Að velja alltaf góðan málstað

Merkilega lítið hefur verið talað um viðtalað sem var við Björn Bjarnason um síðustu helgi í fréttablaðinu. Kannski er fólk almennt orðið vant því að Björn komi fram með stórskrýtnar skoðanir sínar. Í fyrirsögninni er vitnað í orð Björns að hann hafi alltaf valið góðan málstað, í greininni neitar hann að segja beinum orðum að hann hafi alltaf haft rétt fyrir sér en hver er raunverulega munurinn? Ég veit það ekki. Kannski að Björn sé að rugla saman íslensku og ensku og sé því raunverulega að tala um að hann hafi alltaf valið málstað hægri manna.

Björn talar líka um bók sína með pistlum úr Kalda Stríðinu sem ennþá standa alveg fyrir sínu, við vitum líka að Kalda Stríðið var þannig að Bandaríkjamenn og stuðningsmenn þeirra höfðu alveg rétt fyrir sér á meðan allir aðrir höfðu rangt fyrir sér (og voru vissulega allir bölvaðir kommar).

Í viðtalinu gerir Björn líka lítið úr því þegar hann tók upp á því að ráða frænda Davíðs sem hæstaréttardómara og segir að líka að ákvörðunin hefði verið gagnrýnd sama hvern hann hefði valið, ég sé fyrir mér að það hefði einmitt komið upp álíka mikil gagnrýni hefði hann valið milli þeirra tveggja sem voru hæfastir.

Björn ver það að hafa boðið þessum kínverska morðingja hingað til lands og segir að það sé gott að láta sig tala við svona menn ekki einhverja sem eru “hálfvolgir fyrir kommúnismanum”. Nú er spurning hverja Björn sé að tala um í þessu kommenti, Ingibjörgu Sólrúnu, Geir Haarde eða Halldór Ásgrímsson? Allavega er alltílagi að Björn tali við svona menn í stað þess að einhverjir kommar (nær allir aðrir en hann) geri það. Björn hefði líka verið úrvalsmaður til að tala við Saddam Hussein því hann var ekkert hálfvolgur yfir því að sprengja hann í tætlur. Skrýtið annars að Hussein skyldi ekki vera boðið til landsins til að kynna sér íslenska dómskerfið.