Færeyjaferðarsaga

Fór til Færeyja… höfum það aðeins lengra.

Undirbúningur og tafir
Byrjum á byrjuninni sem er oft góður staður til slíks. Mánudaginn 18. júlí var Eygló að lesa Grapevine og spurði hvort ég vildi fara á G!Fest. Ég varð hálfsár því ég hafði skoðað hvort ég kæmist en áætlunarflugið fór ekki fyrren um föstudagskvöldið og Týr áttu að spila þá (þetta hafði reyndar breyst í millitíðinni). Eygló benti mér á að flugið færi klukkan eitt á föstudag og innifalið í þessu væri rúta, miði, tjaldsstæði og morgunmatur. Ég gekk í gegnum voðalega krísu, hafði ætlað á svipaða hátíð í fyrra en fékk þá óvart vinnu sem ég byrjaði í þá helgi. Eygló var of jákvæð þannig að ég hringdi og athugaði hvort það væru miðar og þá voru átta eftir. Í vinnunni daginn eftir viðraði ég áætlanir um að fara eftir hádegi á föstudag og það voru allir tilbúnir í að leyfa mér það. Jákvæðni fólks í kringum mig varð til þess að ég lét taka frá fyrir mig miða.

Einsog kom áður fram hér þá var ég tilbúinn að fara á flugvöllinn klukkan 11:42, búinn að skófla í mig matnum, slökkva á tölvunni og fara í útifötin. Þá var hringt og mér sagt að þetta tefðist til klukkan 16:00 vegna þoku í Færeyjum. Ég rölti þá að tölvunni og kíkti á vefmyndavél sem er beint að flugvellinum í Vogum, varla ský á lofti. Ég sendi email til Jóns Trausta hjá Grapevine og fékk svar frá honum stuttu seinna þar sem hann virtist vera pirraður. Ég hélt að hann væri pirraður á mér en svo var ekki, hann var að komast að því að flugfélagið væri að ljúga blákalt að okkur.

Ég fór heim uppúr tvö, kom við í Rúmfatalagernum og keypti sjálfuppblásanlega dýnu sem að lokum virkaði varla. Það tók mikið á að fá hana til að virka smá. Ég skóflaði í mig meiri mat heima og fór síðan á flugvöllinn. Þar sé ég glottandi guðfræðipönkarann Árna Þorlák með konu sinni Tinnu. Þar sem ég hafði oft hitt þau á Týstónleikum datt mér strax í hug að þau væru á leið til Færeyja og fékk það staðfest. Þvílík heppni. Skipulegg ferð án þess að þekkja nokkurn sem er að fara og hitta síðan gamlan vin úr MA á vellinum. Æðislegt.

Við spjölluðum á vellinum í dáltinn tíma, fólk var að pískra um hvað hefði skeð og hve töfin yrði mikil í viðbót. Jón Trausti kom þá og gerðist svo góður að útskýra málið sem var þá komið á hreint. Flugfélagið hafði daginn áður verið að ferja íslenska hljómsveit, VaGinas einsog kom seinna í ljós, til Færeyja daginn áður. Flugfélagið gleymdi að sækja um lendingarleyfi í Færeyjum og endaði á Hjaltlandseyjum, þar með var ferðin eyðilögð alveg fyrir VaGinas. Síðan þurftu þeir að fara fram og til baka milli Íslands og Færeyja þannig að okkar ferð frestaðist. Síðan lugu þeir (hjá flugfélaginu) bara að okkur um ástæðu tafarinnar, alveg ótrúlegt. Fluginu var þá frestað og við áttum að koma til baka um klukkan 17:30 og flugvélin átti að fara klukkan 18:00 en það gekk ekki alveg eftir.

Ég fór heim og var þar í nær tvo tíma en rölti síðan út á flugvöll, þá var klukkan að verða 17:00. Hitti þar Árna Þorlák og hans frú Tinnu. Við þurftum að bíða í svona klukkutíma þar. Árni spilaði á gítarinn sinn fimm strengja fyrir okkur. Tónlist Árna fær alveg fimm strengi á skalanum núll til sex.

Fríhöfnin á Reykjavíkurflugvelli var ekki glæsileg en samt keypti ég þar drasl. Sjónauka, Rís og Tavernersmola (ekki samt coffee drops því þeir voru ekki til!). Aðrir voru meira í áfenginu. Við röltum næst út að flugvél þar sem nokkrir lentu í vandræðum vegna reykinga á flugbrautinni. Gæslumaðurinn sagði að það væri bannað af því að það væri bensín þarna út um alla braut, ég sem hélt það væri slæm hugmynd að hafa bensín út um allt, sérstaklega á flugvöllum. Það má víst skjóta fólk sem reykir þarna, kannski ekki sjö sinnum í hausinn en allavega einu sinni laust í löppina.

