Barátta trúleysingja fyrir jafnrétti

Má finnst ekki þörf á að ráðast harkalega á kristna trú einsog við „herskáu“ trúleysingjarnir (minnir að Douglas Adams hafi kallað sig það) gerum. Hann lítur alveg framhjá því að við hinir trúlausu höfum ástæðu til að vera reiðir við þá kristnu, biskup Íslands ræðst harkalega á okkur og greinar sem svara ásökunum hans fást ekki birtar. Jónína Ben segir að trúleysi sé ástæða þess að það sé níðst á börnum þó fullsannað sé að oft eru gerendurnir kristnir, myndi svipuð grein frá trúleysingja fást birt í dagblaði?
Við þurfum að borga undir Þjóðkirkjuna, kristnihátið, kristnihátíðarsjóð, við þurfum að borga fyrir kristinfræðikennslu sem er í raun ekkert nema trúboð, menntakerfi sem á að hafa kristið siðferði sem grundvöll, höfum forseta sem er yfirmaður kristinnar kirkju. Okkar siðferði er talið óæðra siðferði hinna kristnu, opinber stefna ríkisins og kirkjunnar er í raun að við séum verra fólk en hinir kristnu.

Við erum litnir hornauga í samfélaginu þegar við tökum ekki þátt í kirkjulegum athöfnum (brúðkaupum, skírnum, fermingum) sem Íslendingar fylgja hefðarinnar vegna. Við þurfum að berjast til að koma í veg fyrir það ranglæti sem börn trúlausra (og þeirra sem eru af annari trú) verða fyrir í skólum. Við verðum að svara þeim áróðri sem dynur á þjóðinni úr öllum áttum, í raun úr það mörgum áttum að fólk tekur varla eftir því.

Trúleysingjar hafa verið ofsóttir af kristinni kirkju síðan hún var stofnuð og það er fullkomlega eðlilegt að við stöndum á fætur og bendum á hve óeðlileg, hve órökrétt, hve ranglát og vond þessi trú er raunverulega (lesið Biblíuna). Við náum engum markmiðum okkar ef við óttumst að særa tilfinningar hinna kristnu, þeir hafa fótumtroðið okkur í gegnum tíðina og gera það enn.

Ég held áfram þeirri baráttu sem „herskáir“ trúleysingjar hafa haldið uppi í gegnum tíðina, ég er þeim ólýsanlega þakklátur því ef kristni hefði jafn mikil ítök í heiminum og áður fyrr þá værum við mun verr stödd („There was a time when religion ruled the world. It is known as The Dark Ages.“ – Ruth Hurmence Green). Ég er þó sérstaklega þakklátur Nietzsche sem náði til mín þegar ég var svona 10-11 ára með einni setningu og útskýrði fyrir mér að það væri enginn guð, ein setning á dugði gegn öllum trúboðstilraunum sem gerðar voru á mér sem barn (aðallega í gegnum skólastarf).

Við erum fúl, við erum harkaleg en við höfum góða ástæðu og réttlátan málstað.