Freddie bækur

Kláraði bókina sem ég var að lesa, Freddie Mercury: The Definitive Biography eftir Lesley-Ann Jones. Þriðja ævisaga Freddie sem ég hef lesið, líklega sú besta. Bókin hefur það fyrsta markmið að sjá hvernig Freddie fór frá litla feimna Freddie Bulsara sem var kallaður “Bucky” í skóla yfir í það að vera Freddie Mercury stórstjarna og sjá í leiðinni hvað var á bak við stórstjörnuna.

Í fyrrihluta bókarinnar er sérstaklega áhugaverð viðtöl við ættingja og vini frá Zanzibar og skólafélaga frá Indlandi. Þegar hann var orðinn frægur þá hafði Freddie enga löngun til að heimsækja gamlar slóðir, vini og ættingja utan Englands, hunsaði þá eiginlega. Reyndar gerðist þetta kannski ekki þegar hann varð frægur heldur fyrr þegar hann flutti til Englands.

Í miðri bókinni er farið nokkuð yfir kynhneigð hans sem hefði getað verið gert á ósmekklegan hátt en virkar vegna þess að það er verið að kafa í hluti sem gefa innsýn í manninn. Undarlegast af öllu þessu er ávallt samband hans við Mary Austin sem hann bjó með á fyrrihluta áttunda áratugarins en varð síðan einn nánasti vinur Freddie þegar hann kom sagði henni að hann væri samkynhneigður.

Ástæðan fyrir því að Freddie kom aldrei almennilega útúr skápnum er að öllum líkindum sú að hann þorði ekki að segja foreldrum sínum það, þau eru strangtrúuð og hann vildi ekki styggja þau. Þeir sem þekkja til segja að allavega mömmu hans hafi verið alveg ljóst að hann væri hommi en aldrei gefið það í skyn við hann. Freddie kom ávallt með Mary heim til þeirra í heimsóknir (og kom oft fram með honum á almannafæri til að reyna að stöðva slúður).

Nú verður þetta enn undarlegra því Freddie var í sambandi við aðra konu (þýskri leikkonu sem heitir Barbara Valentin) á níunda áratugnum, var nærri því fluttur inn til hennar en hætti við á síðustu stundu. Eftir að Freddie hætti með Valentin þá flutti hann heim til Englands og síðustu árin þá bjó hann með Jim Hutton sem hann kallaði eiginmann sinn þegar fólk sem hann treysti var viðstatt.

Þrátt fyrir að búa með Jim Hutton og að hann væri trúr honum (ekkert annað kom svosem til greina á síðustu árunum) þá bjó Mary í næsta húsi og Barbara var fastur gestur þarna, kokkurinn hans Freddie var líka fyrrverandi elskhugi hans.

Næst þegar einhver spyr mig um kynhneigð Freddie (sem gerist reglulega) þá get ég vísað í þessa færslu. Í stuttu máli var hann miklu hrifnari af karlmönnum en ekki eingöngu.

Margt áhugavert er að finna í bókinni, þar á meðal fannst mér gaman að lesa hvað ungir söngvarar voru hrifnir af því hvað Freddie tók sér tíma í það að útskýra fyrir þeim hitt og þetta varðandi framkomu og söng. Hrifning Freddie á Jimi Hendrix og lýsingin á því hvernig Freddie ákvað bara að verða stórstjarna veita skemmtilega innsýn í manninn.

Nú á ég bara eftir að lesa bókina hans Jim Huttons um samband hans við Freddie. Sú bók varð til þess að Jim var hent útúr Queenklíkunni, að vísu er bókin oft talin í of miklum æsifréttastíl enda var skrásetjarinn úr þeim geira.

2 thoughts on “Freddie bækur”

  1. hæhæ hérna ég er rosalega mikið Queen fan og ég hef verið að leita að bókum um hann útum allt! fann eina í London sem er eftir Peter Freestone. hvar get ég nálgast fleiri bækur?

Lokað er á athugasemdir.