Á leið til Götu
Ég var feginn þegar ég sá flugvélina því að hún var nokkuð traust, stálgrá Dornier vél með tveim hreyflum og sex spöðum. Þegar í vélina var komið fór ég að leita að sætinu mínu. Það gekk illa. Sætið mitt var 11B en það voru engin B, ekki heldur C. Það voru sæti merkt A, D og F. Miðarnir okkar voru líka miðaðir við fjórar sætaraðir (ABCD) en ekki þrjár. Frjálst sætaval var niðurstaðan, sömu sæti aftur heim. Þetta var annars þrefalt flugfélag, hét íslensku nafni sem ég man ekki hvað var en vélin var merkt Lions Air. Við vorum hins vegar boðin velkomin í City Star Airlines. Frá Aberdeen. Við fórum í loftið klukkan hálf átta. Taka skal fram að tíminn í Færeyjum var +1 klukkutími.

Við sáum landið ágætlega á leiðinni. Árni reyndi að nefna landslagið en ég hef aldrei séð tilganginn í því, eða aldrei nennt því eða eitthvað. Til þess að bæta okkur töfina var helt í fólkið áfengi og, í mínu tilfelli, kóki. Reyndar endaði ég að hirða litla rauðvínsflösku sem ég gaf á laugardagskvöldið þegar íslenskt áfengi var á þrotum. Flugfreyjan Veronica var einstaklega hress og ljúf.

Á leiðinni niður að flugvellinum var gaman, bara einstök ský að læðast yfir eyjurnar. Allt alveg einstaklega glæsilegt. Ég gleymdi að verða flughræddur og tók bara myndir í staðinn. Reyndar var leiðin sem flugmaðurinn tók einsog hann hefði gleymt á hvaða eyju flugvöllurinn var. En við lentum í heilu lagi og komum okkur inn í flugstöðina. Sumir héldu að það væri duty-free í Vogum, þeir urðu fyrir vonbrigðum. Árni hafði í Reykjavík sett gítarinn sinn í farangursrýmið og hann kom merkilega heill í gegn, reyndar var hann ennþá bara með fimm strengi.

Ég komst frá Íslandi til Færeyja án þess að sýna skilríki. Þegar við vorum komin út úr flugstöðinni þá fóru margir að reykja, ég fór hins vegar inn í rútuna. Það tók langan tíma að hlaða Íslendingum inn í rútuna, sérstaklega var Ósk erfið. Þegar komið var í rútuna þá var ég spurður, af Bessa þó ég vissi ekki nafnið þá, hvort ég væri færeyskur. Hann hélt þetta af því að hann hafði svo oft séð mig á Týstónleikum.

Drukknir Íslendingar láta illa að stjórn. Þegar allir voru komnir í rútuna þá var farið að angra bílstjórann. Tvisvar var sungið “áfram, áfram bílstjóri” og meikaði það aðeins meiri sens heldur en þegar það var gert í flugvélinni. Bílstjórinn var frábær, hét Andreas minnir mig (nafnið hans var á rútunni og reyndar fleiri rútum), ekta Færeyjingur sem gat nokkurn veginn talað íslensku og færeysku í bland. Þarna fengu Íslendingar útrás fyrir “hvað þýðir að fleygja sér?” og sambærilegar spurningar. Hann tók þessu bara vel. Hann sagði okkur aðeins frá því sem við sáum á meðan ég sat við hlið hans og tók fullt af myndum af öllu.

Þegar við nálguðumst Götu þá minntist einhver á Þránd þannig að ég fór í hljóðnemann og sagði þá sögu. Menn voru misjafnalega áhugasamir en það var klappað fyrir mér. Ég spjallaði síðan dáltið við bílstjórann sem sagði að bæði hann og börnin hans væru stórir Týsaðdáendur, sá hann líka daginn eftir rétt áður en Týr spilaði. Í rútunni fengum við G!Fest uppblásanlegan kodda, armbönd fyrir tjaldstæðið og festið sjálft, morgunverðamiða (sem sumir síðan týndu) og ól um hálsinn sem var með lista yfir hverjir væru að spila hvenær og hvar. Sunneva Færeyjingur sá um að festa böndin á okkur. Hún var mikið í að skipuleggja G!. Hún hefði mátt taka með sér skæri því endarnir á böndunum voru aðeins og langir. Ég nagaði mína enda af um nóttina.

