Svíþjóðarferðasaga

Jæja við Eygló skruppum til Svíþjóðar yfir áramótin, ég hélt dagbók sem kemur hér að neðan í heild sinni. Þetta er löng lesning. Við fórum semsagt aðallega til að hitta Önnu systur og Haval mág í Borlänge, sem er í Dölunum, en eyddum líka tveimur dögum í Stokkhólmi.


Snemma og seint af stað
00:45 að sænskum tíma þann 31. des 2004 í Borlänge
Jæja, við erum komin til Svíþjóðar. Við sváfum í svona þrjá tíma í nótt. Fengum okkur leigubíl út á BSÍ og náðum rútunni sem fór af stað til Keflavíkur klukkan fimm, reyndar ætluðum við að vera hálftíma seinna á ferðinni en vorum bara voðalega snögg eitthvað.

Flugvallarútan var þétt setin, ég hlustaði á fyrstu kaflana úr Dirk Gently’s Holistic Detective Agency á leiðinni. Málmleitartækið flautaði á Eygló, það hafði fundið eitthvað málmkennt í beltinu hennar sem okkur þótti skrýtið þar sem þetta virtist aðallega vera úr plasti. Við byrjuðum á símakaupum fyrir Eygló, gamla síma hennar var drekkt um daginn. Við keyptum alveg eins síma og létum batteríið úr þeim gamla í þann nýja þannig að síminn varð strax virkur.

Við gerðum heiðarlega tilraun með að versla við veitingastofuna á Leifstöð. Ég tók þá undarlegu ákvörðun að kaupa mér morgunmat sem samanstóð af einhvers konar pylsum, beikoni, eggjakökum, bökuðum baunum og brauði. Bökuðu baunirnar og pylsurnar voru vafasamar en hitt var ágætt. Eygló ætlaði að spara með að fá sér bara kranavatn þó hún væri vöruð við því að það væri ekkert sérstakt. Hið ósérstaka vatn var brúnt og sérlega ógeðfellt þannig að Eygló keypti sér vatn í flösku. Ég sem hélt að við ættum besta vatn í heimi! Allavega er ég óvanur brúnu vatni. Ég get ímyndað mér betri landkynningu en það að gefa ferðamönnum brúnt vatn.

Á meðan við sátum þá byrjuðu að koma tilkynningar. *Flug XXX til Oslóar seinkar…. Flug XXX til Frankfurt seinkar….* Alltaf gladdist maður þegar ekki var minnst á Stokkhólm en að lokum gerðist það, fluginu var seinkað til að farþegar frá Bandaríkjunum kæmust í vélina. Við fengum þar af leiðandi að eyða 45 aukamínútum á svæðinu. Lítið spennandi gerðist á þessum tíma, eiginlega ekkert nema að ég fór á klóstið og náunginn á undan mér þvoði sér ekki um hendurnar.

Við komust út í vél og að lokum komu líka farþegarnir frá Bandaríkjunum. Flugið gekk vel, ég hlustaði á Douglas Adams lesa bókina sína og sofnaði meiraðsegja.

Á Arlandaflugvelli lenti ég í nákvæmustu tollskoðun sem ég hef lent í til þessa, fíkniefnahundur sniffaði af mér (hann þefaði reyndar á öllum). Flugvöllurinn bar þess merki að á sama tíma var að koma flugvél frá Tælandi, fjöldi manns beið eftir ættingjum sínum og sumir voru mjög miður sín. Þegar við fórum að leita að lestinni okkar þá kom í ljós að leiðin þangað var ekki greið, það var búið að setja upp “kriscenter” vegna flóðanna á ganginum þar. Við flæktumst upp og niður lyftur þar til við enduðum á lestarpallinum um hálftíma fyrir brottför. Við gátum slappað aðeins af þarna.

Það var auðvelt að komast í lestina, það dugði meiraðsegja að sýna bara útprentun af greiðslukvittuninni. Reyndar þurftum við að byrja að reka fólk úr sætunum okkar, við höfðum þarna gluggasæti með borð, voða kósí. Við slysuðumst reyndar til að sitja þannig að Eygló fór afturábak en hún fór ekki yfirum. Við keyrðum í gegnum ótal smábæji áður en við enduðum rúmum tveimur tímum seinna í Borlänge, á leiðinni sváfum við aðeins en ég hlustaði líka á nokkra kafla af Dirk.

