Bíðandi með rokkhljómsveit

Við fengum hljómsveitina Tý og Sigrid umboðsmann/konu Heri í heimsókn í dag og buðum þeim upp á pönnukökur, muffins og laufabrauð. Ég hafði bara minnst á pönnukökurnar við þau þannig að þegar Heri kom þá sagði ég honum að laufabrauð væru íslenskar pönnukökur. Hann féll ekki fyrir því heldur minntist á að laufabrauð væri gott. Hann hefur gert laufabrauð með fjölskyldu Sigrid því hún er hálfíslensk, það vissi ég ekki. Ég gaf hins vegar Kára og Gunnari laufabrauð sem þeim fannst ágætt, þeir fengu sér reyndar sultu með því sem er frekar óhefðbundið. Pönnukökurnar kláruðust.

Við fengum áritanir á bæði Eric the Red og How far to Asgaard og meðal annars þá krossaði Heri yfir þá meðlimi sem hættir eru í hljómsveitinni, bara í gríni held ég.

Sigrid kom auga á Terry Pratchett deildina í bókahillunni minni og fannst mikið til þess koma, hann er uppáhaldshöfundur hennar. Hún virtist líka vera Queenaðdáandinn á heimilinu miðað við athugasemdir hennar um að hún hefði haldið að hennar Queensafn væri gott áður en hún sá mitt.

Við fórum síðan á Rás 2 þar sem Heri þurfti að fara í viðtal á íslensku, það gekk alveg frábærlega, gat svarað öllum spurningum. Þarna voru líka skipuleggjendurnir og hljómsveitin Kanis en Heri var miðpunktur viðtalsins. Það var reyndar fyndin sena í andyrinu þegar það var kominn stór hópur af fólki sem komu að þessum tónleikum og enginn vissi hver ætti að taka á móti okkur.

Eftir Rás 2 fórum við niður á Nasa til að reyna að komast í hljóðprufu, það gekk hægt þar sem það vantaði helling af stöffi í trommusettið hans Kára. Ég skyldi ekki orðin en það var ljóst að hann var að blóta töluvert á færeysku þegar þetta gekk sem verst. Hljóðprufan tók 10 mínútur þegar allt var komið á sinn stað.

Eftir rúman klukkutíma fer ég á tónleikana, ætla aðallega bara að sjá Tý.