Tjaldað og Tvöhundruð
Við komumst loks til Götu að ganga 23, búin að missa af nokkrum hljómsveitum. Rútan var tæmd (nema VIP-liðið sem fór á skátaheimili) og við fórum að finna okkur tjaldstæði. Það gekk ekki vel. Íslendingarnir vildu halda sig saman, við Árni vorum ekki of spenntir fyrir því til að byrja með (að fara til Færeyja til að hanga með Íslendingum) en Tinna dró okkur eiginlega inn í þetta. Þegar við vorum aðeins byrjuð að leita að stæði þá sáu Tinna og Árni að þeim vantaði áfengispokann sinn, þau komust að þeirri niðurstöðu að pokinn væri í rútunni þannig að Árni hljóp á eftir henni og endaði í þarnæsta bæ án þess að finna hann. Ég tók þá á mig að halda á tjaldinu þeirra sem var gamalt og þungt.

Við fundum eftir smá tíma svæði sem var nærri tómt, byrjuðum að koma okkur fyrir þar en vorum síðan rekin í burtu með þeim orðum að þetta væri fjölskyldusvæði. Hver er ekki fjölskylda eða einsog segir í diskósmellinum “we are family”. Ég veit ekki hve oft ég hrasaði um tjaldsnúrur og tjöld á meðan við vorum að leita að stæði en það var oft, sama með öll hin. Bakpokinn minn var ekki léttur.

Að lokum fann ég smá svæði sem hægt var að troða bæði tjaldinu mínu og síðan Árna og Tinnutjaldi. Það endaði samt þannig að það fóru allavega sex íslensk tjöld á þetta svæði. Á milli tjaldanna okkar voru tvær færeyskir strákar í sínu tjaldi, allt í einu umkringdir Íslendingum. Ég tjaldaði alveg við endimörk tjaldsvæðisins, rétt við pissaðstöðuna (sem var kartöflugarður einhvers). Það var líka kirkja þarna rétt hjá sem kemur seinna við sögu. Á meðan við vorum að setja upp tjöldin kom ónefndur Íslendingur til okkar og sagði glaður að hann hefði fundið fullt af áfengi. Tinna var nú fljót að átta sig að þarna væri hennar poki kominn. Árni var þá á leið til eða frá þarnæsta bæ. Bessi og Helgi voru ekki jafn heppnir með pokann sinn, hann týndist og fannst ekki aftur.

Stoltur segi ég að ég var einn um að koma tjaldinu mínu rétt upp fyrsta kvöldið en hinir voru reyndar drukknir. Krummi og Hafdís voru við hliðina á mér, þau eru átján ára par en pabbi hans er víst frægur maður þó ég nefni hann ekki. Krummi vinnur við að setja upp stór veislutjöld en réð ekki við litla tjaldið. Árni og Tinna fundu ekki eina súluna sem átti að vera í tjaldinu sem olli því að það hrundi nokkrum sinnum yfir helgina. Það má kannski minna á að ég var ódrukkinn ólíkt flestum þarna.

Næsta tjald við mig var lágreist tjald, í þessu klassíska þríhyrningslaga formi. Það var frekar illa statt þegar við komum en þegar eigandinn kom á svæðið þá sagði ég við Árna að þó tjaldið væri í vondu ásigkomulagi þá væri eigandinn nú verr staddur. Árni hélt að eigandinn væri nú bara að leita að einhverju á jörðinni en ég benti á að náunginn hefði verið svona í um tíu mínútur. Hann skreið loksins inn í tjaldið og var aðeins hressari þegar við hittum hann daginn eftir.

Það var sérstakt að sjá hvernig hann tjaldaði, í stað klassískra tjaldhæla þá hafði hann notað bjórflöskur. Hann útskýrði þetta þegar hann vaknaði. Þegar hann kom þá fattaði hann að hælarnir höfðu gleymst. Hann pældi mikið í því hvað hann ætti að gera og áttaði sig á að bjórflöskur gætu fúnkerað sem tjaldhælar. Hann tók sig þá til við að tæma (drekka) nógu margar flöskur til að halda tjaldinu stöðugu, það voru tíu flöskur sem hann drakk eins hratt og hann gat. Það útskýrði ástandið á honum þegar við sáum hann.

Ég kom mér niður í sandinn til að ná þeirri hljómsveit sem ég var spenntastur fyrir það kvöldið, 200. Þeir komu á sviðið um á miðnætti og það var pönk, helvíti, fokkjúmerki og áróður gegn Dönum. Þeir eru flottir, keypti diskana þeirra, síðermabol og fokkjústyttu daginn eftir. Ég hefði viljað skilja textanna en náði bara hlutum einsog “Sambandsflokkurinn” og síðan ótal “oh, baby”.