Á lestarpallinum biðu Anna og Haval eftir okkur, ég var reyndar lengi að taka eftir þeim. Við keyrðum beint heim til þeirra sem tók bara örfáar mínútur. Okkur var síðan boðið upp á pönnukökur. Eftir pönnukökurnar skruppum við Eygló með Önnu í verslunarmiðstöðina, gengum þangað enda örstutt frá. Þar skoðuðu Eygló og Anna heilmikið en það var lítið á áhugasviðum mínum þarna. Eftir nokkuð búðarráp byrjaði ég að ýta á eftir konunum. Ég var byrjaður að finna til í bakinu enda hefur það verið svívirt undanfarið með afar vondum sætisbúnaði flugvéla. Við lukum verslunarferðinni í matvörubúð þarna og röltum síðan heim.

Þegar heim var komið enduðum við Eygló bæði á að legga okkur og vorum bæði köld þegar við vöknuðum, við höfðum líka lagst beint niður á dýnuna án þess að hafa sæng né kodda. Haval var þá rétt að verða tilbúinn með Lasagne’ið sitt sem var ákaflega gott að venju, ég hefði reyndar notað færri gulrætur sjálfur. Við enduðum kvöldið síðan á að horfa á K-Pax á meðan arineldurinn brann, töluvert meira ekta en sá sem við fengum í jólagjöf.

Nú hef ég farið í sturtu, skroppið á netið og skrifað sögu dagsins. Góða nótt að sinni, ég veit ekkert hvenær þetta verður birt á netinu.


Klukkan 02:05 að sænskum tíma, fyrsta janúar 2005.

Það er komið nýtt ár. Þetta var rólegur dagur hjá okkur, vöknuðum seint og síðar meir. Við tókum smá göngutúr um bæinn núna síðdegis, fundum eina plötubúð sem var opin en það var ekki mikið áhugavert þar. Borlänge er greinilega afar stolt af því að Jussi Björling er héðan, safn og stytta í bænum. Við fórum ekki á safnið og hefðum væntanlega ekki gert það þó það hefði verið opið. Götuskiltin hér eru mjög fyndin, sérstaklega þau sem tenjast veginum hans Jussa.

Við komust heil á höldnu heim, fengum naut í matinn. Í kvöld höfum við horft töluvert á sjónvarp, meðal annars kúrdískt sjónvarp og sænskan spurningaþátt. Um miðnættið skáluðum við í eplagosi með 0,7 % áfengishlutfalli, það kom úr kampavínsflösku. Lítið um rakettur hérna, ég sakna þeirra ekki.


Rólegt og notalegt.

Klukkan 23:50 að sænskum tíma þann fyrsta janúar 2005.

Letidagur
Við eyddum deginum í letilíf, vöknuðum seint og síðar meir enda vöktum við frameftir. Við horfðum á innlenda fréttaannálinn í gærnótt. RÚV ákvað að hafa þetta ákaflega heimilislegt með því að klippa ekki út Afsakið hlé sem stóð í óratíma, eins gott að Svíar borga ekki fyrir niðurhal.

Við fengum okkur upphitað lasagne í morgunmat. Ég rakst síðan á þátt með vinkonu okkur Hafdísar, henni frú Fötu (eða Blómvendi). Ég skrapp með Eygló út í Sparbúð þar sem við keyptum flögur og hlæjandi beljuost.

Í kvöldmatinn var léttreyktur lambahryggur frá norðlenska, því miður ekki merktur KEA einsog við Anna hefðum viljað. Hann var ákaflega góður og ég át alltof mikið.

Bara afslöppun.


00:01 að sænskum tíma 2. janúar 2005
Þjóðarsorg
Í dag var þjóðarsorg í Svíþjóð en við tókum lítið eftir því. Fréttirnar voru bara einsog síðustu daga, dánartalan er sem betur fer hætt að stökkva upp einsog hún hefur gert undanfarið, þó veit maður að tala á eftir að hækka enn. Framan á Aftenposten er mynd af stelpu sem leitar að tvíburasystur sinni.

