Bjórflöskutjaldhælar

Jæja, ennþá veikur heima. Pirrandi og ömurlegt.

En ég ætla að segja svoltið sem gleymdist í löngu og ítarlegu ferðasögunni.

Næsta tjald við mig var lágreist tjald, í þessu klassíska þríhyrningslaga formi. Það var frekar illa statt þegar við komum en þegar eigandinn kom á svæðið þá sagði ég við Árna að þó tjaldið væri í vondu ásigkomulagi þá væri eigandinn nú verr staddur. Árni hélt að eigandinn væri nú bara að leita að einhverju á jörðinni en ég benti á að náunginn hefði verið svona í um tíu mínútur. Hann skreið loksins inn í tjaldið og var hressari þegar við hittum hann daginn eftir.

Það var sérstakt að sjá hvernig hann tjaldaði, í stað klassískra tjaldhæla þá hafði hann notað bjórflöskur. Hann útskýrði þetta þegar hann vaknaði. Þegar hann kom kvöldið áður þá fattaði hann að hælarnir höfðu gleymst. Hann pældi mikið í því hvað hann ætti að gera og áttaði sig á að bjórflöskur gætu fúnkerað sem tjaldhælar. Hann tók sig þá til við að tæma/drekka nógu margar flöskur til að halda tjaldinu stöðugu, það voru tíu flöskur sem hann drakk eins hratt og hann gat. Það útskýrði ástandið á honum þegar við sáum hann.