Á meðan 200 voru að spila leit ég til hliðar og sá reiða, fulla, litla stelpu sem var að rífast eitthvað. Ég starði á hana og þegar hún leit á mig áttaði ég mig á að það væri Sanna. Hún horfði furðu lostin á mig og við föðmuðumst aðeins. Hún er nýútskrifuð og flutt heim til Klaksvíkur skilst mér en hávaðinn var of mikill til að ég gæti verið viss.

Pissufen og næturspjall
Íslendingarnir voru voða spenntir fyrir Hjálmum en ég nennti eiginlega ekki að eyða tímanum að horfa á þá, ekki stór aðdáandi. Ég rölti aftur á tjaldstæðið og ákvað að skila smá af kókinu sem ég fékk frá Veronicu í flugvélinni. Ég steig út fyrir girðinguna og oní skurð, fóturinn sökk niður og ég hélt að skórinn kæmi aldrei upp aftur. Ég var semsagt í drullu upp að hné. Tilhugsunin um hve margir hefðu pissað þarna var ekki til að hressa mig. Ég dró sjálfan mig upp sem var erfitt því ég sperrti fótinn um leið til að missa ekki skóinn.

Þegar upp var komið ákvað ég að koma mér inn í tjald og hreinsa mig. Þarna kom í ljós hve góða ráðleggingu ég fékk nokkru fyrr. Vinkona Ella, Kobba, Lalla og Sverris hafði sagt okkur frá því að hafa Baby Wipes klúta með þegar við færum á einhver svona festivöl, það væri í raun ómissandi. Ég dró upp klútana og hreinsaði skítinn af fótleggnum. Buxurnar voru ekki sérstaklega óhreinar því skálmin hafði bara farið upp að hné. Fótleggurinn var hins vegar brúnn af drullu. En Baby Wipes svínvirkaði. Ég bara nokkuð hreinn þó ég væri ekki sérstaklega hress. Skórinn var líka ógeðslegur en ég náði mesta jukkinu af. Þegar þarna var komið var ég að spá alvarlega hvort þessi ferð hefði verið mistök. Ég ákvað þarna að hringja í Eygló og hressti það mig töluvert upp. Ég er stundum svoltið vonlaus án hennar.

Aðalskemmtun næturinnar var síðan bara spjall. Við Árni og Tinna komum okkur fyrir, hittum Færeyjingana tvo sem voru óvænt í Íslendingabúðum. Þeir hétu Dan (eða Dann) og Harsmann (eða eitthvað allt annað). Ég varaði fólk við pissufeninu en samt datt Krummi svona fimm sinnum oní það. Það var gestagangur frameftir, fólk kom og fór en við fórum að lokum að sofa um fjögur eða fimm. Ég sofnaði samt varla neitt fyrren kannski sjö.

Ég spjallaði reyndar áfram þó ég væri í tjaldinu mínu. Úti voru Krummi og Hafdís að spjalla við fólk. Hafdís hitti Færeyjing með voða falleg augu, hann hét Karsten ef ég man rétt. Einhver settist síðan á tjaldið mitt og mig í leiðinni en það fór ekki illa. Hafdís og Krummi lugu því að þau væru í brúðkaupsferð. Þau reyndu líka að kaupa bjór af Færeyjingum en þeir vildu bara gefa bjórinn. Síðan var erfitt fyrir Hafdísi að fara að pissa af því að það var fólk í kring. Fullt af fólki datt í pissufenið um nóttina.

Rölt um Götu
Vekjaraklukkan mín var stillt á níu og ég náði einhvern veginn að komast á fætur þá. Mér hafði verið sagt að morgunmaturinn yrði niðrí bæ þar sem aðgöngumerkin voru seld, svo var ekki. En ég tölti um bæinn og hló að skiltunum, *Út í bö* er fyndið götunafn, *Við gjónna* er líka skondið.

Ég fann matinn og sá mér til mikillar gleði að þarna voru ótal kassar með myndum af heitri pizzu. Ég rétti miðann minn og fékk kassa, hann var kaldur. Í kassanum voru tvö smábrauð, smjör, ostasneiðar, salamiálegg, kakósmjör og einhver sulta. Og banani. Ég hitti síðan Árna og Tinnu sem höfðu líka náð að vakna. Tinna fékk auka banana. Þetta var nú alveg fín brauð en kassarnir voru blekkjandi og til þess fallnir að vekja falskar vonir.

Eftir mat röltum við út í næsta bæ. Það var erfitt að skilja hvað var einn bær og hver var sá næsti, kom því ekki á hreint fyrren ég kom heim. Festið var í Suður-Götu og tjaldsstæðið í Götugjógv. Ég þarf að skoða þetta á korti. Við komum við í kirkjugarði og skoðuðum legsteina. Mér þótti fallegt að á einum stóð einfaldlega “Takk” og á nokkrum “Takk fyrir allt”.