Að sjálfssögðu getur maður lítið sagt yfir þessu öllu, þetta er svo stórt að maður nær ekki almennilega utan um það. Ég sá í dag fréttir af einhverjum eyjum þar sem flestallir virðast horfnir, lífið bara þurrkað út. Hvað ætli séu mörg þorp sem eru horfin?

00:15 að sænskum tíma 3. janúar 2005
Dalirnir og Árás í Litlu Chicago
Við vöknuðum eldsnemma í morgun og fórum síðan af stað uppúr hádegi. Við keyrðum um Dalina sem virðast vera rangnefndir þar sem hér eru fáir dalir, fullt af trjám samt, þau eru stór. Við fórum þangað sem Dalahestarnir frægu eru gerðir og tókum nokkrar myndir. Við keyrðum alla leið til Mora þar sem Vasahlaupið endar. Við komum síðan við í bakaríi á heimleiðinni. Það var kjúklingur í kvöldmat.

Við Eygló ákváðum síðan að fara ein í bíó í kvöld, völdum National Treasure sem var bara mjög fín afþreyingarmynd. Reyndar fór um mig þegar fólkið var að misþyrma gersemunum, maður á að nota hanska þegar maður er að meðhöndla svona. Ég fyrirgaf Indy þetta reyndar en hann var uppi á öðrum tímum. Annars hafði myndin þann frábæra kost að hún hætti þegar hún átti að hætta.

Á leiðinni heim stoppuðum við á brú og horfðum á járnbraut fara þar undir, voðalega höfum við litið heimskulega út í augum heimamanna. Þegar við vorum að fara af stað af brúnni komu tveir unglingar á eftir okkur, við reyndum að halda okkur í fjarlægð en að lokum tóku þeir sig til og hentu bjórdósunum sínum í áttina að okkur. Bjórdósirnar voru hálffullar og það hefði getað farið illa ef þeir hefðu endað í hausnum á okkur. Við gerðumst gáfaða fólkið og komum okkur í burt, það kostaði smá krókaleiðir en við enduðum á réttum stað. Anna sagði síðan að þetta svæði væri kallað Litla Chicago, hún lét okkur ekki vita af því fyrirfram til að við yrðum ekki hrædd.

Ef ég má fyllast þjóðernisrembingi augnablik þá get ég sagt með fullri vissu að íslenskir unglingar myndu aldrei hegða sér svona! Ég veit allavega ekki um neinn sem myndi sóa hálffullri bjórdós á þennan hátt. Verndum fólkið, höldum áfengisverði háu.


17:28 að sænskum tíma þann þriðja janúar 2005
Falun dagur í dag
Í dag fórum við með Önnu til Falun. Falun er fíni nágranni Borlänge, mikið eldri. Við byrjuðum að skoða Kristinekirkju, náðum smá tíma þar áður en bænastund byrjaði. Næst fórum við í búðir, Eygló varð brjáluð í H&M. Síðan fórum við á byggðasafn bæjarins, það var ágætt. Merkilegasti hlutur safnsins var egypsk múmía sem fannst á háalofti í skóla þarna, væntanlega var það ekki upphaflegur greftrunarstaður. Það síðasta sem við skoðuðum í Falun var náman sem bærinn er frægur fyrir.

Þegar við komum heim fórum við að innganginum að framtíðarsafni en ákáðum að fara ekki inn. Okkur varð hugsað til Stebba Páls.

Við fórum á bókasafn Borlänge, þar töluðum við ungan starfsmann (Erik ef ég man rétt) sem hafði nýlokið bókasafnsfræðinámi sínu. Hann útskýrði fyrir okkur sænska flokkunarkerfið sem er mjög skrýtið. Það er svona aldargamalt og endurspeglast af hugsanagangi þess tíma. A flokkurinn er bókasafnsfræði, B er ýmislegt og C er trúarbrögð vegna þess að þau töldust merkileg þá. Á eftir þessu komu hugvísindi og síðastu flokkarnir voru hin ómerkilegu náttúruvísindi. Heill bókstafur, S ef ég man rétt, var helgaður hernaði. Sá flokkur innihélt ekki margar bækur.

Við röltum síðan aðeins um bæjinn og komum okkur heim.


