Bústaðaferð – Föstudagur

Bókasafnsfræðinördar fóru af stað í ferðalag, áfangastaðurinn var sumarbústaður nálægt Laugarvatni. Litli bíllinn hans Óla var fullur af fólki (Óli, Eygló, Hallgrímur, Hjördís og Nils) og drasli. Á seinnihluta leiðarinnar komu upp vandamál, bíllinn festist en Óli losaði hann án hjálpar. Þegar nær dró bústaðinum þá leiðbeindi Hallgrímur aðeins skakkt og aftur festist bíllinn. Fólkið reyndi að ýta bílnum en ekkert gekk enda kann þetta fólk ekki að ýta. Þegar farþegarnir höfðu farið að leita eftir aðstoð þá fór Óli að moka og hagræða bílnum, Óli var laus áður en aðstoðin barst.

Leiðbeiningar fengust og bíllinn fór réttu leiðina án mikilla átaka. Nils, Hallgrímur og Eygló höfðu af einhverjum ástæðum ákveðið að rölta dáltið þarna en enduðu samt í bílnum aftur. Nú var komið að afleggjara og ekið var eftir honum þar til að kom að bíl sem var fastur þannig að ekki var framhjá honum komist, ekki var hægt að bakka neitt því tveir bílar voru rétt á eftir. Þegar var farið að tala við bílstjórana tvo þá kom í ljós að þar var annar bókasafnsfræðinörd og fyrrverandi kennari Nils, Ísland er lítið. Kennarinn góði vissi um aðra leið að bústaðinum (sem var í svona 300 metra fjarlægð) þannig að eftir bakk og vesen þá komust allir á leiðarenda (reyndar hafði Óli þá hent öllum nema Hallgrími (hinum sterka) úr bílnum).

Í bústaðinum var farið að elda mat og þegar Óli var búinn að snæða þá fór hann að laumast til að búa til krem á afmæliskökuna hans Hallgríms. Laumuspilið tókst þá samsærisfélagarnir hafi ekki náð að hafa taumhald á Hallgrími. Allir nema Eygló fengu sér þá köku.

Næst var farið í heitan pott og allt gekk vel þar til að fólk varð vart við músagang, Óli fer af stað til að hindra inngöngu músanna en það tókst ekki og þurfti hann að reka mús út og náði af henni mynd. Eftir að Óli hafði farið í sturtu sá hann að önnur mús var inni og tók hann sig til við að reka hana út líka. Seinni músin var snjallari og klifraði meðal annars í gluggatjöldum. Eftir myndatöku þá fékk músin reisupassann.

Mikið var rökrætt um hvaða spil skyldi valið fyrir kvöldið og að lokum var Matador tekið fyrir. Í nokkrar umferðir var jafnt en síðan þá varð ljóst að Óli og stelpurnar voru að taka forskot. Hallgrímur var fyrstur að falla eftir harða baráttu þar sem hann reddaði sér einu sinni einkar glæsilega. Næstur féll Nils og nokkrum umferðum seinna var Eygló gjaldþrota. Hjördís barðist til síðasta blóðdropa en Óli fékk ekkert samviskubit við að kreista þá út. Enn og aftur er ljóst að allir eru heppnir að Óli valdi sér ekki að fara út í peningabrask.