Þegar við vöknuðum þá gátum við séð að það var alveg gríðarlega mikið af bústöðum hérna í kring. Snemma á laugardag ákváðum við að fara út að ganga, þegar við gengum um svæðið virtist það minna en þegar við vorum að bakka og keyra löturhægt þarna kvöldið áður. Nils fór að fíflast eitthvað og þegar bíll keyrði framhjá okkur tók hann upp á því að benda eitthvað út í loftið. Bíllinn stoppaði og Eygló var spurð hvað við hefðum verið að benda, hún gat lítið svarað.
Þegar heim kom þá ætluðum við að spila Hringadróttinsspilið en þegar ég áttaði mig á að það tæki örugglega meirihluta dagsins að finna eitthvað úr reglunum þá ákváðum við að fara í Kínverska skák í staðinn. Plúsinn við Kínverska skák er að við gátum hringt aftur og aftur í Árnýju til að fá reglurnar á hreint. Halli var í þeirri vondu stöðu að hafa aldrei spilað Rommí sem er eiginlega nauðsynlegur grunnur í Kínverska skák og tapaði því einkar glæsilega. Ég vann hins vegar með yfirburðum.
Þegar Kínversku skákinni lauk þá var komið að matseld. Matseldin gekk afskaplega vel og fylltist allt af reyk. Eftir mat fór ég í pottinn og hin bættust við hægt og rólega. Þegar við komum úr pottinum varð ég var við músafaraldur í núðluafgöngum sem hafði verið settur í geymslu utan dyra, við skoðuðum þær og tókum fullt af myndum af þeim.
Rétt um miðnætti byrjuðum við í póker. Hallgrímur var líka að spila póker í fyrsta skipti en náði samt að vinna aftur og aftur. Eygló datt fyrst út enda ekki í stuði. Hallgrímur tók miklar áhættur og datt þannig út. Mér gekk misvel en þegar var skipt um pókerafbrigði og tvistarnir giltu allt þá fór allt upp á við. Undir lokin þá var Nils með 5200 í matadorpeningum, ég með rétt tæp 40.000 og Hjördís með rúm 50.000. Hjördís hafði unnið síðustu hendurnar og það hefur reddað henni á toppinn. Ég fékk af einhverjum ástæðum gælunafnið Óli Fairplay með tilvísun í Johnny Fairplay úr Survivor.
Síðan fórum við að sofa.