Klukkan 21:31 að sænskum tíma í Best Western Hotel Terminus í Stokkhólmi
Við vöknuðum eldsnemma í morgun og röltum af stað á lestarstöðina með Haval og Önnu. Við kvöddum reyndar Haval á leiðinni þar sem hann var að fara í vinnuna. Einsog okkar er lag þá vorum við komin snemma á lestarstöðina og biðum þar í töluverðan tíma með Önnu. Við höfðum pantað sæti með borði en þegar í lestina var komið sáum við að þetta borð var pínulítið og alls ekki okkar megin. Sem betur fer var okkur sama um þetta og komum okkur bara fyrir. Við slöppuðum af á leiðinni, ég hlustaði á Dirk Gently (þar á meðal kafla sem ég hafði greinilega lítið heyrt af fyrir svefni í síðustu lestarferð).

Við komust heil á höldnu á aðallestarstöðina í Stokkhólmi og þegar við komum út af henni sáum við að það var ekkert ýkt í auglýsingunum, hótelið okkar var bara hinum megin við götuna. Við fengum að koma okkur fyrir í herberginu þó við værum snemma á ferðinni. Herbergið er ákaflega notalegt, hér baðkar og sjónvarp. Allt voða fínt.

Næst drifum við okkur af stað á kebabstaðinn sem Haval hafði mælt með, það var ákaflega gott. Ég játa að þetta var í fyrsta skiptið sem ég borðaði kebab. Þegar Eygló hafði loksins borðað nógu lengi þá fórum við að reyna að finna ferðamannaupplýsingaskrifstofuna. Sú leit gekk ekki vel. Spurning hvort að kortið sem við keyptum í Borlänge hafi verið úrelt því þar sem skrifstofan átti að vera var TGI Fridays staður. Við ákváðum loks að koma okkur bara yfir í gamla bæjinn.

Ég verð að segja að mér þykir konungshöllinn hér ekkert spes að utan, hún er afskaplega kassaleg. Einnig fannst mér lítið til Stóru kyrkjunnar koma, hún var afskaplega mikið bland í poka. Í slottinu sjálfu skoðuðum við vopna-, búninga-, og vagnasafnið. Það var bara gaman, ég prufaði að handleika sverð Gandalfs, Bilbo og Aragorns. Ég mátti ekki prufa geislasverðin. Vagnarnir voru svoltið skemmtilegir, í raun voru þeir gervilegri en Hringadróttinssverðin þó þeir væru ekta. Ég hef fundið svoltið fyrir í bakinu undanfarið og mig grunar að þar sé um að kenna óþægilegum flugvélasætum. Ég þurfti að koma við og kaupa mér panodil.

Við röltum næst um Gamla bæjinn, fundum húsasundið sem Anna sagði að ég kæmist ekki fyrir í. Við fórum í eina leikjabúð og ég keypti Discworldspilið Thud. Við fórum á Riddarahólm þar sem er kirkja sem einhver risastór fugl hefur dritað á. Einn aðaláfangastaður dagsins var Póstsafnið þar sem við sáum byltingarkenndu textana hennar Ekarv. Reyndar fengum við ókeypis þar inn þar sem við komum stuttu fyrir lokun. Ég útskýrði ekki að við vildum aðallega skoða miðana en ekki gripina, ég minntist hins vegar á það í gestabókinni.

Eftir smá rölt í viðbót enduðum við á hótelinu og fórum síðan á Pizza Hut, Eygló valdi það. Maturinn var svosem fínn en líklega er biðin helsta einkennismerki þessarar keðju. Við komum síðan við í 7-eleven þar sem ég komst aðeins á netið og fékk loks eina einkunn, 8 í forspjallsvísindum. Við ákvöðum næst að fara í nuddpottinn og sánað þarna. Mér þótti nuddpotturinn frekar kaldur en sánað var mjög fínt.

Núna er það snemma að sofa til að geta notað birtuna í fyrramálið. Mér þykir óþægilegt hvernig þeir mæla tímann hérna miðað við sólarganginn, sólin sest svo snemma.


19:26 að sænskum tíma í Hotel Terminus
Safnadagur í dag
Við vöknuðum snemma í morgun og fengum okkur morgunverð hjá hótelinu. Maturinn var svosem ágætur en við hefðum kannski átt að vakna fyrr til að fá hann aðeins ferskari.