Þegar við komum í Norðurgöta (semsagt aðal Götan) þá röltum við um. Í læknum voru einhver seyði sem Árni var skotinn í. Við skoðuðum kirkju að utan og síðan fórum við í Samkeyp. Þar keypti ég disk með 200, Jolly Cola og Squash. Fann ekkert mikið meira áhugavert þar. Sá reyndar ókeypis blað þar sem er viðtal við Sunnevu, verð að lesa það við tækifæri.

Týr á sviði og utan þess
Við röltum heim í tjaldbúðir. Fólkið var að vakna, búið að missa af morgunmatnum. Við sátum og spjölluðum aðeins. Það endaði þannig að ég rölti niður á hátíðarsvæði og keypti mér vöfflur með Helga og Bessa. Rölti aðeins um. Allt í einu verð ég var við læti í bíl þarna og sé þá að þarna eru Heri og Gunnar komnir.

Þeir voru að koma með tækin og tólin sín og þurftu einhvern annan bíl til að komast inn á svæðið. Ég spjallaði dáltið við þá meðan beðið var eftir bílnum og síðan röltum við Heri saman niður í bæ. Heri þakkaði mér fyrir veðrið sem var akkúrat þá að breytast til batnaðar (og ég brann). Sólskin og hann í leðurjakka. Erfitt að vera rokkari. Eftir göngutúrinn þá kvaddi ég Heri, hann fór inn á VIP-svæðið en ég var eftir fyrir utan einsog þriðja flokks grúppía.

Á meðan þessu stóð var “faurauskur trass metall” í gangi, ég missti eiginlega af því. Heyrðist þeir vera ágætir. Endaði á tjaldstæðinu aftur þar sem við ræddum um væntanlega tónleika Týs. Greinilegt að margir voru aðallega þarna útaf þeim. Ég var samt fyrstur að koma mér aftur niður á Sandinn. Þegar þangað kom voru strákarnir byrjaðir með sándtjékkið og ég ákvað að planta mér bara fremst og fylgjast með. Það var bara gaman.

Sándtjékkinu lauk og Týr yfirgaf sviðið. Það leið ekki á löngu þar til að kynnirinn kom á svið og kynnti þá (einsog kynnar gera). Hann talaði eitthvað um kvæðin og víkinga. Týr kom á sviðið á áhorfendur voru glaðir. Sérstaklega kannski Íslendingar. Þeir byrjuðu á að spila, það sem mér var seinna sagt að væri, nýtt lag. Það var nokkuð skemmtilegt, Gunnar í ofsastuði og þarna sá ég Terji spila í fyrsta skipti í þrjú ár. Ég tek tónleikana ekki fyrir í heild sinni hér en eini gallinn var að þeir voru of stuttir. Mistök hjá tónleikahöldurum enda var fólk lengi á eftir að öskra á meira.

Ég ákvað að fara að innganginum að VIP-svæðinu til að athuga hvort Týssararnir væru þar. Þarna voru þeir að gefa eiginhandaáritanir. Ég heilsaði Terji sem ekki var nógu heppinn að hafa fengið hjá mér pönnukökur á sínum tíma. Spjallaði síðan við Kára en aðallega Gunnar. Gunnar upplýsti mig aðeins um það hvers vegna þeir væru ekki spenntir fyrir að koma til Íslands strax. Heri og Sigrid eru víst nýbúin að eignast barn og Gunnar mun væntanlega eignast barn eða börn(!) í ágúst. Ég óskaði þeim mikið til hamingju með þetta. Ég fékk síðan að vita að planið þeirra væri að byrja upptökur á næstu plötu mánuði eftir að Gunnar yrði pabbi.

Hakkí, spjall og ógeðfelldur matur
Eftir þetta fór ég niður á Sandinn og endaði þar með Íslendingum. Árni fór að spila Hakkí við hina og þessa, meiraðsegja eftir að danska hljómsveitin Nephew byrjaði að spila. Þeir voru líka ekkert spes. Ég spjallaði líka aðeins við drukkinn Færeyjing um hitt og þetta. Hann útskýrði fyrir mér að þegar hann var lítill þá hefði það verið þannig að öllum hefði þótt Sigmundur Brestisson vera voðaleg hetja af því hann kom með kristnina en síðustu árin hefði það breyst. Núna væri það svo að margir litu á Þránd í Götu sem sjálfsstæðishetju og Sigmund sem útsendara erlends konungs. Sem er náttúrulega rétt.

