Menning eða svoleiðis

Ég fór niður í bæ í gær til að taka þátt í Menningarnótt. Byrjaði á að legga einhvers staðar rétt hjá BSÍ, hefði getað lagt nær en mér er bara ægilega illa við að leggja á grasi og gangstéttum. Fór á Bókasafnið og hló að Eygló, fór í TopShop húsið með það að markmiði að spyrja Ármann hvort Tinni væri hommi en hann fékk greinilega ekki að vera þar allan daginn. Fór aftur á bókasafnið og skrifaði færslu sem birtist seint og síðar meir.
Eygló fékk að fara fyrr úr vinnunni þannig að vorum komin út um klukkan níu. Þá gerðum við þau mistök að fara á Hlöllabáta þar sem við fengum ömurlega þjónustu og vondan mat frá dónalegum sveittum kalli.

Næst skreytti ég eina styttu bæjarins á leið okkar að sjá Eivöru í Kaffileikhúsinu. Allt var fullt í Kaffileikhúsinu þannig að við gátum ekkert séð. Röltum uppeftir til að reyna að kíkja svona einu sinni í Nexus en þeir eru greinilega hættir að hafa opið frameftir. Röltum niður með sjávarsíðunni þar sem einhver gerði tilraun til að myrða mig með ofurhálum flísum í kringum listaverk (hugsanlega eru þær þar til að koma í veg fyrir að fólk misþyrmi listaverkinu).

Sáum eld kvikna og fórum í áttina að honum en þar sem þetta var hættulítill eldur stoppuðum við ekki lengi þar. Horfðum á ljós og hlustuðum á hávaða í of langan tíma og röltum síðan heim til Nils.

Heima hjá Nils var mikið af fólki sem við þekktum ekki og flestir þeir sem við þekktum af hans vinum (fyrir utan “nýju” kærustuna) voru annars staðar. Maður sem mér sýndist vera fréttamaður (á stöð sem ég horfi ekki á) kom í partíð í leit sinni að myndlistasýningu (eða það hafi bara verið fyrirsláttur). Ég spjallaði annars dáltið við einn fræga vin hans Nils og einnig pabba hans um fornleifafræði (og fleira). Eygló var komin úr öllu stuði fyrir klukkan eitt og þá fórum við sem er líklega ágætt því ég var örugglega einkar óáhugaverður þó ég hafi einmitt verið að reyna hið gangstæða. Vonandi voru allir sem ég talaði við of fullir til að muna hvað ég sagði.

Vorum komin heim á nær nákvæmlega sama tíma og í fyrra þó að þá hafi klukkutíma verið eytt í leiðinlegan umferðarhnút.

Ég tók dáltið af (ekki óhóflega margar) myndum og setti á netið sem er skemmtilegt að skoða með hliðsjón af frásögninni.