Harpo has spoken

Í gær kláraði ég bókina Harpo Speaks! sem fjallar um Marxbróðurinn sem aldrei talaði í karakter. Bókin er mjög áhugaverð, reyndar ekki jafn mikið um bræður hans og ég hefði kannski viljað en á móti kemur að hún er uppfull af sögum um samskipti Harpo við margar frægustu rithöfunda, leikara og tónlistarmenn þriðja, fjórða og fimmta áratugar síðustu aldar. Sögur af leikjum Harpo og vina hans á áhyggjulausum þriðja áratugnum þegar þú þurftir bara að kaupa hlutabréf til að eignast meiri peninga eru magnaðar.

Fyrrihluti bókarinnar fjallar um þegar Marxbræðurnir (saman og einir) þvældust um Bandaríkin í óvissu um hvort nokkuð væri að hafa úr þessu. Fimmtán ár í þvælingi áður en þeir komust á toppinn. Ef manni finnst skemmtikraftar nú til dags vera að fórna einhverju til að komast áfram þá kemur allt slíkt út sem barnaleikur miðað við ferðalag Harpo og bræðra hans.

Eftir að hafa lesið bæði bækur eftir Harpo og Groucho bróður hans þá er fyndið að sjá hvernig þeir benda á hvorn annan þegar nefna á gáfumennið í fjölskyldunni. Harpo bendir á að Groucho hafi sífellt verið að lesa frá því þeir voru börn, hafi aldrei hætt því. Groucho bendir á að Harpo hafi verið hluti af hinu fræga Algonquin hringborði og hafi umgengist alla helstu menningarvita síns tíma. Harpo sagði að hlutverk sitt við hringborðið hafi verið að hlusta og því hafi hann aldrei tekið mikið þátt í umræðunni. Reyndar finnst mér það ekki endilega vera merki um greindarskort að hlusta frekar en að tala.

En prufið þessa bók ef þið hafið áhuga á Marxbræðrunum, þessum tíma eða þessu fólki.

Leave a Reply