Ég fór af Sandinum og rölti um. Hitti Týssarana aðeins og kom þá hamingjuóskum frá Eygló til skila. Fékk mér að borða einhvern viðbjóðsrétt sem endaði að stórum hluta í ruslinu. Ég var ekki alveg viss um hvort að kjötið í réttinum væri lamb eða kjúklingur. Mér þótti reyndar fyndið að þegar ég settist niður til að borða þá hópuðust Íslendingarnir að mér, þeim fannst ég einmanalegur eða eitthvað. Ég skrapp síðan aðeins í burtu og þegar ég kom þarna aftur þá voru eiginlega allir Íslendingarnir úr “mínum” hóp búnir að safnast saman þarna. Ég verð að segja að þetta var indæll hópur og skemmtilegur. Vanalega er ég ekki svona fljótur að mynda tengsl við fólk en það gerðist þarna. Gerði ferðina skemmtilegri.

Á tímabili held ég að öll aðal almenningssalernin í bænum hafi verið biluð. Við fórum nokkur saman í skólann þar sem salernisaðstaða tjaldsvæðisins var (fyrir utan kartöflugarðinn heima) og allt var stíflað. Menn voru samt að vinna í þessu og þetta komst í lag seinna um kvöldið.

Europe, sjógangur og æla
Ég rakst enn og aftur á Týssarana rétt áður en Europe byrjaði að spila. Heri var þá tilbúinn með diskana til að fá áritun hjá Svíunum og ég kvaddi hann þegar hann fór inn á VIP-svæðið í þeim tilgangi. Sá hann reyndar ekki aftur. Ég fór niður á Sandinn og hitti þar Árna, Tinnu og Ástþór. Við vorum eiginlega alveg við sjóinn og því í hættu á að blotna. Það var nefnilega flóð. Sjálfur hefði ég látið stærsta númerið á svið á meðan það væri fjara. Á meðan Europe spilaði þá var reglulega fólk að hlaupa eftir ströndinni á meðan færi gafst til að komast framar, stundum þurfti þetta fólk að hlaupa á okkur til að lenda ekki í öldum.

Hvernig var Europe? Ekkert spes. Hljómsveitin var kynnt sem stærsta rokkhljómsveit sem hefði nokkru sinni komið frá Skandínavíu. Carrie var nokkuð gott hjá þeim og síðan var voða gaman að heyra Final Countdown (hafið þið tekið eftir hve óvitrænn textinn við það lag er?). Ég mótaði þá kenningu að Europe ætlaði að fá þrjú uppklöpp áður en þeir tæku Final Countdown en þeir spiluðu það reyndar seinast í fyrsta (eina) uppklappinu.

Á meðan Europe spilaði þá var Ástþór að reyna að vera leiðinlegur við fólk og tókst það ágætlega. Hápunkturinn hjá honum var þegar hann rétti Árna veskið sitt og síma og gekk í sjóinn. Þetta vakti mikla athygli en hann var tekinn upp í einn af þeim fjölmörgu bátum sem voru þarna (að svindla sér á tónleikana). Hann kom aftur eftir smá tíma og fór þá að angra mig. Síðan fór hann að angra einn meðlim reggíhljómsveitarinnar Hjálma. Það endaði með því að Ástþór lá eftir í sandinum. Árni nýtti tækifærið og sparkaði nokkrum sinnum í hann, eða þóttist gera það. Uppúr þessu samdi ég sögu um að Ástþór hefði verið laminn af náunga úr Hjálmum og það væri í fyrsta skiptið sem einhver úr þeirri hljómsveit hefði unnið í slagsmálum.

Við röltum um svæðið. Enduðum á tjaldsvæðinu. Þar var Ástþór kominn mjög svo óhress. Hann ældi og skreið síðan inn í tjald. Þrátt fyrir leiðindin í honum þá er eiginlega ekki hægt að láta sér líka illa við hann. Árni lét pappadisk yfir æluna og við röltum niður í bæ. Við höfðum verið að pæla í að fara til Þórshafnar næsta morgun þannig að ég ákvað að spyrja Færeyjinga hvað það kostaði í rútu. Þetta endaði með því að ég fékk fyrirlestur um rútukerfið án þess að fá nokkra vitneskju um hve mikið það kostaði. Ég fékk líka sígarettureyk ítrekað framan í mig og það gerði mig óhressan. Ég veit ekki klukkan hvað ég fór að sofa, kannski 3 eða 4. Ég gat bara ekki enst lengur enda svaf ég bara í svona tvo tíma nóttina áður.

