Skál

Hér er mynd af Eygló og gestunum rétt áður en við skáluðum fyrir henni í gær. Ég flutti skálarræðuna og gerði mitt besta til að hafa hana stutta en jafnframt samhengislausa.

Reif í (sundur) fartölvu

Áðan reif ég í sundur fartölvuna hennar Eyglóar og festi rafmagnstengilinn betur. Þetta er ekki fullkomin viðgerð en dugar væntanlega í einhvern tíma. Ég þyrfti helst að lóða þetta en ég kemst ekki almennilega að nema að taka innviðið í sundur. Verð að játa að á tímabili efaðist ég um að ég gæti sett þetta aftur saman en það hafðist á endanum. Reyndar var vonda skapið ekki gott fyrir vandvirknina. Hugsanlega finn ég einhverjar skrúfur á morgun sem engin veit hvar áttu að vera. Hugsanlega þarf maður bara að fleygja þeim aftur fyrir sig, út um glugga, til að bjarga málunum.

Ranganathan

Hef kannski vanrækt bókasafns- og upplýsingafræðinördisma hér á síðunni.

Lögmál Ranganathans:
1. Bækur eru til notkunar
2. Bók fyrir hvern notanda.

3. Notandi fyrir hverja bók.

4. Sparaðu tíma lesandans.

5. Bókasafn er lifandi vera.

Okkur nördaklíkunni tókst ekki nema að muna fyrstu þrjú lögmálin í veislunni áðan. Skammskamm. Ranganathan var flottur.

Ég heiti Earl

Það er nú ekki annað hægt að segja en að My name is Earl sé einhver skemmtilegasti sjónvarpsþáttur sem fram hefur komið lengi. Jason Lee hefur náttúrulega mikið karisma og hinir leikararnir eru nokkuð góðir líka. Þátturinn fjallar semsagt um leiðindagaur sem hefur gert margt af sér en ákveður að snúa við blaðinu. Hann gerir lista yfir það sem hann hefur gert af sér og reynir að laga mistök sín. Vonandi hefur einhver sjónvarpsstöð hér á landi vit á að sýna þessa mögnuðu þætti.