Jón Torfi rektor

Nú er að koma að rektorskosningunum og allir að tala um hvern þeir ætli að kjósa. Ég hef ákveðið að velja Jón Torfa núna á fimmtudag. Það er annars erfitt að velja þegar málefnaágreiningur er nær enginn.

Ég útiloka Ágúst af því að hann talar um að leyfa skólagjöld í ákveðnum greinum í framhaldsnámi, hann telur að það muni ekki opna fyrir gjöld annars staðar en ég er því ósammála.

Ég held að Kristínu vanti aðeins upp á það að vera nógu góður málsvari Háskólans, hún kemur ekki nógu vel fyrir. Við þurfum einhvern sem getur rifið aðeins meiri kjaft.

Einar virðist að mörgu leyti vera fínn, ég er samt ekki alveg að kaupa hann.

Jón Torfi er sá sem ég hef haft mest kynni af, þó lítil séu. Af því sem ég hef séð þá ætti hann að geta orðið mjög góður rektor. Mér skilst að það sé eiginlega alfarið hans stefnumörkun að þakka að Félagsvísindadeild er ekki í stórskuld einsog til dæmis Hugvísindadeild. Hann hefur líka áhuga og þekkingu á kennslumálum sem ég tel að séu afar mikilvæg fyrir stúdenta. Hann er líka sá sem ég tel að verði bestur fyrir Bókhlöðuna.

Þarna er komin gullin þrenna sem mótar ákvörðun mína, betri rekstur, betri kennsla og betri Bókhlaða. Kýs Jón Torfa.