Vaknað og húkkað
Ég hafði stillt vekjarann á 9 en það var óþarfi þar sem helvítis kirkjubjöllurnar hringdu í svona tíu mínútur um 9 leytið. Ég var svo hissa að nokkur maður skyldi geta annað en dregið sig á fætur á meðan þessu stóð en það voru bara Ósk, Helgi og ég sem fórum á fætur. Við Ósk náðum í morgunmatinn okkar, það var það sama og daginn áður nema að nú fengum við peru en ekki banana. Ósk endaði með að skríða aftur inn í tjald en ég ákvað að taka saman dótið mitt. Rútan til Þórshafnar átti ekki að fara fyrr en 12:45 og ég bara nennti ekki að bíða svo lengi. Ég gekk frá dótinu og ætlaði að fara með það niður á veg og húkka far. Þá bauðst Helgi, sem hafði ákveðið að fara ekki til Þórshafnar, til þess að taka stóra bakpokann. Ég er honum voðalega þakklátur.

Ég fór niður að veg og stakk út fingrinum. Ég er reyndar ekki mikill húkkari, þetta var eiginlega ný reynsla fyrir mig. Það tók kannski tíu mínútur að fá far frá Götu. Fyrsti bílinn sem ég fékk var með var jepplingur án aftursæta, ég sat semsagt í farangursrými. Það voru miðaldra hjón sem tóku mig upp í. Á leiðinni gaf konan mér brauð sem mér fannst satt best að segja ógeðslegt en át samt. Þau létu mig út við bæjinn Eyrarbakka (íslenskuð stafsetning). Þar var ekkert opið, bensínstöðin sem ég var við átti að opna klukkan 14:00 en þarna var klukkan um 11. Ég fór yfir brúnna til að vera betur staðsettur og beið.

Og beið í 25 mínútur eða svo. Þá stoppaði bíll fyrir mér. Í honum voru bandarískar konur og Færeyjingur. Ég spjallaði mikið við konuna sem var afturí. Hún var frá Atlanta og fannst ég vita mikið um borgina þegar ég nefndi Kókakóla, CNN og Sherman. Hin konan var skólabókavörður en ég spjallaði ekki mikið við hana. Þau létu mig út í Kollafirði við hringtorgið (áður Krossinn) þar sem maður velur hvort maður fari til Voga eða Þórshafnar.

Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir fari þar, færeyskir unglingar tóku mig uppí. Þau voru einmitt að koma af G!Fest. Ég sat hjá stelpu sem var hálfsofandi undir sæng. Bílstjórinn ók greitt þannig að ég reyndi að spenna beltin en það gekk ekki. Þegar til Þórshafnar kom þá var ég spurður hvar ætti að láta mig út. Ég var ekki alveg viss en þar sem ég hafði heimilisfangið hjá Heri og Sigrid þá nefndi ég það. Unglingarnir keyrðu mig alla leið og saman hlustuðum við á Rain með Jet Black Joe. Indælt fólk.

Villumsgata, Kirkjubær og downtown Þórshöfn
Ég ákvað að rölta að húsinu þeirra og sjá hvort einhver væri á ferli, klukkan var rétt um 12. Ég fann húsið og sá hreyfingu þar. Ég bankaði og Sigrid kom til dyra. Hún var voða glöð að sjá mig, bauð mér inn og þar hitti ég pabba, mömmu, bróður og barnið hennar nýja. Þau buðu mér í te og brauð. Það voru engir tungumálaerfiðleikar á þessu heimili enda er mamma Sigrid, hún Sveiney, íslensk. Sverrir bróðir hennar var í menntaskóla á Íslandi og pabbi hennar bjó líka hér í einhver ár.

Eftir mat og spjall þá bauð Sverrir mér í bíltúr. Við fórum að Kirkjubæ og skoðuðum þar í kring. Reyndar er kirkjan ekki jafn magnþrungin og hún er vanalega þar sem að nú er verið að forverja hana. Hún er í svörtum kjól. Eftir þennan túr fórum við aftur til Þórshafnar og röltum þar um. Á gangi þar um hitti ég Ásdísi uppeldisfræðing, hún var þarna í brúðkaupi. Ég spjallaði ekki mikið við hana en hélt áfram röltinu. Ég tók myndir af skrýtnum skiltum og áhugaverðum hlutum. Það var voðalega gaman að spjalla við Sverri, ekkert vandræðalegt eða skrýtið þó við hefðum hist í fyrsta skiptið rétt áður. Sverrir er leikskólakennari og býr í Hróarskeldu. Verð að fara í heimsókn þangað ef ég fer á það festival.