Svo röltum við að Konunglega bókasafninu. Það var frekar óaðlaðandi stofnun, húsið frekar óspennandi að utan og að innan var það afar fráhrindandi. Til þess að finna nýjar bækur þarf maður að rölta niður eitthvað lengst oní nýbygginguna sem hefur verið troðið aftan á bókasafnið. Reyndar var þessi nýbygging ekki jafn súr og Svarti dementurinn í Kaupmannahöfn en notagildið er væntanlega minna. Skemmtilegasti hluti safnsins var lessalurinn, þar voru bækur upp í loft og til að komast að þeim þurfti maður að nota svalir, ég myndi samt ekki vilja nota lessalinn né vinna þarna. Ég held að Þjóðarbókhlaðan komi líka mjög vel útúr þessum samanburði, reyndar líka við danska safnið.

Ég hafði reyndar mjög gaman að því að sjá Djöflabiblíuna sem var á neðstu hæð nýbyggingarinnar (hjá nýju bókunum), hún var opin á síðu með mynd af djöflinum sem ég hef notað sem skreytingu á Vantrú. Þessarri Biblíu var á sínum tíma rænt frá Prag.

Í bakgarði safnsins var stytta af Linné. Við gengum næst af stað eftir götu flokkarans í átt að Þjóðminjasafninu en á leiðinni rákumst við á kirkju sem var svipuð í laginu og marmarakirkjan en ekki jafn flott, hvorki að innan né utan. Við skoðuðum kirkjuna lítið að innan vegna þess að eftir svona tveggja mínútna skoð tókum við eftir líkkistu og svartklæddu fólki sem var að koma inn í kirkjuna. Gott að ég var ekki búinn að taka myndir.

Þegar við höfðum skoðað hershöfðingagröfina (legsteinninn var skreyttur með fallbyssum) í kirkjugarðinum ákváðum við að kíkja á hersafnið sem var þarna upp við kirkjuna. Þetta var eitt af ókeypis söfnum bæjarins, það var byrjað á þessu “Fri entré” um áramótin á mörgum söfnum. Við þurftum að bíða töluvert lengi eftir að safnið opnaði, hún var svona fimm mínútur framyfir þegar þeir opnuðu. Safnið kom hins vegar töluvert á óvart. Sýningarnar voru flottar, mikið af sviðsetningum sem voru alveg að virka. Það er mjög augljóst að safnið er mjög meðvitað um boðskapinn, hryllingur stríðs er sýndur (þó þeir hafi ekki haft mikið af innyflum).

Á leiðinni á Þjóðminjasafnið þá var þriggja mínútu þögnin. Hérna stoppaði umferðin ekki einsog ég var að sjá áðan í sjónvarpinu en flestir þögðu. Þjóðminjasafnið var líka ókeypis en þar var mikið verið að vinna þarna. Við fengum okkur smá að borða á kaffiteríunni þarna, allt í lagi matur svosem. Við byrjuðum á að skoða gullherbergið sem er í kjallara safnsins, þar voru fjársjóðir, töluvert af hlutum sem Svíar hafi stolið í stríðunum sínum. Á aðalhæðinni var víkingatíminn, dáltið af flottum hlutum þar en ekkert sem stendur mikið uppúr nema kannski módelið af víkingabænum. Uppi var síðan vefnaðarsafn og síðan fullt af Jesúdóti, það var það eina sem var sýnt af tímabilinu c.1200-2004, hitt var væntanlega lokað vegna breytinga. Skiltin þarna voru mörg leiðinleg, textinn var oft á sænsku, þýsku og ensku en sá erlendu textarnir voru oft með litlu og leiðinlegu letri og stundum mjög illa staðsettir, alveg við gólfið.

Ég skrapp líka á salernið þarna sem teldist nú ekki merkilega nema fyrir það að þegar ég kom út klóstinu þá sá ég að það flæddi uppúr annarri pissuskálinni þarna, verulega ógeðslegt að sjá ljósgult vatnið flæða á gólfið. Ég var sem betur fer í góðri fjarlægð og gat farið að láta vörðinn vita. Sá sem olli þessu hefur greinilega ekki viljað benda á þetta sjálfur.

