Frægasti maðurinn

Ég eyddi stórum hluta dagsins í að hlusta á Queen, lesandi textana um leið og njótandi þess. Heiða kom síðan í heimsókn og kvartaði yfir systur sinni.

Við fórum út í vonda, vonda veðrið til að hitta Árnýju og Hjörvar, horfa á Popppunkt með þeim og spila. Breytingarnar á Popppunkti lofa góða, leiðinlegt að hafa ekki fengið að heyra öfuguggann.

Við spiluðum fyrst Mr & Mrs þannig að pörin voru saman, við Eygló náðum betri árangri yfir heildina. Síðan voru strákar á móti stelpum og við Hjörvar vorum ekki að dansa í því.

Ég þurfti að svara spurningunni hver væri frægasti maðurinn sem ég hefði hitt, Hjörvar giskaði á Ármann Jakobsson. Ef Ármann les dagbókina mína ennþá getur hann glaðst yfir því að hann er, í huga Hjörvars, frægari en til að mynda Rúnni Júl og Heri Joensen (söngvari/gítarleikari Týs). Ég samþykkti þó ekki Ármann því ég er á því að Mattias Eklundh gítarleikari/söngvari Freak Kitchen sé frægasti maðurinn sem ég hef talað við. Ég byggi þetta á því að Mattias er mjög frægur á sínu sviði og heldur námskeið um allan heim. Í leiðinni gat ég mér þess til að Kenneth Peterson sé valdamesti maður sem ég hef hitt. Hjörvar sló mér náttúrulega alveg við með því að hafa hitt Bono.

Ég þurfti líka að svara hvort ég vildi fara á stefnumót með Britney Spears, Tinu Turner, Cher eða Kylie. Umhugsun leiddi til þess að ég valdi Britney, skýringin er sú að Britney hefur hitt bæði Brian og Roger úr Queen og unnið smá með þeim, ég myndi reyna að fá einhverjar sögur af þeim.

Á morgun birtist eftir mig hugvekja á Vantrú, ég held að hún sé góð.