Ég var farinn að sofa en í eyrum mér hljómaði lagið Drowse „thinking it right, doing it wrong“ og ég þurfti að fara að hlusta á það. Þetta var öðrum Queenaðdáanda að kenna. Færslur um Queen eru erfiðar að skrifa af því ég tek mér löng hlé til að hlusta á snilldina.
Ég er stór Queenaðdáandi, mjög stór Queenaðdáandi, topptíu á Íslandi allavega vonandi. Ég hef verið Queenaðdáandi frá því ég var 12 ára, ég varð Queenaðdáandi nokkrum mánuðum áður en Freddie Mercury dó sem er vissulega slæm tímasetning. Aðalmálið við að verða Queenaðdáandi er aðallega að átta sig á að öll þessi frábæru lög sem maður elskar, sem maður kann, eru með Queen.
Ég þurfti að láta mér eina plötu (The Miracle sem Hafdís systir átti) og spólur duga þar til í febrúar 1992 þegar ég fékk Greatest Hits í afmælisgjöf og keypti mér á sama tíma Greatest Hits II. Út þetta ár fór allur minn peningur í að safna Queendiskum og í lok ársins átti ég allt sem ég gat nálgast. Allt heillaði mig, aldrei hitt Queenplötu sem ég hef ekki elskað (nema kannski Greatest Hits 3 reyndar).
Ég gekk í aðdáendaklúbbinn, keypti mér boli, nælur, könnur og fleira. Las bókina um sögu Queen. Ég var kallaður Óli Queen og mér var sama.
Á næstu árum bætti ég því við sem hægt var að bæta við, sólódiskum Brians og Rogers ásamt því sem hægt var að nálgast af verkum Freddies. Undarleg andúð á peningum hjá sumum aðilum sem koma að útgáfumálum Queen, aðalsólóplata Freddie var ekki endurútgefin á geisladisk fyrren svona 2000 sem er fokkings hneyksli. Ég fann hana, Mr. Bad Guy, á hljómplötu í einni safnarabúð í Reykjavíkurferð svona 1995, það var einsog að finna helgigrip. Hún er frábær.
Aldrei get ég gert þessu nægilega góð skil, gleymi mér í tónlistinni.