Næst fórum við í Óskarskyrkju, hún var frekar lítið spennandi. Við vorum á leiðinni að Vasasafninu og Júníbakkanum (Astrid Lindgren-safn) þegar við sáum Nordiskasafnið. Safnið var í svo flottu húsi, hálfgerðum ævintýrakastala, að við þurftum að kíkja inn. Þarna var líka ókeypis. Í aðalsalnum er risastytta af Gústaf Vasa. Safnið samanstóð af mörgum ólíkum sýningum og þær voru margar mjög skemmtilegar, við mælum alveg með því.

Við ætluðum á Júníbakkann en það kostaði frekar mikið inn, stutt í lokun og allt of mikið af fólki. Vasasafnið var því næst á dagskrá. Það er náttúrulega ótrúlega flott. Skipið sjálft er magnað, óskiljanlegt að fólk skuli hafa lagt í þessa framkvæmd og svoltið bjánalegt miðað við hvernig fór. Við sáum þarna áhugaverða heimildarmynd um skipið, reyndar var bara verið að sýna það á sænsku með enskum texta en við laumuðum okkur með túristahóp sem hafði pantað að fá hana á ensku. Það hefði verið flott að sjá hvernig skipið var þegar það lagði af stað í sína fyrstu, hinstu ferð. Svo virðist sem að það hafi verið ákaflega skræpótt.

Síðan röltum við af stað til baka, fengum okkur mat en komumst ekki á netið í 7-eleven. Það var voða notalegt að komast í bað áðan, ég var orðinn svoltið aumur í bakinu.


Klukkan 09:00 að sænskum tíma þann 6. janúar 2005
Í gærkvöldi fórum við út. Við byrjuðum á að fara í 7-eleven til að kíkja á netið. Í þetta skiptið var netið í lagi en ég fann ekki miðann með kóðanum mínum. Við fórum aftur á Hótelið til að leita að kóðanum en ekkert gekk. Næst fórum við út á lestarstöð til að sjá út hvernig lestin út á Arlanda virkaði. Við ákváðum líka að fara á netið þarna. Við komum við í búð og eltum síðan uppi miðasjálfsala. Þegar ég var að fikta í sjálfsalanum þá náði ég að ýta einhvern hnapp sem varð til þess að tækið byrjaði að tala við mig, ég baðst afsökunar á að hafa ýtt á takkann. Við náðum að kaupa miða þó hann hafi verið dýr. Síðan fórum við heim á hótelið þar sem ég fann kóðann sem ég hafði leitað að, hann var í jakkavasanum mínum.


Klukkan 09:10 að sænskum tíma þann 6. janúar 2005
Sænsk söfn
Nú hef ég farið á nokkuð mörg sænsk söfn síðustu tvo daga og það er eitt afar pirrandi við þau, eiginlega alls staðar eru skiltin bara á sænsku. Á nokkrum stöðum var sumt á ensku og sums staðar voru einhver spjöld með enskum texta sem maður gat haft með sér, ég nennti því ekki. Maður gat samt bjargað sér á sænskunni. Vasasafnið var alger undantekning í þessu, alls staðar var enskur texti undir þeim sænska og alltaf jafn stór og sá sænski. Stundum hefði samt verið hægt að hanna uppsetningu textans betur.

Það að hafa ókeypis aðgang að mörgum söfnum var alveg frábært, við hefðum varla litið inn í Nordiska eða Armé (hersafnið) ef svo hefði ekki verið. Held að það sé gott fyrir söfn að reyna frekar að selja einhver minjagripi til að græða á. Þetta virkaði eiginlega best í Armésafninu þar sem var flott búð, ég keypti reyndar ekkert þarna en hefði gert það ef þriggja mínútna þögnin hefði ekki einmitt verið að fara af stað.

Við Eygló höfum reyndar ólíkan smekk á söfnum, mér finnst skemmtilegast að fræðast svoltið ítarlega en hún vill meiri upplifun ef svo má segja. Eygló nennir ekki að lesa langa og góða texta sem ég fíla alveg í botn. Það getur verið erfitt að samræma þessi sjónarmið okkar.


Klukkan 13:30 að íslenskum tíma þann 6. janúar 2005, einhvers staðar yfir Noregi eða Atlantshafinu.

Ég er í flugvélinni, sé ekki niður á jörðina og það er helvítis auglýsingahlé á myndinni.

Morgunmaturinn var óspennandi og eiginlega enginn þarna, væntanlega ekki annatími á hótelinu. Við tókum því rólega í morgun og komum okkur snemma af stað. Lestin var bara fín og ekkert stress þar.

