Stórkostleg sóun á peningum

Við Eygló fórum í verslunarferð áðan. Þurftum fyrst og fremst að kaupa hillu. Eftir mikla íhugun þá var gefið skít í Billy og IKEA því Rúmfatalagerinn er með ódýrari hillur sem heita Everest. Fjallið kemur með flutningabíl í kvöld og þá verða teknar skipulagsákvarðanir.

Hitt sem átti aðallega að kíkja eftir var sturtuhengi og við ákváðum að skella okkur á eitthvað furðulegt glært dót, ég beitti að vísu neitunarvaldi á blómin svo broskallarnir urðu fyrir valinu.

Í Rúmfatalagernum voru skoðaðar sængur því að mig hefur langað í langa sæng í alveg heilllangan tíma. Þegar maður er 187 á hæð þá er tveggja metra sæng ekki nógu löng (nema kannski ef maður er flatari en ég), tærnar fá ekki skjól og þegar kólnar þá er það ekki gott mál. Nú var loksins til almennileg 220 cm sæng og við stukkum á hana. Í kjölfarið voru keypt sængurver á hana sem voru lukkulega á tilboði, þvílík gleði. Náði meiraðsegja í ver með svona japönskum stöfum einsog mig hefur lengi langað í (spyr kannski Miki hans Sigga hvað þeir þýða, þeir gætu reyndar alveg eins verið kínverskir eða bara bull).

Síðan skruppum við yfir í Hagkaup þar sem ég keypti mér húfu svo ég gæti hætt að nota eldfornu Adidashúfuna hennar Eyglóar.