Þegar heim var komið var ég orðinn nokkuð dasaður. Ég skoðaði geisladiskana hjá Heri og Sigrid. Þar sá ég demódiskinn sem Týr hafði gefið út áður en þeir gerðu fyrstu plötuna. Sigrid sagði að þau ættu nokkra eftir og ég ákvað að biðja um eitt stykki ef þau mættu missa það. Reyndar hafði Gunnar boðið mér eitt stykki þegar ég fékk þau í pönnukökur en ég hafði ekki fylgt því eftir þá. Ég fékk disk, reyndar akkúrat diskinn sem þau voru með í hillunni. Hann er einn af fyrstu sem gerðir voru, bæklingurinn er bara prentaður á venjulegan pappír og klipptur til. Aðalútgáfan af demóinu var síðan prentaður í alvöru prentsmiðju. Ég varð vægast sagt ánægður að fá þennan disk. Við fengum okkur aftur að borða og síðan litu ættingjar í heimsókn. Það var síðan um sexleytið sem Sverrir skutlaði mér á rútustöðina. Þar hitti ég fólk úr mínum hóp sem hafði drifið sig til Þórshafnar með rútunni. Góður árangur miðað við hve sofandi þau voru þegar ég fór.

Heim á leið
Rútuferðin að flugvellinum var ekki mjög spennandi. Reyndar var áhugavert að sjá hvað lækirnir þarna voru vatnslitlir eða jafnvel vatnslausir. Hitinn var greinilega að hafa áhrif og síðan hafði ekki rignt í einhvern tíma. Það kom nefnilega ekki dropi úr lofti á meðan ég var í Færeyjum, regnsláin kom ekki að neinum notum.

Þegar við komum á flugvöllinn fékk ég stóra bakpokann minn frá þeim indælu mönnum Helga og Bessa. Ég innritaði mig og sá síðan að Gunnar var þarna kominn. Hann var á leið til Danmerkur að hitta sína óléttu frú. Á meðan Gunnar fyllti út pöntun á bílaleigubíl þá fór ég að skoða Atlantic Review sem lá þarna. Ég horfði aðeins á forsíðuna og spurði síðan Gunnar:”Er þetta ekki Heri?” Jú, og síðan var Terji þarna líka. Gunnar sagði mér að þetta væri tekið á Summarfestivalnum árið áður. Hann var líka nokkuð viss um að hann ætti líka að vera þarna. Inn í blaðinu var síðan stærri útgáfa af myndinni þar sem hægt var að sjá að þarna var Gunnar líka, bara mjög hreyfður. Gunnar hafði ekki séð þetta blað áður og fannst nokkuð skondið.

Við fórum í veitingasöluna þarna þar sem ég fékk mér Jolly Cola og franskar en Gunnar fékk sér kaffi. Um leið og Gunnar settist þá kom tilkynning í hátalarakerfinu, fluginu hans var seinkað um tvo tíma. Hann var nokkuð fúll yfir þessu og hringdi í bróður sinn sem býr rétt við flugvöllinn. Ég benti honum á að allavega hefði hann fengið tækifæri til að bíða alltof lengi í röð eftir alltof dýru kaffi, það hressti hann. Gunnar sagði mér síðan aðeins frá kvöldinu áður. Það fór víst svo að Heri fékk enga áritun, Europe hleypti engum að sér, ekki einu sinni fjölmiðlum. Þeir voru víst líka að kvarta yfir því að áhorfendur hefðu verið erfiðir. Gunnari fannst þetta hálfgert væl í þeim.

Það leið ekki á löngu þar til að við vorum kölluð út í vél. Flugferðin heim var tíðindalítil. Ég gaf fólki homeblest sem ég átti eftir og líka Rísið sem ég hafði keypt í fríhöfninni í Reykjavík. Það var gott útsýni yfir Ísland á leiðinni heim þar til við nálguðumst Reykjavík, þá var allt í skýjum. Ég man ekki eftir annarri eins blindlendingu, við flugum í skýjum þar til að allt í einu birtist miðbær Reykjavíkur. Það var klappað fyrir flugmanninum þegar við lentum.

Það er áhugavert að það þurfti að leggja flugvélinni okkar langt frá flugstöðvarbyggingunni, greinilegt að við vorum neðarlega í goggunarröðinni. Ég keypti vín handa Eygló í fríhöfninni og hringdi síðan í hana til að hún gæti komið að sækja mig. Ég beið aðeins í tollinum því ég hélt að við ættum að gera það en síðan kom í ljós að svo var ekki og ég stakk af. Þurfti ekki heldur að sýna skilríki á leið frá Færeyjum til Íslands.

Eygló var komin. Ég kvaddi liðið, stríddi Ástþóri og fór síðan heim.