Afmælisgjafavesen

Það var erfitt að kaupa afmælisgjöf handa Eygló. Ég ætlaði allavega að kaupa sömu gjöf og venjulega, Sex in the City á dvd. Ég var nokkuð viss um að þetta fengist í Hagkaup Smáralind þannig að ég fór þangað til að kaupa. Ég fylltist ótta þegar ég byrjaði að taka eftir því að það var búið að plasta margar vörur og á þeim stóð „talning“. Ótti minn var staðfestur þegar ég kom að dvd deildinni og það var búið að láta plast þar þvert yfir svo ég komst ekki að, verst var að ég sá diskinn sem ég ætlaði að kaupa þarna inni en mátti ekki ná í hann. Stór mínus hjá Hagkaup.

Diskurinn var ekki til í BT eða Skífunni Smáralind þannig að ég fór í Elkó, diskurinn var ekki til þar. Næst fór ég í Kringluna, þar fékkst diskurinn ekki í BT, Hagkaup né Skífunni. Ég brunaði niður í Tölvulistann þar sem diskurinn var ekki til. Fór í Nexus til að kíkja hvort ég gæti keypt LotR Risk handa Eygló en það var ekki til (ekki heldur Sex in the City). Ég fór í 2001 til þess að verða fyrir vonbrigðum og endaði í Skífunni þar sem ég fann ekki heldur diskinn sem vantaði.

Mér var alveg lokið en mundi þá eftir öðru sem Eygló langaði í, ég keypti handa henni tónleikadvddisk með U2 og einnig safn af myndböndum 1990-2000. Gott að ljúka því af.

Annars þá gerði ég mistök þegar ég var að pakka gjöfinni í gærkvöld, ég skyldi eftir pokann undan gjöfinni inn í herbergi þar sem Eygló sá hann, sem betur fer fattaði hún samt alls ekki hver gjöfin væri. Þegar hún opnaði gjöfina þá skelltum við tónlistarmyndböndunum í til að verða fyrir vonbrigðum þegar diskurinn bara hikstaði ægilega, ég prufaði hann næst í fartölvunni og hann var eins þar. Við þurfum að fara á eftir að fá nýjan disk.