Það gekk vel á flugvellinum, fríhöfnin var samt ekki spennandi. Ég athugaði hvort það væri mikið af vantrúarbókmenntum í bókabúðinni þarna. Ég fann *A Brief History of Time* eftir Hawking þannig að það er réttmæt gagnrýni að við á Vantrú notum flugvallarsjoppubókmenntir. Ég keypti mér horn í veitingasölunni, því miður var hnetusmjör inn í því þannig að ég át bara utan af því, Eygló át afganginn. Á meðan við sátum þarna hellti einhver Svíi niður kaffi. Eftir töluverða bið kom starfsmaður að þurrka þetta upp. Ég varð alveg miður mín þegar ég sá að hann notaði moppuna á gólfið og afgreiðsluborðið, fyrst á gólfið.

Þegar við vorum komin í loftið reyndi Bandaríkjamaðurinn fyrir framan mig að brjóta á mér hnéskeljarnar með því að ýta aftur sætinu sínu. Ég ýtti því harkalega til baka þar sem þetta var sárt og hann varð voðalega fúll og vildi spjalla heilmikið um þetta á meðan ég var búinn að bjóða honum að ég myndi færa mig um sæti. Ég hafði bent honum á að skipta um sæti við kærustuna sína, hann sagði að hún vildi líka færa sætið sitt aftur, það var greinilega lygi. Annars virka þetta þannig að ef einn færir sætið sitt aftur þá þurfa allir að færa sætið sitt aftur og ekkert er betra nema að sætið hallar um aukalegar 5 gráður. Ég hata flugvélasæti, ég held að hámarkshæð þeirra sem geta setið almennilega sé um 175 cm.

Kvikmynd dagsins (eða mánaðarins) er The Out-of-Towners með Steve Martin, ég hef ekki horft á hana fyrr og hún virðist vera miklu betri en almennt er sagt. Rétt áður en matarútdeiling hófst nelgdu flugfreyjurnar vagninum í mig og voru ekkert að biðjast afsökunnar. Maturinn var annars góður, það kom töluvert á óvart þar sem á leiðinni út þá var maturinn algerlega óætur ef frá er talið brauðið.

Nú sit ég hérna með fartölvuna opna og horfi á myndina með öðru auganu, það gengur ekki vel hjá þeim í stórborginni og appelsínið mitt fer að klárast. Við lendum væntanlega klukkan 15:30 og þá sækir Hrönn okkur á flugvöllinn, bíllinn okkar er líklega í Hafnarfirðinum.

Við höfum lítið verið heima í tvær vikur, tvo daga í síðustu viku, það verður gott að koma heim.


Klukkan 13:53 að íslenskum tíma þann 6. janúar 2005, ennþá að fljúga.

Flughræðsla og flugveiki
Ég er flughræddur og ég verð flugveikur. Reyndar er hvorugt alvarlegt vandamál en saman er þetta voðalega óþægilegt. Ég hef farið í 7 flugtök og sjö lendingar síðan 22. desember. Fokker frá Reykjavík til Akureyrar, Twin Otter til Vopnafjarðar. Twin Otter sem millilenti á Þórshöfn á leiðinni til Akureyrar. Fokker til Reykjavíkur. Boeing til Stokkhólms? Boing tilbaka? Þetta er of mikið, verst að ég þarf líklega að fara til Evrópu í vor til að sjá Queen og Paul Rodgers.


Klukkan 18:00 að íslenskum tíma heima
Ferðalok
Við erum komin heim, það er þvílík gleði. Ótrúlega mikill póstur sem beið eftir okkur.

Við keyptum lítið nammi í fríhöfninni, ég var í litlu stuði fyrir slíkt. Ég keypti hins vegar bæði dvd og cd-r diska, þar er verðmunurinn greinilegur. Við vorum eldfljót í gegnum fríhöfnina og tollinn en þá beið Hrönn ekki eftir okkur. Eygló kveikti á símanum sínum og fékk skilaboð um að við gætum tekið því rólega í fríhöfninni þar sem Hrönn kæmi ekki alveg strax. Reyndar biðum við ekki lengi þarna. Í Hafnarfirði var síðan bílinn okkar og við drifum okkur bara heim. Gott að vera heima.