjórnvöldum og ráðgjöfum þeirra. Það þarf einhvern annan en mig til að setja þessa geðveiki í nægilegt samhengi.
 
En þá komum við að besta vini Hannesar. Því tilhneigingin til minnkandi hagnaðar í hinu kapítalíska framleiðslukerfi (e. the tendency of the rate of profit to fall ) er auðvitað vel þekkt og umdeilt fyrirbæri innan hagfræðinnar sem t.d. Adam Smith, David Ricardo og ekki síst Karl Marx fjölluðu um á sínum tíma. Samkvæmt Adam Smith stafaði tilhneigingin af því að aukin auðsöfnun leiðir til aukinnar samkeppni sem minnkar hagnaðinn. Ricardo færði hins vegar rök fyrir því að samkeppni geti aðeins haft áhrif á hagnað einstakra fjárfestinga, en ekki á heildarhagnað. Hann hélt því fram að heildarhagnaðurinn gæti aðeins fallið ef laun hækkuðu (nema í einstökum, sjaldgæfum tilvikum).
 
Í kafla þrettán í þriðja bindi af Das Kapital gagnrýnir Marx þennan skilning Ricardo og heldur því þvert á móti fram að tilhneigingin til minnkandi hagnaðar sé innbyggður eiginleiki hins kapítalíska framleiðslukerfis. Í Grundrisse handritinu gengur hann jafnvel svo langt að kalla þetta fyrirbæri mikilvægasta lögmál stjórnmálahagfræðinnar. Minnkandi hagnaður getur átt sér aðrar skýringar, en það er einnig kerfisbundin ástæða fyrir honum sem er óháð sveiflum á mörkuðum.
 
Samkvæmt Marx gera tækninýjungar og framfarir framleiðslu skilvirkari. Raunveruleg afköst aukast og fjárfesting í vinnuafli skilar sífellt meira af sér. Hins vegar þá fara vélar að leysa fólk af hólmi og þannig eykst lífræn samsetning fjármagnsins.[1] Ef gert er ráð fyrir að aðeins vinnuafl geti skapað umframvirði, þá mun þessi aukna framleiðsla leiða til minni umframvirðis, miðað við virði fjármagnsins sem fjárfest er í framleiðslunni. Afleiðingin er sú að heildarhagnaður iðnaðarframleiðslu minnkar með tímanum. Þversögnin er sú að hagnaður minnkar ekki vegna þess að framleiðsla minnki, heldur einmitt vegna þess að hún eykst í gegnum fjárfestingu í tækjum og búnaði. Með öðrum orðum þá leiða tækniframfarir til minni þarfar á vinnuafli og langtíma afleiðingarnar eru þær að framleiðsluhagnaður fellur– alveg óháð sveiflum á mörkuðum.
 
Marx tekur þó fram að minnkandi hagnaður sé tilhneiging sem kerfið getur unnið á móti með ýmsum hætti. Dæmin sem Marx tekur eru m.a. aukin kúgun á vinnuaflinu, lækkun launa undir virði vinnuaflsins, lækkun á kostnaði hins stöðuga fjármagns með ýmsum hætti, aukinn vöxtur umframvinnuafls (atvinnulausra) eða minni kostnaður í gegnum erlend viðskipti. En þrátt fyrir að þessi atriði geta unnið tímabundið á móti tilhneigingunni, þá mun hún þó ávallt á endanum hafa vinninginn. Kapítalíska hagkerfið mun á endanum hnigna og leysast upp vegna innbyggðra mótsagna – spurningin er einungis hversu lengi þessi mótvægi haldi áfram að virka.
 
Aðrir marxistar eins og Rosa Luxemburg og David Harvey, hafa einnig rætt ítarlega tilhneigingu kapítalismans til að færa sig um set og leggja undir sig ný landsvæði með ódýrara vinnuafli í þeim tilgangi að vinna á móti þessu lögmáli og halda hagnaðinum uppi. Rosa Luxemburg átti þar að sjálfsögðu við nýlendustefnuna en Harvey (og fleiri) hefur bent á hnattvæðinguna sem fyrirbæri af sama toga. Robert Brenner, þrátt fyrir að vera ekki marxisti sjálfur, er ekki ósammála þessari greiningu, en það skýrir að hans mati einnig ofuráhersluna á hnattvæðingu síðustu áratugi.
 
En þrátt fyrir hana hefur ávöxtun og heildarhagnaður haldið áfram að fara lækkandi, á fyrsta áratugi þessarar aldar náði hann sínum lægsta punkti, svo hnattvæðingin hefur ekki reynst vera nein lífsbjörg. Eftir fjármálakrísuna 2008, er heimshagkerfinu beinlínis haldið uppi af billjóna á billjóna ofan innspýtingum seðlabanka, sem kallað er því yndislega nafni quantitative easing – hugtak sem gæti einfaldlega ekki mögulega rembst meira við að hljóma tæknilegt og flókið (með öðrum orðum eitthvað sem er ekki fyrir almenninga að skilja). Þrátt fyrir að hlutirnir séu í rauninni mjög einfaldur: seðlabankar dæla linnulaust endalausum milljörðum til að halda uppi fársjúku efnahagskerfi sem er löngu hætt að geta staðið á eigin spýtur og allt gefur til kynna að falli eins og spilahús ef reynt er að slaka örlítið á. En þetta er þó augljóslega eitthvað sem ekki er hægt að halda áfram endalaust, eins og seðlabankastjórar gera sér vel grein fyrir og hafa því verið að gera ítrekaðar tilraunir til að komast út úr – með nákvæmlega engum árangri.
 
Hver er lærdómurinn af þessu? Hann er sá að vandamálið er ekki stefnur og ákvarðanir vissra stjórnmálamanna, mér er sama hversu miklir sósíalistar Hannes telur þá vera. Öllu heldur er það augljóslega kapítalíska hagkerfið sjálft. Það og lögmál þess ráða alfarið ferðinni. Við öll – hvort sem við erum stjórnmálamenn, fjármálabraskarar, seðlabankastjórar, strætóbílstjórar, áhrifavaldar, leikskólakennarar eða aðstoðarmenn Sigmundar Davíðs, erum einungis með misgott tak á þessu nauti – og gengur misvel í að vera ekki fleygt af baki.