Safngestir athugið, ég er farinn

BókavörðurÉg er ekki lengur bókavörður. Ég byrjaði sem bókavörður á Borgarbókasafninu sumarið 2004. Í ágúst 2004 byrjaði ég í hlutastarfi á Þjóðarbókhlöðunni, kvöld og helgar. Ég vann þar fram á vor og byrjaði aftur haustið 2005. Laugardagurinn fyrir viku átti að vera síðasti dagurinn minn en ég var veikur þann dag og reyndar líka næst síðasta daginn minn. Það var voðalegur bömmer að klára ekki síðustu vinnudagana. Ég á reyndar eftir að líta við til þess að ganga frá draslinu mínu, bæði í tölvunni og skápnum mínum.

Ég vann aðallega á fjórðu hæðinni. Mér líkaði vel við þetta starf. Það er fátt skemmtilegra heldur en að hjálpa fólki að finna upplýsingar sem það þarf á að halda. Ég væri í raun alveg til í að vinna við upplýsingaþjónustu. Mér líkaði hins vegar ekki að þurfa að eltast við fólk sem talaði í farsíma inn á safninu, niðurdrepandi.

Ég vann líka í aðalafgreiðslunni niðri. Það gat verið mjög stressandi þegar margir þurftu aðstoð.

Það hefur verið voðalega indælt að vera svona tengdur Háskólasamfélaginu öllu saman. Ég á eftir að sakna þess.

Ég á líka eftir að sakna samstarfsfólks míns þó ég muni vissulega hitta þau reglulega þegar ég kem á safnið sem gestur. Það er varla að ég geti farið að nefna fólk því það eru svo margir þarna. Ég verð þó að segja að ég mun sakna þess að spjalla við Óskar á kvöldin, ég á örugglega eftir að reyna að fara þarna í heimsókn til að spjalla. Síðan er það fastasti gesturinn sem hefur verið svo stór hluti af starfinu, það verður undarlegt að hitta hann ekki reglulega.

Ég held því fram að ég hafi verið einn sá besti í að tilkynna lokun safnsins. Safngestir athugið, klukkan er fimm og það er búið að loka húsinu.

3 thoughts on “Safngestir athugið, ég er farinn”

  1. Það er mikil eftirsjá í þér af safninu – og enn eykst kvennaríkið á þeim stað. Hvernig er þetta með bókasafns -og upplýsingafræðina, er ekkert á döfinn að reyna að fjölga karlpeningi í þeirri starfstétt?

  2. Er það liður í þagnarskyldu bókasafnsvarðarins að nefna ekki fastagestinn á nafn eða gera sér einfaldlega allir grein fyrir því að þetta er Ólafur Grímur.

  3. Félagsmaður skal gæta þagmælsku um persónulegar upplýsingar, t.d. um lán, fyrirspurnir og aðra þjónustu. Félagsmaður, sem starfar hjá stofnun/fyrirtæki, má ekki láta óviðkomandi í té upplýsingar, sem leynt eiga að fara, um starfsemi þess. Þagnarskylda helst að loknu starfi.

    Ég held í raun að ég megi í raun nefna gestinn en ég geri það ekki. Það eru alveg fleiri fastagestir en sá sem þú nefnir.

    Bókavörður en ekki bókasafnsvörður.

Lokað er á athugasemdir.