Hata, hata, hata Windows

Þó ég hafi verið mjög menningarlegur í gær þá eyddi ég fyrst heilmiklum tíma í tölvuvesen. Ég var að láta upp sjónvarpskort og skjákort með sjónvarpsútgangi. Ekkert gekk vel, ég var heillengi að fatta skjákortið (sem þó hefur marga skemmtilega möguleika) en sjónvarpskortið vildi ekki virka. Náði að vísu mynd með lélegu forriti en ekki forritinu sem fylgir með kortinu. Það var ekki fyrren í dag sem ég var að fikta að ég sá vandamálið.

Þegar Windows er að láta inn kortið þá sagði ég henni að leita að driverunum (reklunum einsog enginn kallar þá) á geisladisknum sem fylgdi með kortinu, mistök mín voru að ég sagði Windows ekki að það “ætti” að nota driverana á þessum disk. Í stað þess að nota driverana sem eru sérhannaðir fyrir kortið ákvað Windows að taka einhverja drivera sem því fannst henta miklu, miklu betur til þessara þarfa.

Ég var svo pirraður, af hverju þarf Windows endilega að reyna að hafa vit fyrir manni í svona málum? Ég hef lent í þessu áður þegar ég var að láta inn netkort, þá setti Windows bara inn einhverja drivera sem voru ekkert að virka. Skjóta þetta lið. Endurhanna þennan orm og beina honum að microsoft.com.

Allt er að fara að virka núna þó ég þurfi að finna leið til að framkvæma stillingabreytingar með einum hnappi en það kemur.