Efni frá BBC ókeypis fyrir alla í framtíðinni

Neil Gaiman vísaði á þessa frétt. Þarna kemur fram að markmið BBC er að gera allt efni sem hefur verið framleitt þar aðgengilegt á netinu, bæði sjónvarps- og útvarpsefni. Þetta eru augljóslega stórfréttir og vissulega alveg stórkostlegar. Sú tilhugsun að geta bara skroppið á heimasíðu BBC og valið á milli Black Adder, Drop the Dead Donkey, Coupling, Monty Python og alls þess frábæra sjónvarpsefnis sem hefur komið frá þeim er ótrúlega lokkandi. Svo maður tali ekki um tónlistarupptökur, bæði úr sjónvarpi og útvarpi.

En hvenær verður þetta? Erfið spurning.

Hvenær mun RÚV stökkva til og gera það sama? Málið er að ef afnotagjaldið verður fellt inn í skattana þá er engin afsökun fyrir að sleppa því að skella þessu á netið (þyrftum náttúrulega að borga aðeins fyrir það en það væri þess virði). Ímyndið ykkur að í hvert skipti sem gæði áramótaskaupsins eru rædd þá og það borið saman við eldri skaup þá væri bara hægt að skreppa á netið til að bera saman.

Þetta er allavega mjög falleg framtíðarsýn.